Um nýliðna helgi stóð UMFÍ fyrir ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði í húsnæði Skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði. Ungmennaráð UMFÍ stóð fyrir ráðstefnunni og bauð til hennar 70 þátttakendum, þar á meðal ungmennaráðum sveitarfélaganna og félagasamtaka á borð við Slysavarnafélagið Landsbjörgu.
Fjölbreytt dagskrá var á ráðstefnunni þar sem áhersla var á umhverfis- og loftslagsmál. Hlýddu krakkarnir á fróðleg erindi, m.a. frá Sævari Helga Bragasyni, auk þess að taka þátt í málstofum sem tengdust viðfangsefninu.
Á síðasta degi ráðstefnunnar komu þingmenn og sveitarstjórnarfólk til ráðstefnunnar og tóku þátt í kaffihúsasamræðum við ráðstefnugesti. Sveitarstjóri Húnaþings vestra, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, var í hópi þátttakenda í kaffihúsaspjallinu ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, og Maríu Rut Krstinsdóttur, aðstoðarmanni Katrínar, Pírötunum Birni Leví Gunnarssyn og Gísla Rafni Ólafssyni, Ingibjörgu Isaksen, þingkonu Framsóknarflokksins, og Steinari Inga Kolbeins, aðstoðarmanni umhverfisráðherra.
Auk þeirra tóku Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, og Málfríður Sigurhansdóttir, stjórnarkona í UMFÍ, þátt í kaffispjallinu.
Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði hefur verið haldin árlega síðan árið 2009 og hefur hún fest sig í sessi sem einn af mikilvægustu viðburðunum fyrir ungt fólk á Íslandi. Á ráðstefnunni er ævinlega lögð áhersla á að efla lýðræðilega þátttöku ungs fólks og þátttakendum gefin tól og ráð til að styrkja ímynd sína og gera þeim betur en áður kleift að taka upplýstar ákvarðanir um líf sitt og lífsstíl.
Erasmus+ styrkir ráðstefnuna.
Þátttakendur á ráðstefnunni á góðri stundu.