Húnaþing vestra er aðili að verkefninu og verður starfsmaður þess staðsettur á Hvammstanga.
Verkefnið CAP-SHARE: Byggjum brýr á milli vísindafólks, stefnumótenda og samfélaga (á ensku CAP-SHARE: Building Bridges of Shared Capacity between Scientists, Policymakers, and Communities) hefur hlotið styrk frá Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (Interreg Northern Periphery and Arctic) sem nemur rúmum 120 milljónum króna. Um er að ræða þriggja ára verkefni sem byrjar nú í haust og lýkur haustið 2027. Markmið verkefnisins er að valdefla ungt fólk og styrkja tengsl vísindafólks og stefnumótenda í samfélögum á norðurslóðum þegar kemur að ákvarðanatöku varðandi verndun líffræðilegrar fjölbreytni og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Áhersla verður lögð á samvinnu við ungmenni og áðurnefndir hópar munu taka þátt í vinnustofum þar sem rödd allra fær að heyrast.
Þátttakendur í verkefninu eru Náttúruminjasafn Íslands, Selasetrið, Húnaklúbburinn og Húnaþing vestra ásamt samtökunum Arctic Frontiers í Noregi og Háskóla Lapplands í Finnlandi. Vinnan mun fara fram að hluta til í netheimum en einnig verða vinnustofur og ráðstefnur haldnar í hverju landi fyrir sig þar sem þrjú þemu munu liggja til grundvallar:
- Byggja brýr á milli samfélaga, stefnumótenda og vísindafólks
- Hvernig taka skuli tillit til sjónarhorna þvert á kynslóðir heimafólks
- Fá ungt fólk til að taka þátt í og hafa áhrif á staðbundnar aðgerðir allt frá hugmyndum að stefnumótun
Verkefnið byggir að hluta til á eldra verkefni sem Jessica Aquino, dósent við ferðamáladeild Háskólans á Hólum leiddi og nefndist Youth for Arctic Nature. Jessica mun einnig vinna við nýja verkefnið ásamt Cécile Chauvat en hún hefur verið ráðin til Náttúruminjasafnsins sem starfsmaður verkefnisins og verður hún með starfsstöð á Hvammstanga.