Ruslatínsla í fjörunni við Sanda

Ruslatínsla í fjörunni við Sanda

Óskum eftir sjálfboðaliðum í ruslatínslu í fjörunni við Sanda

Ungmennasamband Vestur-Húnvetninga og sveitarfélagið Húnaþing vestra óska eftir sjálfboðaliðum til að taka þátt í ruslatínslu í fjörunni við Sanda.

Stefna á þátttakendum í fimm fjörur á Norðurlandi vestra, þann 25. maí næstkomandi. Tvær fjörur eru staðsettar við Sauðárkrók, ein við Hvammstanga og tvær úti á Skaga – sjá mynd hér til hægri. Þátttakendur mæta í fjörurnar og byrjað verður á því kl. 10:00 að safna saman rusli. Í framhaldinu verða reistar vörður undir leiðsögn listamanna frá Listaháskóla Íslands, Nes listamiðstöð á Skagaströnd og Textíllistamiðstöðinni á Blönduósi. Reiknað er með því að dagskránni verði lokið í síðasta lagi kl. 16:00, en ekki þarf að taka þátt allan tímann. 
Markmiðið með verkefninu er að auka þekkingu almennings á umhverfismálum og mengun hafsins. Þema smiðjanna er „Varða“ en talið er að maðurinn hafi reist sér vörður allt frá steinöld. Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi stýrir verkefninu í samstarfi við Biopol á Skagaströnd en tveir  vísindamenn hjá Biopol eru búnir að þræða norðurströndina til að skoða fjörur þar sem rusl berst að landi. 

 

Í verkefninu felst að vísindin og listirnar leggja saman til að skapa vettvang til að vekja athygli á þeirri ógn sem mengun hafsins er lífi á jörðinni. Þátttakendur á hverjum stað ákveða undir leiðsögn þess listafólks sem leiðir þá vinnu hvernig þeir skilgreina sína vörðu og með hvaða hætti hún varpar ljósi á eða leggur til lausn/lausnir á mengun hafsins. Styrkur fékkst til verkefnsins bæði frá Uppbyggingarsjóði og Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Lee Ann Maginnis stýrir verkefninu. Hún vill hvetja íbúa á Norðurlandi vestra til að taka þátt og mæta í fjörurnar laugardaginn nk. Mælt er með því að þátttakendur komi með sína eigin kaffibolla til að minnka ruslið, en boðið verður upp á kaffi og kakó á staðnum!

Verkefnið verður í framhaldinu kynnt sem hluti af opnun Norðurstrandarleiðarinnar þann 8. júní næstkomandi á „Degi hafsins“.

Var efnið á síðunni hjálplegt?