Í tilefni af fréttaflutningi Bylgjunar um sölu rjúpnaveiðileyfa á vegum Húnaþings vestra er eftirfarandi komið á framfæri.
Eins og kom fram í fréttinni er ráðgert að Húnaþing vestra muni innheimta kr. 9.000,- fyrir rjúpnaveiðileyfi á eignarlöndum sveitarfélagsins, m.a. á Víðidalstunguheiði, Arnarvatnsheiði og Tvídægru. Í fréttinni kom fram að skotveiðmenn telji orka tvímælis að Húnaþingi vestra sé það heimilt. Með því er líklega vísað til sjónarmiða sem fulltrúar Skotvís hafa sett fram í fjölmiðlum um almannarétt til veiða samkvæmt ákvæðum laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Í 8. gr. veiðilaganna er gert ráð fyrir tilteknum almannarétti til veiða á afréttum, enda geti enginn sannað eignarétt sinn á þeim. Svæði sem Húnaþing vestra hyggst selja veiðileyfi á er óumdeilanlega háð einkaeignarétti sveitarfélagins og það staðfest með úrskurðum Óbyggðanefndar. Húnaþing vestra telur skýrt að ákvæði um almannrétt til veiða taki ekki til afrétta sem eru háðir einkaeignarrétti sveitarfélagsins og eru ekki þjóðlenda. Veiðar á slíkum svæðum eru háðar leyfi landeigenda. Það er ábyrgðarhluti ef félagasamtök eins og Skotvís séu hugsanlega að hvetja veiðimenn til að stunda veiðar í andstöðu við ákvæði laga.
Það skal jafnframt tekið fram að sveitarfélagið lítur svo á að með því að selja veiðileyfi á vinsæl svæði felist einnig skynsamleg stjórn á sókn í rjúpnastofninn. Það fyrirkomulag hefur mælst vel fyrir hjá mörgum veiðimönnum.