Afgreiðslur:
1. 1903029 Lögð fram Samþykkt um stjórn Húnaþings vestra ásamt viðauka um fullnaðarafgreiðslur. Guðrún Ragnarsdóttir mætir til fundar undir þessum lið og fer yfir breytingarnar og viðaukann. Byggðarráð samþykkir framlagða samþykkt ásamt viðauka.
2. 1905005 Rekstraryfirlit fyrir aðalsjóð og undirfyrirtæki fyrir tímabilið janúar-mars 2019. Lagt fram til kynningar yfirlit yfir stöðu fjárhagsbókhalds fyrstu 3 mánuði ársins og samanburður við fjárhagsáætlun sama tímabils. Rekstur er almennt í samræmi við áætlun ársins. Sviðsstjóri fjármála og stjórnsýslusviðs, Ingibjörg Jónsdóttir mætir á fundinn og fer yfir rekstraryfirlitið.
3. 1904050 Lagt fram erindi frá Dalabyggð dags. 24. apríl sl. þar sem óskað er eftir umsögn Húnaþings vestra um skipulags- og matslýsingu fyrir breytingu á aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016 í landi Sólheima í Dalabyggð samkvæmt 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi Dalabyggðar.
4. 1812025 Lögð fram til kynningar umsögn byggðarráðs um verkefni þverpólitískrar nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu, mál nr. S-111/2019.
„Varðandi verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu, mál nr. S-111/2019.
Verkefni þetta tekur á helstu áherslum sem ríkið tekur til í stjórnunar- og verndaráætlun við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra vill hér með benda á eftirfarandi atriði:
- Í þessum drögum virðist einungis miðað við einn stóran þjóðgarð á miðhálendi Íslands fremur en að skoðað sé með einhverjum raunverulegum áhuga hvernig smærri og fleiri þjóðgarðar kæmu út í samanburði.
Stofnun og rekstur þjóðgarðs kallar á gríðarmikið fjármagn ef vel á að vera hægt að standa að hlutum, ekki virðist sýnt samkvæmt þessum drögum hvernig þjóðgarður á að vera fjármagnaður.
- Töluverður hluti af skipulagsvaldi sveitarfélaga er tekinn í burtu með þessum drögum og velmest skipulagsvald falið undir stjórn þjóðgarðs, ekki getur talist viðunandi að sveitarfélög svæðisins missi beint skipulagsvald og feli það í staðinn svæðis- eða umdæmisráðum eins og gert er ráð fyrir í drögum þessum, sérlega ekki þegar ekkert er vitað um það hvernig viðkomandi ráð verða skipuð.
- Í atvinnustefnu draganna er gert ráð fyrir atvinnustefnu, sem vissulega er nauðsynleg. Hins vegar, þar sem fyrir liggja í dag drög að atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs, verður að benda á í þessu samhengi að í drögum að atvinnustefnu fyrrnefnds þjóðgarðs virðist vera afar lítið gert úr vægi sveitarfélaga og landeigenda og virðist helst sem allir atvinnurekendur á svæðinu þurfi sérstakt atvinnuleyfi frá stjórn þjóðgarðsins, burtséð frá því hver atvinnustarfsemin er og hverjar skoðanir heimafólks eru. Verður því að líta svo á að þarna séu sveitarfélögum og landeigendum settar verulegar og hamlandi skorður, til dæmis varðandi beitarrétt og veiðar, og að viðkomandi aðilar missi þar með drjúgan umráðarétt yfir sínu landi. Ef sami tónn verður viðhafður í atvinnustefnu miðhálendisþjóðgarðs, sem ekki er ósennilegt verði drög að atvinnustefnu fyrir Vatnajökulsþjóðgarð samþykkt, getur Húnaþing vestra einfaldlega ekki fellt sig við slíka verðfellingu skipulagsmála í heimahéraði.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggst gegn fyrirliggjandi drögum nr. S-111/2019 og hvetur til þess að þau verði endurskoðuð í mun nánara samstarfi við heimamenn en verið hefur.“
5. 1905008 Lögð fram til kynningar umsögn byggðarráðs um drög að atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs.
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggst gegn fyrirliggjandi drögum að atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs og hvetur til þess að þau verði endurskoðuð í mun nánara samstarfi við heimamenn en verið hefur.
Í drögum að atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs virðist vera afar lítið gert úr vægi sveitarfélaga og landeigenda og virðist helst sem allir atvinnurekendur á svæðinu þurfi sérstakt atvinnuleyfi frá stjórn þjóðgarðsins, burtséð frá því hver atvinnustarfsemin er og hverjar skoðanir heimafólks eru.
Verður því að líta svo á að þarna séu sveitarfélögum og landeigendum settar verulegar og hamlandi skorður, til dæmis varðandi beitarrétt og veiðar, og að viðkomandi aðilar missi þar með drjúgan umráðarétt yfir sínu landi.“
Samþykkt að taka á dagskrá:
6. Lagt fram bréf sveitarstjóra Guðnýjar Hrundar Karlsdóttur dags. 6. maí 2019 þar sem hún segir upp starfi sínu sem sveitarstjóri Húnaþings vestra frá og með næstu mánaðamótum með þriggja mánaða fyrirvara og miðast því starfslok við 31. ágúst n.k.
Sveitarstjóri leggur fram eftirfarandi bókun: „Síðustu 5 ár hafa verið afar gefandi og á þessum tímamótum er mér þakklæti efst í huga. Ég vil þakka samhentri og góðri sveitarstjórn, einstaklega hæfu samstarfsfólki og frábærum íbúum samstarfið þennan tíma. Margt hefur áunnist og framtíðin er björt í því fjárhagslega trausta, heilbrigða og vaxandi samfélagi sem Húnaþing vestra er.“
Byggðarráð þakkar Guðnýju Hrund fyrir gott samstarf, mikið og óeigingjarnt starf í þágu Húnaþings vestra s.l. 5 ár. Jafnframt óskar byggðarráð henni velfarnaðar á nýjum vettvangi. Oddvita og sveitarstjóra falið að auglýsa starf sveitarstjóra laust til umsóknar.
Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl.: 15:09