Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri og Sveinbjörg Rut Pétursdóttir framkvæmdastjóri SSNV við undirritun samningsins.
Undirritaður hefur verið samningur vegna styrks úr byggðaáætlun á milli Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Húnaþings vestra. SSNV er umsjónaraðili fjárveitingarinnar fyrir hönd Byggðastofnunar.
Verkefnið felur í sér undirbúning og greiningu á fýsileika á uppsetningu staðarveitna tengdum varmadælum, í eigu og rekstri Húnaþings vestra, á svæðum í dreifbýli í sveitarfélaginu þar sem ekki er kostur á að tengjast dreifikerfi hitaveitu. Langtímamarkmið verkefnisins er jöfnun og bæting búsetuskilyrða í dreifbýli í Húnaþingi vestra, lækkun orkukostnaðar og bætt nýting orku.
Nýnæmi verkefnisins felst í því að áformað er að allur búnaður verði í eigu og/eða rekstri Hitaveitu Húnaþings vestra til að ná fram stærðarhagkvæmni, byggja upp sérfræðiþekkingu á svæðinu og auka öryggi notenda með tilliti til rekstrar kerfanna. Einstaklingar hafa hikað við að setja upp slík kerfi vegna skorts á þekkingu á rekstri þeirra og skorts á sérfræðiþekkingu á viðkomandi svæðum.
Verkefnið er styrkt úr lið C-1 á byggðaáætlun, Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða en markmið þess er að heimafólki verði færð aukin ábyrgð á ráðstöfun fjármuna og sóknaráætlanir landshluta verði tengdar við byggðaáætlun.
Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki í lok árs 2025 og þá liggi fyrir framkvæmdaáætlun verði verkefnið metið fýsilegt.