Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra undirrita samstarfssamning um tilraunaverkefnið.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra hafa skrifað undir samstarfssamning um tilraunaverkefni í þágu farsældar barna í Húnaþingi vestra.
Í verkefninu felst ráðning tengslafulltrúa ungmenna sem hefur það hlutverk að vinna með börnum og ungmennum í sveitarfélaginu. Mun tengslafulltrúinn vinna með þeim að innleiðingu farsældarlaganna, vera tengiliður þeirra við stjórnkerfið og stofnanir með áherslu á virka þátttöku þeirra í tómstunda- og frístundastarfi. Einnig felst í verkefninu vinna við uppsetningu samfélagsmiðstöðvar í Félagsheimilinu Hvammstanga sem þá nýtist ungmennum sem og öðrum íbúum sveitarfélagsins. Þar mun meðal annars verða sett upp smiðja í anda FabLab smiðja en nýverið fékkst styrkur úr byggðaáætlun til kaupa á tækjum í smiðjuna.
Hugmyndin að starfi tengslafulltrúa á rætur að rekja til ungmenna í Húnaþingi vestra sem tóku þátt í verkefninu Back to the Roots sem unnið var á vegum Húnaklúbbsins í samstarfi við sveitarfélagið Pythaa í Finnlandi. Í kynningu sem ungmennin héldu fyrir forsvarsmenn sveitarfélagsins á niðurstöðu verkefnisins kom skýrt fram að ungmennum fannst þau vanta aðila sem héldi þéttar utan um þau, væri tengiliður þeirra við stjórnkerfið og stofnanir, hjálpaði þeim að finna ástriðu sína og hvetti þau til þátttöku í fjölbreyttu félags- og tómstundastarfi. Ráðning tengslafulltrúans er svar við því ákalli auk þess að gefa tækifæri til að byggja upp aðstöðu fyrir ungmenni og aðra íbúa í samfélagsmiðstöðinni. Þannig er aðstaða fyrir ýmiskonar félagsstarf bætt til mikilla muna um leið og nýting Félagsheimilisins er aukin. Félagsheimilið mun áfram verða nýtt fyrir viðburði líkt og verið hefur en leiða leitað til að nýta rými þar betur en gert hefur verið.
Starf tengslafulltrúans verður auglýst innan tíðar. Í tengslum við uppsetningu samfélagsmiðstöðvar í Félagsheimilinu mun verða boðað til íbúafundar fljótlega til að fá fram hugmyndir íbúa sveitarfélagsins um uppbygginguna.