Brunavarnaráætlun fyrir Brunavarnir Húnaþings vestra 2014-2018 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 15. maí sl. Brunavarnaráætlun leggur grunninn að gæðastjórnun og úttekt á starfsemi slökkviliðs fyrir þá aðila sem bera ábyrgð á brunavörum í hverju sveitarfélagi . Áætlunin auðveldar einnig íbúum sveitarfélagsins, iðnfyrirtækjum og öðrum rekstraraðilum að fá upplýsingar um veitta þjónustu, skipulags slökkviliðs og markmið með rekstri þess í sveitarfélaginu. Framkvæmd brunavarnaráætlunar er ætíð háð fjárveitingum sem Brunavarnir Húnaþings vestra hafa í fjárhagsáætlun fyrir hvert fjárhagsár.
Markmið Brunavarna Húnaþings vestra með þessari brunavarnaráætlun er að uppfylla eftirfarandi markmið laga um brunavarnir nr. 75/2000:
„Að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja fullnægjandi eldvarnaeftirlit, forvarnir og viðbúnað við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi.“
Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar Skúli Þórðarson, sveitarstjóri, Pétur R. Arnarsson, slökkviliðsstjóri og Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar undirrituðu nýja brunavarnaráætlun í Ráðhúsi Húnaþings vestra þann 25. júní sl.