Fyrr í haust kallaði fjölskyldusvið Húnaþings vestra eftir tilnefningum frá íbúum sveitarfélagsins um þá aðila sem þeir telja eiga skilið virðingarvott fyrir verk sín eða störf í þágu samfélagsins. Viðurkenningarnar eru veittar annað hvert ár og er er þetta í fjórða sinn sem þær eru veittar.
Fjölskyldusviði bárust 11 tilnefningar. Fjöldi tilnefninga sýnir glöggt hvað íbúar Húnaþings vestra eru meðvitaðir um samfélagið sitt og vilja þeirra til að leggja sitt af mörkum svo gott samfélag verði enn betra.
Þann 14. október sl. voru samfélagsviðurkenningar Húnaþings vestra afhentar við hátíðlega athöfn í Félagsheimilinu. Eftirtaldir aðilar fengu viðurkenningu að þessu sinni:
Jessica Aquino fyrir starf sitt í þágu barna, ungmenna og nátturuverndar.
Í tilnefningu segir: „.Jessica hefur á undanförnum árum byggt upp Húnaklúbbinn sem er fyrir börn og unglinga og fræðir um náttúru og náttúruvernd, hvetur til heilbrigðra og skemmtilegra útivistar og listsköpunar en á líka stóran hlut í uppbyggingu rafíþróttafélags hér í sveitarfélagi. Jessica hefur einnig sótt um þátttöku í evrópuverkefnum (Erasmus) og farið með hóp unglinga til Spánar, tekið á móti hópi frá Svíþjóð og er núna að undirbúa ferð með hóp unglinga til Finnlands sem er hluti af tveggja ára samstarfsverkefni.“
Ársæll Daníelsson fyrir mikið þrekvirki sem hann vann veturinn 2019 í rafmagnsleysi í sveitarfélaginu.
Í tilnefningu segir: „Ársæll á skilið viðurkenningu fyrir það þrekvirki sem hann vann í desember 2019 þegar hann fór ásamt fleirum til að koma rafmagni aftur á í sveitrfélaginu eftir að það hafði farið í miklu óveðri. Við þetta lagði hann sig í mikla hættu í þágu allra í samfélaginu.“
Ólöf Ólafsdóttir fyrir óeigingjarnt starf til velferðarsjóðs Húnaþings vesta.
Í tilnefningu segir: „Ólöf hefur afhent velferðarsjóði Húnaþings vestra háa peningaupphæð undanfarin ár sem er ágóði af sölu hennar á bútasaumsteppum sem hún saumar sjálf og selur. Það er ómetanlegt að eiga svona fólk í okkar samfélagi.“
Söluskálinn Núpskollur fyrir góðar móttökur hjá eiganda og stafsfólki vegna aðila í samfélaginu.
Í tilnefningu segir: „Linda og hennar starfsfólk í sjoppunni eiga skilið samfélagsviðurkenningu vegna hlýlegs viðmóts í garð einstaklinga. Starfsfólkið lætur sig virkilega varða um hag íbúa okkar.“