Mynd sýnir svæði mögulegs sýnileika
Sveitarfélagið Dalabyggð hefur óskað eftir umsögn Húnaþings vestra við tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016 vegna vindorkuvers í landi Sólheima, við sveitarfélagsmörk að Húnaþingi vestra.
Skipulags- og umhverfisráð Húnaþings vestra samþykkti á fundi sínum þann 7. desember s.l. að óska eftir frekari gögnum til að geta átt faglegt samráð við íbúa Húnaþings vestra og upplýstrar ákvörðunartöku um efnistök umsagnar.
Í aðalatriðum felst breytingin í því að 400 ha iðnaðarsvæði til vindorkunýtingar er fært inn í aðalskipulag, á svæði sem er skilgreint sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi.
Iðnaðarsvæðið í landi Sólheima gerir ráð fyrir uppbyggingu á vindorkuveri með allt að 30 vindmyllum til raforkuframleiðslu allt að 150MW. Í greinargerð tillögunnar er áformað að vindmyllur verði 120m upp í miðju hverfils og spaðar í hæstu stöðu í 200m hæð. Hugsanlega þarf að gera ráð fyrir ljósabúnaði efst á myllum, til aðvörunar fyrir flugumferð. Áformað er að selja raforkuna inn á kerfi Landsnets.
Í tillögunni er umhverfisskýrsla þar sem fjallað er um umhverfisþætti, matsspurningar og viðmið, ásamt samanburði valkosta og umfjöllun um mótvægisaðgerðir. Orkuvinnslusvæðið liggur innan svæðis sem Náttúrufræðistofnun gerir tillögu um að vernda, sem mikilvægt svæði fyrir fuglalíf og líffræðilegan fjölbreytnileika, afmarkað sem mikilvægt varpsvæði á alþjóðavísu fyrir himbrima og álft. Þjónustuvegir/-slóðar verða lagðir á svæðinu.
Í meðf. greinargerð með breytingaruppdrætti ásamt viðauka með uppdrætti er sýnt svæði mögulegs sýnileika vindorkuvers í landi Sólheima (landnr. 137586 og 137587), við sveitarfélagamörk að Húnaþingi vestra. Kortið sýnir mögulegan sýnileika vindmylla í 200m hæð yfir landi með spaða í hæstu stöðu.
Íbúar Húnaþings vestra geta komið sjónarmiðum og/eða athugasemdum til skrifstofu Húnaþings vestra á netfangið skrifstofa@hunathing.is, merkt „Vindorka_Dalabyggð“ eins er hægt að senda athugasemdir beint til Dalabyggðar á netfangið skipulag@dalir.is. Athugasemdafrestur er til 20. janúar 2021
HÉR má sjá Aðalskipulagsbreytinguna
https://dalir.is/wp-content/uploads/2020/11/Breyting-vegna-vindorkuvers-a-Solheimum.pdf
HÉR er slóð á íbúafund sem haldin var í Dalabyggð 3. júní s.l. vegna vindorkuversins.
https://www.youtube.com/watch?v=7DYLZvQh-YI
Frekari upplýsingar á Heimasíðu Dalabyggðar
https://dalir.is/frettir/auglysing-um-breytingu-a-adalskipulagi-dalabyggdar-2004-2016/