Forseti, þingfulltrúar.
Ég vil byrja á því að bjóða ykkur allar hjartanlega velkomnar hingað á Hótel Laugarbakka í Húnaþingi vestra. Við erum ákaflega stolt af þessu fallega hóteli og ég er viss um að það fer hér vel um hópinn.
Ég þakka tækifærið til að ávarpa þessa samkomu. Ég ber mikla virðingu fyrir starfi soroptimistahreyfingarinnar og þeim gildum sem hún stendur fyrir. Ykkar störf eru samfélaginu ákaflega mikilvæg.
Mig langar líka að nota þetta tækifæri til að þakka forseta ykkar, Guðrúnu Láru Magnúsdóttur, fyrir störf sín í þágu samfélagsins í Húnaþingi vestra. Hún lét af störfum sem leikskólastjóri leikskólans Ásgarðs eftir áralangt farsælt starf áður en ég tók til starfa sem sveitarstjóri svo ég fékk ekki almennilegt tækifæri til að þakka henni fyrir. Ég geri það hér með, kærar þakkir Guðrún Lára, og segi jafnframt við hópinn að gildi soroptimistahreyfingarinnar hafa ávallt skinið í gegn í hennar mikilvægu störfum sem leikskólastjóri.
Kæru soroptimistar. Kjörorð Guðrúnar Láru í forsetatíð hennar hafa verið Veljum að vaxa. Afar góð og mikilvæg kjörorð og eins og töluð út úr mínu hjarta. Stóran hluta af mínum starfsferli hef ég einmitt starfað við að hjálpa fólki að vaxa, sem alþjóðlegur Dale Carnegie þjálfari, stjórnendamarkþjálfi og ráðgjafi. En líka í öðrum stjórnendastörfum. Í mínum huga ætti hlutverk stjórnendans fyrst og síðast að vera að hjálpa fólkinu sínu að vaxa. Þegar hópurinn sem við erum að leiða vex, þá nær heildin meiri árangri. Sama í hvaða starfsgrein við störfum.
Í starfi mínu sem sveitarstjóri þá er vöxtur á mjög breiðu sviði eitt mikilvægasta verkefnið. Til að samfélög vaxi og eflist þurfa einstaklingar að vaxa. Til að svo megi verða þurfa margir þættir að koma saman. Einn þeirra þátta er einmitt félagsskapur eins og ykkar. Samfélag fólks með svipaða lífssýn og gildi sem kemur saman til að bæta samfélag sitt.
Kæru fundargestir.
Í tengslum við umræðu um vöxt er þrennt sem mig langar til að nefna sérstaklega. Allt eru þetta þættir sem ég hef reynt í bæði leik og starfi að hafa að leiðarljósi og það er mín von að þið finnið í þessum þáttum þó ekki væri nema örlítinn innblástur sem stuðlar að enn frekari vexti. Ef ég sem einstaklingur vel að vaxa er ég um leið að efla mitt samfélag eins og ég nefndi áðan.
Það fyrsta sem mér er hugleikið er meðaltal. Hvað á ég við með því? Jú – þá er ég að vísa til orða Jim Rohn – þekkts fyrirlesara sem segir: Þú ert meðaltal þeirra 5 einstaklinga sem þú ert í mestum samskiptum við.
Aðrir hafa jafnvel viljað ganga svo langt að segja að þú verðir þeir einstaklingar sem þú átt í samskiptum við. Hvort við horfum á þá fimm sem við erum í mestum samskiptum við eða alla þá sem við erum í samskiptum við skiptir kannski ekki öllu máli. Það sem skiptir máli í þessu samhengi er að við höfum í kringum okkur fólk sem hækkar meðaltalið okkar, eða eflir okkur með einhverjum hætti. Að við veljum að vera í samskiptum við fólk sem stuðlar að okkar vexti. Þess vegna er félagsskapur eins og ykkar svo mikilvægur. Hér koma saman einstaklingar sem vilja eflast og efla sitt samfélag og það eitt og sér hækkar meðaltal okkar allra. Það hækkar mitt meðaltal að koma hingað í dag. Með því að velja að gera það er ég að velja að vaxa.
Eins og með svo margt þá er skuggahlið á meðaltalinu. Við verðum að sama skapi að gæta þess að vera ekki einstaklingarnir sem lækka meðaltal þeirra sem við erum í samskiptum við.
Fyrsta atriðið sem ég vildi skilja ykkur eftir með er því meðaltalið. Hvaða áhrif er fólkið sem ég umgengst að hafa á mitt meðaltal og ekki síður, hvaða áhrif er ég að hafa á meðaltal þeirra sem eru í samskiptum við mig.
En auðvitað er lífið ekki alveg svona einfalt. Fólkið sem hækkar meðaltalið er ekki óbrigðult. Þá kemur til kasta sögu sem ég las í ævisögu fjárfestisins Warren Buffet og ég hef oft hugsað til. En Warren Buffet var til langs tíma var ríkasti maður í heimi. Í ævisögunni er sagt frá að í æsku hafi Warren lært á kornett blásturshljóðfæri. 11. nóvember ár hvert, daginn sem samkomulagið sem leiddi til loka annarrar heimstyrjaldarinnar var gert, voru alltaf haldnir tónleikar á sal grunnskólans sem hann gekk í. Verkið sem flutt var byggðist upp á að eitt hljóðfæri lék þrjár nótur og það næsta átti að elta, eða gera eins. Þannig varð einskonar til bergmál. Warren fékk þann heiður að vera með og átti að vera á eftir trompetleikaranum. Trompetleikarinn átti að blása Dum DA Dum og svo átti Warren að taka við og blása eins á kornettið sitt. Bergmálaðu bara það sem trompetið á undan gerir, var honum sagt. Dum DA Dum. Ekki flókið.
Warren var tilbúinn. Trompetleikarinn byrjaði að blása. Dum DA...á þriðju nótunni sló hann eða réttara sagt blés hann feilnótu. Það sem átti að verða Dum DA Dum – varð Dum DA Da!
Warren segir sjálfur frá því að hann hafi stirðnað upp og fyllst skelfingu. Nú voru góð ráð dýr. Honum hafði verið sagt að bergmála. Hann var hins vegar ekki búinn undir það að sá sem hann átti að herma eftir slægi feilnótu. Átti hann að bergmála röngu nótuna Dum DA Da eða leika það sem upphaflega átti að leika. Dum DA Dum?
Þetta atvik greyptist inn í huga Warrens þó svo að hann muni ekki hvernig hann brást við. Lexían sem hann lærði við þetta var sú að það kann að virðast auðvelt að ganga í gegnum lífið og bergmála þá sem í kringum þig eru....en það á aðeins við þangað til hinn aðilinn slær feilnótu. Það þarf nefnilega kjark til að fylgja ekki alltaf fjöldanum því fjöldinn getur slegið feilnótur. Það þarf vilja til að vaxa til að slá ekki feilnóturnar í takt við fjöldann. En með því að halda okkar striki, spila þær nótur sem við viljum spila, frekar en að elta í blindni, vöxum við.
Annað atriðið sem ég vildi því skilja ykkur eftir með er bergmálið. Það er í lagi að bergmála – en aðeins þangað til hinn aðilinn slær feilnótu.
Þá erum við komnar með meðaltal og bergmál.
Síðasta atriðið sem mig langaði til að skilja ykkur eftir með tengist snjó. Ég veit ekki með ykkur en ég er ekki alveg tilbúin í snjóinn en þó styttist í hann. Eitt snjókorn má sín lítils. Það bráðnar þegar það lendir á volgri jörðinni eða í hönd okkar. Mörg snjókorn – mjög mörg snjókorn geta hins vegar saman – valdið usla. Mörg snjókorn sem koma saman yfir stuttan tíma – geta valdið mjög miklum usla. Eitt snjókorn bráðnar í lófa. En fullur lófi af snjó getur myndað snjóbolta. Þá verður snjórinn þéttur. Þessum snjóbolta má rúlla eftir jörðinni í blautum snjó og hann stækkar við það smátt og smátt. Litlu snjókornin sem bráðna í lófa. Úr þeim getum við við réttar aðstæður búið til snjóbolta, enn stærri bolta og búið til snjókarl. Og snjóbolti sem rúllar niður brekku getur við réttar aðstæður stækkað hratt.
Smáaurarnir sem við söfnum yfir langan tíma geta orðið auðæfi. Örfáu blaðsíðurnar sem við lesum á dag verða að heilu ritverkunum yfir tíma. Nokkru kílómetrarnir sem við göngum á viku verða að löngum vegalengdum yfir árið. Og svo framvegis. Þetta smáa sem verður að einhverju stóru við réttar aðstæður og ef við höldum okkur við efnið. Það þarf elju og styrk til að halda sig við efnið. Það þarf nefnilega vilja til að vaxa til að halda sig við efnið.
Mig langar að segja ykkur sögu af vinkonu minni em er hér í salnum í þessu samhengi. Fyrir ofan Hvammstanga er útivistarsvæðið okkar Kirkjuhvammur. Þar enn ofar er skemmtileg gönguleið sem í daglegu tali er kölluð að fara upp að Snældu. En Snælda er klettur sem stendur í hlíðinni fyrir ofan bæinn. Má eiginlega segja að hún sé okkar Steinn fyrir þær sem hafa gengið á Esjuna. Vinkona mín setti sér markmið að ganga 54 snældur á árinu. Hún er búin að ná því markmiði og gott betur. Ein snælda er kannski ekki svo mikið en ríflega 50 Snældur – það er afrek.
Hvað er ég að segja með þessu. Jú, svo ég snúi mér aftur að snjónum. Lífið er eins og snjóbolti. Aðal málið er að finna blautan snjó og rosalega langa brekku. Það er að segja, taka eitthvað lítið og vinna með það þangað til það stækkar og eflist.
Þetta var snjóboltinn.
Þá erum við komnar með þessi þrjú atriði sem mig langaði að skilja ykkur eftir með. Meðaltalið, bergmálið og snjóboltann.
Veljum að vera í samskiptum við fólk sem styrkir okkur – og verum sjálfar þær sem styrkja aðra. Veljum þannig að vaxa.
Sýnum kjarkinn að fara okkar leið frekar en að bergmála trompetið sem spilar á undan okkur, og hugsanlega feilnótur. Veljum þannig að vaxa.
Finnum leiðir til að taka litlu hlutina, litlu snjókornin, og gera þá að einhverju stærra með því að halda okkur við efnið. Veljum líka þannig að vaxa.
Og þannig - Með því að velja sjálfar að vaxa – hvetjum við aðra til að vaxa.
Þannig eflum við samfélög.