Nýr verkefnastjóri stjórnsýslu-, atvinnu- og kynningarmála

Daníel Arason hefur hafið störf sem verkefnastjóri stjórnsýslu-, atvinnu- og kynningarmála hjá sveitarfélaginu. Daníel mun m.a. hafa umsjón með heimasíðu og samfélagsmiðlum sveitarfélagsins, fyrirspurnarnetfanginu, skjalavinnslu, skipulagningu viðburða á vegum sveitarfélagsins og almenna þjónustu við íbúa. 

Daníel hefur lokið BA.Ed.Mus. gráðu í kennslufræðum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri, MA gráðu í mennta- og menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst auk þess að vera með Diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum á Bifröst.

Daníel starfaði síðast í rúm fjögur ár hjá sveitarfélaginu Vogum, fyrst sem menningarfulltrúi í eitt ár og síðast sem forstöðumaður stjórnsýslu í þrjú ár. Áður starfaði hann sem skólastjóri Tónlistarskólans á Egilsstöðum í fjögur ár og þar áður sem kennari við tónlistar- og grunnskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar í þrettán ár. Daníel hefur einnig sinnt öðrum kennslu- og skólastjórnendastörfum í nokkur ár þar á undan. Í gegnum störf sín hefur Daníel öðlast yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á opinberri stjórnsýslu, fjármálum og rekstri, styrkjaumsóknum, markaðs- og kynningarstörfum auk þess að hafa tekið virkan þátt í samfélagsuppbyggingu með setu í ýmsum starfshópum, stjórnum og íbúasamtökum, m.a. í tengslum við mótun fræðslustefnu Fjarðarbyggðar, sem formaður íbúasamtaka Eskifjarðar, í fagráði menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og við stjórnarsetu Kirkjukórasambands Austurlands.

Daníel er boðinn hjartanlega velkominn til starfa. 

Var efnið á síðunni hjálplegt?