Ágætu íbúar.
Í gær voru komin tvö smit í sveitarfélaginu okkar og búið var að senda sex sýni til viðbótar í rannsókn. Seint í gærkvöldi og í dag komu niðurstöður úr þeim sýnum og reyndust þrjú af þeim jákvæð. Því eru nú fimm smit staðfest í Húnaþingi vestra. Í ljósi þessa hefur aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra sent frá sér eftirfarandi tilkynningu.
Tilkynning frá aðgerðarstjórn almannavarna á Norðurlandi vestra:
Vegna grunsemda um víðtækt smit í Húnaþingi vestra verður að grípa til hertra sóttvarnaraðgerða strax.
Frá og með kl. 22:00 í kvöld laugardaginn 21.mars 2020 skulu allir íbúar sveitarfélagsins sæta úrvinnslusóttkví. Úrvinnslusóttkví er tímabundin ráðstöfun meðan unnið er að smitrakningu. Í henni felst að einungis einn aðili af hverju heimili getur í hvert sinn yfirgefið heimilið til að afla aðfanga. Úrvinnslusóttkvíin gildir ekki um lífsnauðsynlega starfsemi, s.s. hjúkrunarheimili, sjúkrahús og dreifingu og verslun með matvæli og eldsneyti.
Ofangreind ákvörðun gildir þar til aðgerðarstjórn tilkynnir um annað.
Jafnhliða gildir almennt samkomubann svo sem þegar hefur verið auglýst en þó með þeirri breytingu að hámarksfjöldi aðila sem mega koma saman í Húnaþingi vestra eru 5 aðilar.
Höfðað er til samfélagslegrar ábyrgðar allra íbúa til að virða ofangreint og vera alls ekki á ferli að nauðsynjalausu.
Aðgerðarstjórn almannavarna á Norðurlandi vestra
ATH. Ekki eru allir íbúar á internetinu og biðjum við aðstandendur þeirra að koma til þeirra upplýsingum sem varða hertar sóttvarnaaðgerðir.
Kæru íbúar fylgjum öllum fyrirmælum almannavarna og sóttvarnalæknis, samtaka náum við að hefta útbreiðslu veirunnar og ná tökum á aðstæðum.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri.