Viðbragðsáætlun Húnaþings vestra og helstu aðgerðir

Viðbragðsáætlun Húnaþings vestra og helstu aðgerðir

Kæru íbúar.

Nú höfum við fengið enn eitt verkefnið upp í hendurnar sem okkur er gert að leysa. Verkfærin eru af skornum skammti og okkur hefur ekki verið kennt hvernig á að nota þau.  Þá reynir á þolinmæði, útsjónarsemi, sveigjanleika og jákvæðni sem aldrei fyrr.  Mikilvægt er að allir nálgist verkefnið með opnum huga og fylgi í einu og öllu leiðbeiningum stjórnvalda.

Nú um helgina hafa stjórnendur Húnaþings vestra unnið að útfærslu viðbragðs- og aðgerðaáætlana í ljósi þeirra upplýsinga sem okkur bárust sl. föstudag um samkomubann. Mikil vinna hefur farið fram í dag og hefur áherslan verið að aðlaga stofnanir sveitarfélagsins að þessum nýju aðstæðum, sér í lagi skólastofnanirnar.  Ber að þakka því öfluga starfsfólki sem Húnaþing vestra býr yfir og því æðruleysi sem starfsfólkið sýnir í þessum aðstæðum því ljóst er að á næstu vikum mun mæða mikið á okkur öllum.

Allt skipulag hjá stofnunum sveitarfélagsins miðar að því að fara í einu og öllu eftir fyrirmælum stjórnvalda um samkomubann. Breytingar á starfsemi sveitarfélagsins geta orðið með mjög stuttum fyrirvara og verða þá tilkynntar á heimasíðu sveitarfélagsins eða beint frá þeim stofnunum eða einingum sem við á

Ljóst er að mesta röskunin verður hjá skólastofnunum og í dag funduðu skólastjórnendur með starfsfólki og kynntu þeim hvernig skólastarfi verður háttað næstu fjórar vikurnar og  miðast það við leiðbeiningar stjórnvalda í samkomubanni. Foreldrar hafa fengið upplýsingar um hvernig kennslu verður háttað næstu vikurnar.

Stjórnendur Húnaþings vestra hafa einnig fundað með íþróttahreyfingunni í sveitafélaginu og falla æfingar barna og ungmenna niður þessa viku. Von er á leiðbeinandi reglum frá stjórnvöldum um hvernig haga skuli íþróttastarfi næstu fjórar vikurnar. Verður þá staðan metin að nýju.

Markmið Viðbragðs- og aðgerðaáætlunar Húnaþings vestra er að stuðla að öryggi starfsmanna og órofnum rekstri sveitarfélagsins og er þar fylgt ráðleggingum stjórnvalda á hverjum tíma.

Viðbragðsáætlun Húnaþings vestra er aðfinna hér.

Viðbragðsáætlun leikskóla er að finna hér  og grunnskóla hér

Íbúar mega búast við skertri þjónustu og skertu aðgengi að stofnunum sveitarfélagsins á næstu vikum vegna samkomubanns. 

Helstu þættir aðgerða í Húnaþings vestra:

  • Leikskóli, grunnskóli, íþróttahús, sundlaug, félagsmiðstöðin Orion og fjarnámsstofa:
    • Grunn- og leikskóli verða starfræktir með breyttu sniði og munu tilkynningar þess efnis verða sendar foreldrum og tilkynntar á heimasíðu sveitarfélagsins
    • Nemendur fara ekki í heimsóknir í aðrar stofnanir en notaðar eru í skólastarfi um óákveðinn tíma.
    • Íþrótta- og sundkennsla falla niður meðan á samkomubanni stendur.
    • Engar heimsóknir utanaðkomandi aðila eru leyfðar meðan á samkomubanni stendur.
    • Foreldrafundum frestað um óákveðin tíma, erindum forráðamanna sinnt í síma eða fjarfundi
    • Komur forráðamanna sem þurfa fylgja börnum í og úr skóla eru leyfðar. Forráðamenn sýni aðgát og fylgi fyrirmælum skólastjórnenda.
    • Starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Orion fellur niður meðan á samkomubanni stendur. 
    • Fjarnámsstofa opin en gestir beðnir að sýna aðgát og fylgja í öllu leiðbeiningum almannavarna og landlæknis.
  • Félagsþjónusta:
    • Allir þjónustuþættir fjölskyldusviðs eru virkir þ.e. almenn félagsþjónusta, barnavernd, þjónusta við aldraða  og fatlaða. Starfsemi fjölskyldusviðs helst að mestu óbreytt að sinni.  Viðtöl verða að mestu í gegnum fjarfund eða síma eftir því sem hægt er að koma því við.
    • Ef einstaklingar eru með liðveislu eða heimaþjónustu og eru í sérstökum áhættuhópi skulu einstaklingar meta það sjálfir hvort þeir vilja njóta þjónustunnar áfram. Í samráði við fjölskyldusvið er í einhverjum tilvikum hægt að breyta fyrirkomulagi til þess að reyna að takmarka áhættu eins og hægt er.
    • Eldri borgarar sem ekki hafa þegið þjónustu fjölskyldusviðs geta óskað eftir þjónustu s.s. innkaup og stuðningsviðtöl gegnum síma. 
    • Barnavernd verður með hefðbundnum hætti, vitjunum eða viðtölum í barnavernd verður ekki frestað nema brýn ástæða sé til (þ.e. einstaklingur í sóttkví eða einangrun, þá er boðið upp á viðtöl í fjarfundi).  Sími barnaverndar 771 4966 eða 112 (eftir kl. 16, virka daga, kvöld, helgar og hátíðardaga).
    • Dagdvöl aldraðra verður með mjög takmarkaða þjónustu næstu vikur.
    • Félagsstarf aldraðraverður fellt niður þar til annað verður tilkynnt
    • Nestún 2 - 6 er heimili fólks og eru aðstandendur og gestir beðnir að sýna aðgát og fylgja í öllu leiðbeiningum almannavarna og landlæknis.
      • Aðstandendur og gestir eru minntir á að:
        • Gæta vel að hreinlæti, þvo hendur reglulega með sápu og nota handspritt.
        •  Forðast snertingu við augu, nef og munn.
        • Sleppa handaböndum og faðmlögum og heilsa fremur með brosi.
  • Hvammstangahöfn
    • Einungis viðskiptavinir
  • Skrifstofa sveitarfélagsins
    • Einungis viðskiptavinir með brýn erindi
  • Þjónustumiðstöð
    • Einungis starfsfólk
  • Bókasafn
    • Opið en gestir beðnir að sýna aðgát og fylgja í öllu leiðbeiningum almannavarna og landlæknis.
  • Byggðasafn Húnvetninga og Stranda
    • Lokað þar til annað verður tilkynnt
  • Íþróttahús
    • Opið en með takmörkunum, gestir beðnir að sýna aðgát og fylgja í öllu leiðbeinandi reglum leiðbeiningum almannavarna og landlæknis.
    • Kennsla á vegum grunnskólans fellur niður
    • Klefar lokaðir nema fyrir gesti sundlaugar
    • Fjöldatakmarkanir verða í líkamsrækt og aðra sali hússins
  • Félagsheimilið Hvammstanga
    • Opið með takmörkunum, gestir beðnir að sýna aðgát og fylgja í öllu leiðbeiningum almannavarna og landlæknis.

Hvatt er til samskipta í síma, tölvupósti eða fjarfundi. 

Íbúar Húnaþings vestra eru hvattir til að leita almennra upplýsinga um faraldurinn og viðbrögð við honum inni á www.covid.is – þar er að finna allar nauðsynlegar upplýsingar sem gilda næstu fjórar vikurnar.

Nú fer í hönd tími þar sem við þurfum öll að standa saman og sýna samfélagslega ábyrgð. Gleymum ekki brosinu, sýnum umburðarlyndi og verum eins hvetjandi og við getum í þessum fordæmalausu aðstæðum.

 

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?