Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála hefur skipað Unni Valborgu Hilmarsdóttur formann ferðamálaráðs og Evu Björk Harðardóttur varaformann ráðsins.
Ferðamálaráð er skipað til fjögurra ára í senn, nú síðast frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2018, en skipunartími formanns og varaformanns er takmarkaður við embættistíma ráðherra.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir er oddviti sveitarstjórnar Húnaþings vestra, rekur íbúðagistinguna Sólgarð á Hvammstanga og á og rekur fyrirtækið Aðstoðarmaður ehf. Hún hefur áralanga reynslu af rekstri og stjórnun. Undanfarin ár hefur hún starfað við stjórnendaþjálfun og námskeiðahald, verið framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands á Hvammstanga, framkvæmdastjóri Dale Carnegie á Íslandi og aðstoðarframkvæmdastjóri Hreyfingar. Hún er með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og Diploma í viðskipta- og rekstrarfræðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún hefur einnig lokið prófi í stjórnendamarkþjálfun frá Opna Háskólanum og Coach U.