Sviðsstjóri umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs

Hvammstangi. Mynd: Sigurður Bogi Sævarsson.
Hvammstangi. Mynd: Sigurður Bogi Sævarsson.

Húnaþing vestra leitar að öflugum og drífandi leiðtoga til að leiða umhverfis-, veitu- og framkvæmdasvið sveitarfélagsins. Meginverkefni sviðsins eru nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni á vegum sveitarfélagsins, rekstur og viðhald veitukerfa, umhverfis- og hreinlætismál, umsjón með fasteignum í eigu þess ásamt reksturs þjónustumiðstöðvar. Sviðsstjóri heyrir beint undir sveitarstjóra og situr í framkvæmdaráði sveitarfélagsins.

Um fullt starf er að ræða með starfsstöð í ráðhúsi Húnaþings vestra á Hvammstanga.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Yfirumsjón og ábyrgð á fjármálum og rekstri sviðsins, þ.m.t. gerð fjárhagsáætlunar og starfsmannahald.
  • Stefnumótun og áætlanagerð fyrir málaflokka sviðsins í samstarfi við yfirstjórn.
  • Ábyrgð á rekstri á veitukerfum sveitarfélagsins, s.s. vatns-, frá-, og hitaveitu.
  • Ábyrgð á umhverfis-, hreinlætis- og úrgangsmálum sveitarfélagsins.
  • Ábyrgð á rekstri hafnar og þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins.
  • Umsjón með undirbúningi útboða og verðfyrirspurna í tengslum við verklegar framkvæmdir.
  • Ábyrgð á verkefnastjórnun ný- og viðhaldsframkvæmda sveitarfélagsins ásamt kostnaðareftirliti.
  • Seta í framkvæmdaráði Húnaþings vestra.

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, s.s. í verk-, bygginga- eða tæknifræði eða meistararéttindi í iðngrein sem tengist störfum sviðsins. Framhaldsmenntun er kostur.
  • Víðtæk og farsæl reynsla af rekstri, stjórnun, verkefnastjórnun og verkstjórn.
  • Reynsla af áætlanagerð, samningagerð og kostnaðareftirliti.
  • Reynsla af sambærilegu starfi er kostur.
  • Reynsla og þekking á stjórnsýslu sveitarfélaga og lögum og reglugerðum sem varða starfsemi sviðsins er æskileg.
  • Reynsla af rekstri dreifikerfa veitna og verklegra framkvæmda er æskileg.
  • Leiðtogahæfni ásamt reynslu af breytingastjórnun.
  • Rík þjónustulund og framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Sjálfstæði, skipulagshæfni, árvekni og nákvæmni í störfum.
  • Gott vald á íslensku og ensku í ræðu og riti.
  • Góð almenn tölvukunnátta og hæfni til að tileinka sér nýjungar.

Um Húnaþing vestra
Húnaþing vestra er afar vel staðsett, miðja vegu milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hvammstangi er stærsti þéttbýliskjarni sveitarfélagsins. Heildarfjöldi íbúa er um 1250 og hefur farið vaxandi undanfarin ár. Uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur verið all nokkur síðustu ár og áform uppi um áframhaldandi húsnæðisuppbyggingu.

Niðurstöður íbúakannana hafa leitt í ljós almenna ánægju íbúa í Húnaþingi vestra með sveitarfélagið sitt og þá þjónustu sem þar er veitt. Til dæmis hafa íbúar verið þeir ánægðustu á landinu með heilbrigðisþjónustu og þjónustu við aldraða, næst ánægðastir á landinu með menningarlíf og tónlistarskóla og þriðju ánægðustu á landinu með vörúrval svo fátt eitt sé talið.

Húnaþing vestra er fjölskylduvænt samfélag með hátt þjónustustig, metnaðarfullt leik-, grunn- og tónlistarskólastarf ásamt því að rekin er dreifnámsdeild frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á staðnum. Gott framboð er af íþrótta-og tómstundastarfi sem er í sífelldri þróun. Sveitarfélagið er útvistarparadís, sundlaugin á Hvammstanga er fyrsta flokks, einnig er þar íþróttahús með þreksal og er félagsstarf afar fjölbreytt. Blómlegt menningarlíf er til staðar, kórar, leikflokkur, alþjóðlegt brúðuleikhús, menningarfélag o.fl. Hjá sveitarfélaginu starfa um 120 manns.

Umsóknarfrestur er til og með 15. júlí 2024. Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og ítarlegt kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni umsækjanda sem nýtist í starfi. Auk þess skulu prófskírteini fylgja með umsókninni. Launakjör taka mið af kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags. Samkvæmt samþykktum um stjórn sveitarfélagsins ræður sveitarstjórn sviðsstjóra. Samkvæmt jafnréttisstefnu Húnaþings vestra eru öll kyn hvött til að sækja um starfið. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Nánari upplýsingar veita Helga Birna Jónsdóttir (helga@intellecta.is) og Thelma Kristín Kvaran (thelma@intellecta.is) í síma 511 1225.

Var efnið á síðunni hjálplegt?