Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri, Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra og Ásthildur Sturludóttir formaður stjórnar Fjarskiptasjóðs undirrita samkomulagið. Mynd: Sigurjón Ragnar.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og innviðaráðherra staðfestu í dag samninga fjarskiptasjóðs við 25 sveitarfélög um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026. Lengi hefur ríkt óvissa um hvort, og þá hvenær, mörg þúsund lögheimili í þéttbýli um land allt munu eiga kost á háhraðanetsambandi, sem er mikilvægt öryggismál og undirstaða nútíma búsetugæða. Með þessum samningum er sú óvissa ekki lengur fyrir hendi.
Húnaþing vestra er í hópi þeirra sveitarfélaga sem fá nú stuðning til að ljúka ljósleiðaravæðingu og undirritaði Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins. Um er að ræða tengingar heimila í þéttbýli á Laugarbakka og Hvammstanga en nokkuð er síðan lokið var við tengingar í dreifbýli í sveitarfélaginu.
Greint var frá því í sumar að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafi, í samstarfi við innviðaráðherra, ákveðið að flýta fyrirhugaðri ljósleiðaravæðingu landsins um tvö ár. Opinbert markmið stjórnvalda um aðgengi að ljósleiðara hafði fram að því verið að allir þéttbýlisstaðir og byggðakjarnar á landinu næðu a.m.k. 80% hlutfalli tengdra lögheimila fyrir árslok 2028. Nýju áformunum sem kynnt voru 2. júlí sl. var aftur á móti ætlað að stuðla að 100% aðgengi fyrir árslok 2026, á grundvelli samvinnu íbúa, sveitarfélaga, fjarskiptafyrirtækja og ríkisins.
Fjarskiptastofa kannaði í vor áform fjarskiptafyrirtækja og opinberra aðila um uppbyggingu á ljósleiðara í öllu þéttbýli árin 2024 til 2026. Könnunin leiddi í ljós að slík áform náðu ekki til 4.438 heimilisfanga í 48 sveitarfélögum. Fjarskiptasjóður gerði sveitarfélögunum því tilboð um 80.000 kr. styrk til að kosta jarðvinnu við að tengja hvert slíkt heimilisfang fyrir árslok 2026. Samþykkt tilboð ná til 4.251 heimilisfangs sem jafngildir um 96% þátttöku sem er umfram væntingar. Fjöldi heimilisfanga í Húnaþingi vestra sem falla undir stuðninginn eru um 90. Með tengingu þeirra verður ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins lokið.
Heildarskuldbinding ríkisins vegna þessa lokaátaks í ljósleiðaravæðingu landsins er um 340 milljónir króna gangi öll uppbyggingin eftir. Fjarskiptasjóður er ábyrgðar- og framkvæmdaraðili verkefnisins fyrir hönd ríkisins og greiðandi styrksins, en til stendur að leggja niður sjóðinn um áramót enda hefur hann uppfyllt hlutverk sitt. Verkefnið er einnig fjármagnað með framlagi af byggðaáætlun, líkt og verið hefur síðan árið 2017.
Fulltrúar 17 sveitarfélaga af þeim 25 sem taka þátt í verkefninu voru viðstaddir undirritunina sem fram fór í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Mynd: Sigurjón Ragnar.