Nýr sorphirðuverktaki í Húnaþingi vestra

Í dag, 1. apríl 2016, tekur í gildi nýr verksamningur um sorpþjónustu í Húnaþingi vestra. Þann 23. mars s.l. var skrifað undir samning við Sorphreinsun Vilhelms Harðarsonar ehf. að undangengnu útboði. Samningurinn er til næstu 5 ára. Um leið og fyrri verktökum er þakkað samstarfið síðustu árin, þá bjóðum við Vilhelm og hans starfsfólk velkomið til starfa. Húnaþing vestra væntir mikils af samstarfi við nýjan verktaka. 

Helstu breytingar eru þær að sorphirða í vesturhluta Hrútafjarðar verður nú með sama hætti og annarsstaðar í sveitarfélaginu, þ.e. sorphirða á heimilissorpi fer fram við öll heimili. Fyrirtæki og rekstaraðilar annast sín sorpmál sjálfir og hafa þann kost að koma með úrgang á gámastöðina Hirðu á opnunartíma eða semja við verktaka um sorphirðu. Sorpílát fyrir sumarhúsaeigendur verða staðsett við Ormsá eins og verið hefur og á tjaldsvæðinu á Borðeyri.

Sorphirða mun fara fram á 3ja vikna fresti, árið um kring, nema í júlí og ágúst, á 2ja vikna fresti. Nýtt sorphirðudagatal verður gefið út á næstu vikum og verður sent til allra íbúa.

Húnaþing vestra verður með starfsmannahald hjá Hirðu gámastöð og verður það að mestu í höndum starfsmanna áhaldahúss. Sami opnunartími verður og verið hefur;

Sorpmóttökustöðin Hirða, Höfðabraut 34, 530 Hvammstanga

Opnunartími er: Miðvikudaga og föstudaga frá kl. 14-17 og laugardaga frá kl. 11-15.

Lokað á stórhátíðardögum.

 Verktaki annast alla þjónustu við Hirðu þar með talið gámaleigu og flutning úrgangsefna á viðkomandi staði. 

Húnaþing vestra hefur ákveðið að stíga skref til aukinnar flokkunar sorps með innleiðingu á sérstakri endurvinnslutunnu til heimila í sveitarfélaginu. 

Undanfarin ár hafa kröfur um flokkun sorps frá heimilum aukist mikið. Reglugerðir sem innleiddar hafa verið frá Evrópu gera kröfur um aukna flokkun og sama á við um landsáætlun um meðhöndlun úrgangs, sem sett er fram af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. 

Mörg sveitarfélög á landinu hafa tekið upp flokkun frá heimilum enda er krafa íbúa orðin sú að sveitarfélögin geri þeim auðveldara um vik að flokka, með því að færa þjónustuna nær íbúum. 

Á seinni hluta ársins 2016 er stefnt að innleiðingu á endurvinnslutunnum við heimili í Húnaþingi vestra. Öll heimili verða þá heimsótt og fyrirkomulagið kynnt íbúum. Fræðslubæklingur verður einnig sendur á hvert heimili með nánari upplýsingum um flokkun og endurvinnslu.

Markmið með aukinni flokkun sorps

Tilgangurinn er að auðvelda flokkun á sorpi og skapa um leið umhverfisvænna samfélag sem er í takt við stefnu Húnaþings vestra í umhverfismálum. Markmiðið er að fá alla íbúa sveitarfélagsins til að auka flokkun á úrgangi og draga um leið úr magni urðaðs úrgangs. 

Íbúar í Húnaþingi vestra eru hvattir til að taka þátt í nýju fyrirkomulagi með jákvæðu hugarfari fyrir okkur sjálf og umhverfið. 

Hugsum áður en við kaupum - hugsum áður en við hendum


Umhverfisstjóri Húnaþings vestra


Á vef Umhverfisstofnunar má finna fróðleiksmola varðandi endurvinnslu.

Var efnið á síðunni hjálplegt?