Afgreiðslur:
- 1911022 Lagt fram til kynningar bréf frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu frá 30. desember sl. þar sem fram kemur að Húnaþingi vestra hafi verið úthlutað 140 þorskígildistonnum af byggðakvóta fiskveiðiársins 2019/2020. Lögð fram eftirfarandi tillaga að reglum um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2019-2020:
„Byggðarráð Húnaþings vestra samþykkir eftirfarandi reglur um úthlutun 140 þorskígildistonna byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2019/2020:
Ákvæði reglugerðar nr. 676/2019 gilda um úthlutun byggðakvóta Hvammstanga með eftirfarandi viðauka/breytingum:
a. 80% af byggðakvóta Húnaþings vestra verður skipt milli þeirra fiskiskipa sem gerð eru út frá Hvammstanga og fengið hafa úthlutun samkvæmt reglugerð nr. 675/2019 vegna aflabrests á rækju í innanverðum Húnaflóa og uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 676/2019, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020. Við skiptingu þessa 80% byggðakvóta Húnaþings vestra, til ofangreindra skipa, skal miða við meðaltal landaðs botnfiskafla í þorskígildum talið, í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í Hvammstangahöfn, síðastliðin þrjú fiskveiðiár. Viðmiðunarárin eru 3 síðustu fiskveiðiár, nú 2016/2017, 2017/2018 og 2018/2019.
b. 20% af byggðakvóta Húnaþings vestra verður skipt milli þeirra fiskiskipa sem gerð eru út frá Hvammstanga og uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 676/2019, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020, miðað við meðaltal landaðs botnfiskafla, í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í Hvammstangahöfn síðastliðin þrjú fiskveiðiár, í þorskígildum talið. Viðmiðunarárin eru 3 síðustu fiskveiðiár, nú 2016/2017, 2017/2018 og 2018/2019.
b) Skip eiga rétt til úthlutunar úr báðum pottum samkvæmt a- og b-lið, að uppfylltum skilyrðum.
c) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa innan byggðarlagsins þeim afla sem telja á til byggðakvóta á tímabilinu frá 1. september 2019 til 31. ágúst 2020.
Rökstuðningur/viðaukar/breytingar frá reglugerð 676/2019 er felast í tillögum Húnaþings vestra eru byggð á eftirfarandi:
a) Í samræmi við tilmæli Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sbr. bréf dags. 30. desember 2019, er horft til mögulegrar verðmætaaukningar og atvinnusköpunar sem hafa má af byggðakvóta og því að megintilgangur byggðakvótans sé að stuðla að aukinni atvinnusköpun í byggðarlaginu.
b) Rökstuðningur byggðarráðs er sá að í byggðarlaginu er engin bolfiskvinnsla.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
2. 1912054 Lögð fram til kynningar ársskýrsla Leikskólans Ásgarðs. Byggðarráð þakkar greinargóða skýrslu.
3. 2001001 Lagt fram til kynningar bréf frá Vegagerð ríkisins þar sem tilkynnt er um niðurfellingu Núpsdalstunguvegar nr. 7079-01, Skálholtsvíkurvegar nr. 6478-01 og Brandagilsvegar nr. 7011-01 af vegaskrá frá og með síðustu áramótum.
4. 2001002 Lagt fram bréf frá Landskerfi bókasafna þar sem tilkynnt er umhækkun á gjaldskrá þeirra. Miðast sú hækkun við íbúafjölgun sl. 3 ár.
5. 2001003 Lagt fram bréf frá Pétri Arnarssyni slökkviliðsstjóra. Alvarleg bilun varð á tankbíl Brunavarna Húnaþings vestra í óveðrinu í desember við hreinsun á tengivirki Landsnets í Hrútatungu. Við skoðun kom í ljós að viðgerð á bílnum svarar ekki kostnaði. Sveitarstjóra í samráði við rekstrarstjóra er falið að kanna kostnað við endurnýjun á tankbíl Brunavarna Húnaþings vestra.
6. 1909077 Málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra. Samningur um sameiginlegt þjónustusvæði á Norðurlandi vestra um þjónustu við fatlað fólk rann út 31.12.2019. Í samráði við aðildarsveitarfélög leggur byggðarráð til að gildistími samningsins verði framlengdur um þrjá mánuði eða til 31.03.2020. Er það gert með vísun í gr. 11.7 í áðurnefndum samningi. „Samningsaðilar/sveitarstjórnir skulu ákveða fyrir 1. nóvember 2019 hvort samningurinn verði endurnýjaður. Þjónusturáð sem er myndað skv. lið 3.2 skal skila áliti til aðildarsveitarfélaga um samstarf og jafnframt gera tillögu að samningi sem gildi frá 1. janúar 2020. Skal þjónusturáð skila tillögum sínum til sveitarstjórna ekki síðar en 15. september 2019. Verði dráttur á frágangi nýs samnings um þjónustuna framlengist gildistími þessa samnings þar til annar hefur verið undirritaður eða þjónustunni formlega komið í annan farveg“. Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
7. Lagt fram til kynningar sorphirðudagatal Húnaþings vestra 2020.
8. Kristín Guðmundsdóttir húsvörður Félagsheimilisins Hvammstanga kemur til fundar. Kristín fer yfir störf húsvarðar og bókanir á næstu vikum. Kristín fór einnig yfir fyrirliggjandi verkefni tengd húsinu. Sveitarstjóra og húsverði falið að funda með rekstrarstjóra og fara yfir málefni hússins.
9. Lögð fram tillaga að viðbót við verðskrá Félagsheimilisins Hvammstanga. Við verðskrána bætist nýr liður undir heitinu „Anddyri, svalir og klósett“. Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Samþykkt að bæta á dagskrá:
10. Breyting á fundartíma byggðarráðs. Fyrir fundinum liggur tillaga um breytingu á tímasetningu reglulegra funda byggðarráðs til og með 10. febrúar. Fundir byggðarráðs munu hefjast kl. 9:00 í stað 14:00. Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl: 16:23