Sveitar- og bæjarstjórar barnvænna sveitarfélaga funda

Mynd: Gerður.
Mynd: Gerður.

Á dögunum fór fram í Hörpu fundur bæjar- og sveitarstjóra þeirra sveitarfélaga sem eru þátttakendur í verkefninu Barnvæn sveitarfélög hjá UNICEF. Var efni fundarins að fara yfir stöðu innleiðingu verkefnanna og þann árangur sem náðst hefur. Á dagskrá fundarins voru kynningar á fyrirmyndarverkefnum nokkurra þátttökusveitarfélaga ásamt hringborðsumræðum með framkvæmdastjóra UNICEF og mennta- og barnamálaráðherra. Mikil umræða varð um tækifærin sem felast í innleiðingu verkefnisins um Barnvæn sveitarfélög samhliða  innleiðingu laga um farsæld barna.

Húnaþing vestra skrifaði undir samning um þátttöku í verkefninu um Barnvænt sveitarfélag á vordögum. Vinna við innleiðinguna er nú að fara af stað og verður stýrihópur með þátttöku ungmenna skipaður á næstunni. Við tekur greining á núverandi stöðu og í framhaldinu verður sett fram aðgerðaráætlun til að bæta réttindi og stöðu barna í sveitarfélaginu. Verður verkefnið unnið samhliða innleiðingu laga um farsæld barna. Einnig verður skoðað hvort vinna við forvarnaráætlun hefur samlegð með verkefninu sem og vinna við innleiðingu á Heilsueflandi samfélagi. Allt eru þetta verkefni sem snerta á líðan og velferð barna og því lag til að vinna þau samhliða til að ná enn meiri árangri.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir var fulltrúi Húnaþings vestra á fundinum í Hörpu.

 

Nánari upplýsingar á heimasíðu UNICEF.

Var efnið á síðunni hjálplegt?