Nú er undirbúningur að FabLab aðstöðu á Hvammstanga hafinn. FabLab verður opin aðstaða í Félagsheimilinu Hvammstanga þar sem boðið verður upp á aðstoð við listræna og tæknilega afþreyingu fyrir alla einstaklinga. Til dæmis verður boðið upp á þrívíddarprentara, leiserskera, vínylskera og ýmis önnur tæki sem styðja við sköpunar- og framkvæmdagleði fólks.
Búið að fara í tvær vettvangsferðir til að skoða FabLab og fá hugmyndir og ráð. Ásamt tengslafulltrúa og sviðsstjóra fjölskyldusviðs, komu með Asmaa Ahmad Al Ebrahim, María Guðrún Theodórsdóttir, Freydís Emma Vilhelmsdóttir, Guðni Þór Alfreðsson og Jakob Friðriksson Líndal sem álitsgjafar og fulltrúar ungmenna og deildu mikilvægum hugrenningum um málefnið. Farið var til Sauðárkróks og á Akranes þar sem tekið var vel á móti hópunum. Umsjónarmenn fræddu um búnað, uppsetningu, skipulag vinnuaðstöðu og margt fleira.
Það eru því spennandi tímar framundan og hlökkum við til að kynna þessa áhugaverðu viðbót í Húnaþingi vestra í tengslum við nýja samfélagsmiðstöð. Stefnt er að íbúafundi í byrjun júlí til að fá hugmyndir íbúa um samfélagsmiðstöð á Hvammstanga.