Nýr sviðsstjóri fjölskyldusviðs

Jenný Þórkatla Magnúsdóttir hefur verið ráðin nýr sviðsstjóri fjölskyldusviðs og mun hafa yfirumsjón með fræðslumálum, félagsþjónustu og íþrótta- og tómstundamálum í Húnaþingi vestra.  Hún hefur undanfarin 6 ár unnið sem verkefnastjóri og ráðgjafi hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, þar áður sem deildarstjóri í Hinu Húsinu, ráðgjafi hjá félagsþjónustu Reykjanesbæjar og deildarstjóri á leikskólanum Gimli.  Jenný Þórkatla sat sem aðalmaður í fjölskyldu- og félagsmálaráði Reykjanesbæjar, aðalmaður í íþrótta- og tómstundaráði Reykjanesbæjar og var formaður hjá Nes íþróttafélagi fatlaðra á Suðurnesjum.

Jenný lauk BA gráðu í þroskaþjálfun frá Kennaraháskóla Íslands 2005 auk þess að stunda nám á kennaralínu Rudolf Steinerhöyskolen í Osló í rúmt ár.  Þá hefur hún lokið stjórnunarnámi hjá Capacent og 30 tonna réttindum frá Siglingaskólanum auk fjölda starfstengdra námskeiða.

Alls bárust 9 umsóknir um sviðsstjórastarfið.  Jenný Þórkatla tekur við starfinu þann 1. október nk.

Jenný Þórkatla er gift Arnari Svanssyni og eiga þau tvö börn, Eyrúnu Unu 10 ára og Sæþór Breka 3 ára.

 


Var efnið á síðunni hjálplegt?