Á fundi byggðarráðs Húnaþings vestra þann 27. febrúar sl. var eftirfarandi umsögn um samgönguáætlanir 2011-2014 og 2011-2022 samþykkt samhljóða:
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra telur að í framlögðum tillögum til þingsályktana um samgönguáætlun 2011-2022 og um fjögurra ára samgönguáætlun 2011-2014 sé alltof litlum fjármunum varið til uppbyggingar og viðhalds héraðs- og tengivega.
Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í tillögunum eru stofnvegir alls rúm 38% heildarvegakerfis landsins, héraðsvegir um 24%, tengivegir um 23% og landsvegir um 15%.
Í tillögunum kemur m.a. fram hvaða fjármunum skuli varið til stofnkostnaðar einstakra vegflokka til ársins 2014 og þegar litið er til fjárveitinga til stofnkostnaðarframkvæmda í einstökum vegflokkum til ársins 2014 þá er ljóst að ekkert samræmi er milli fjárveitinga til framkvæmda innan einstakra vegflokka og hlutfalls þeirra af heildarvegakerfi landsins. Það sem sérstaklega vekur athygli er hve litlum fjármunum er ætlað til stofnkostnaðarframkvæmda héraðsvega á árunum 2012-2014 eða alls kr. 204 millj. Á sama tíma er heildarfjárveiting til stofnkostnaðarframkvæmda á stofnvegum og tengivegum alls kr. 13.984 millj.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur um árabil bent á nauðsyn þess að auknum fjármunum verði varið til nýframkvæmda og viðhalds héraðs- og tengivega og að núverandi ástand þeirra vega í sveitarfélaginu sé með öllu óásættanlegt. Nauðsynlegustu verkefni sem við blasa í Húnaþingi vestra eru m.a. slitlagsklæðning á Vatnsnesveg, breyting vegstæðis, uppbygging og slitlagsklæðning á Miðfjarðarveg að vestan og breyting vegstæðis og bygging nýrrar brúar yfir Tjarnará á Vatnsnesi. Mikilvægt er að í samgönguáætlunum næstu ára verði gert ráð fyrir þessum brýnu framkvæmdum.
Þess vegna leggur sveitarstjórn Húnaþings vestra til að framlög til nýframkvæmda á héraðsvegum og tengivegum verði tvöfölduð á tímabilinu 2012-2014 en framlög til nýframkvæmda á stofnvegum verði skert að sama skapi. Ljóst má vera að hlutfallsleg áhrif þessarar tillögu milli einstakra vegflokka teljast óveruleg."