Afgreiðslur:
- 1810025 Drög að frumvarpi til laga um hálendisþjóðarð. Lögð er fram tillaga að sameiginlegri umsögn Húnaþings vestra, Húnavatnshrepps, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps:
„Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur leggja hér fram sameiginlega umsögn við frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, sbr. kynningu málsins á samráðsgátt stjórnvalda. Sveitarfélögin hafa fjallað um málið á fyrri stigum og eru fyrri bókanir og umsagnir fylgiskjöl með umsögn þessari.
Frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð er kynnt samhliða frumvarpi til laga um Þjóðgarðsstofnun og þjóðgarða. Í því frumvarpi koma fram meginreglur um þjóðgarða sem gilda myndu um hálendisþjóðgarð og nær umsögnin jafnframt til þess frumvarps.
Sveitarfélögin eru landstór. Mörk þeirra liggja á Langjökul, Hofsjökul og Kjöl og ná yfir víðáttumikil landsvæði innan miðhálendisins. Tillögur nefndar um undirbúning miðhálendisþjóðgarðs hafa gert ráð fyrir að stór landsvæði sveitarfélaganna falli innan þjóðgarðs. Málefnið varðar sveitarfélögin og íbúa þess miklu. Svæði sem lagt hefur verið til að falli innan þjóðgarðs hafa verið í umsjón sveitarfélaganna vegna nálægðar og stöðu afréttarmálefna síðustu árhundruð. Á síðustu áratugum hefur ábyrgð og umsjón sveitarfélaga verið formfest með auknu stjórnsýslulegu hlutverki, t.d. á sviði skipulagsmála.
Samantekt
Sveitarfélögin leggjast gegn framgangi frumvarpsins í núverandi mynd.
Sveitarfélögin leggja til að íslenska ríkið vinni að friðun svæða á miðhálendinu í samráði við einstök sveitarfélög og stefnu þeirra um landnotkun sem birtist í aðalskipulagi. Ekki verði önnur svæði lögð inn í þjóðgarð en sveitarfélög samþykkja. Endurskoða þarf stöðu annarrar áætlanagerðar og hvernig þær ná til framtíðarhagsmuna, svo sem landsáætlana á sviði innviðauppbyggingar og orkuframleiðslu. Það er langt í land að fjallað hafi verið nægjanlega um hagsmuni að annarri landnýtingu á miðhálendinu, svo tímabært sé að taka ákvörðun um stofnun þjóðgarðs. Það hefur hvorki verið gert með heildstæðum hætti né sértækum vegna einstakra sveitarfélaga.
Tillögur um stofnun miðhálendisþjóðgarðs hafa verið unnar án eðlilegs samráðs og undirbúnings á lýðræðislegum vettvangi. Stefnt er að því markmiði í blindni að stofnaður verði þjóðgarður, fremur en að greina kosti og stöðu annarskonar friðlýsingar eða landnýtingar. Aðrir kostir en stofnun þjóðgarðs eiga njóta sannmælis, en þeir voru útilokaðir fyrirfram. Í ljósi aðkomu sveitarfélaga að málefnum miðhálendisins, þekkingar þeirra og nálægðar sætir furðu út frá sjónarmiðum um gæði stjórnsýslu og stjórnunar að æskilegt þyki að fella 30-40% landsins undir miðstýrð stjórnvöld ríkisins.
Fara þarf yfir framkvæmd friðlýsinga á vegum ríkisins og nýtingu fjármuna til slíkra verkefna. Það er nauðsynlegt og ekki forsendur nú til að stíga skref sem leiðir til óafturkræfrar ráðstöfunar á 30-40% hluta landsvæðis Íslands til þjóðgarðs, án slíkrar greiningar. Sveitarfélögin telja óvissu ríkja um fjármögnun Hálendisþjóðgarðs og hættu á að þjóðgarðsstofnun leiði til stöðnunar á nauðsynlegri innviðauppbyggingu á þjóðgarðssvæði.
Sveitarfélögin telja óásættanlegt að skipulagsvald, sem er þýðingarmesta tæki sveitarfélaga til að hafa áhrif á þróun byggðar og landnotkunar út frá hagsmunum samfélagsins, yrði nánast fellt niður á þjóðgarðssvæði, sbr. frumvarpsákvæði um bindandi þýðingu verndar- og stjórnunaráætlana þjóðgarða. Meginstjórntæki sveitarfélaga til að hafa áhrif á framtíðarþróun landnýtingar á hálendinu verður tekið frá sveitarfélögunum.
Gildandi aðalskipulög sveitarfélaganna hvíla á skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, sbr. 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulag landnýtingar, þ.m.t. verndar, á hálendinu er í ágætu horfi og ekki er nauðsyn á fljótfærnislegum ákvörðunum til að gera breytingar þar á.
Þótt málefni þjóðgarðs séu kynnt þannig að núverandi nýting verði óbreytt og svigrúm verði til annarrar nýtingar en verndar á tilteknum svæðum, verður stjórnunar- og verndaráætlun Hálendisþjóðgarðs grundvöllur að allri starfsemi í þjóðgarðinum. Breytingar á stjórnunar- og verndaráætlun munu geta þrengt að núverandi notkun t.d. nýtingu afrétta og nauðsynlegum framkvæmdum tengdum þeirri nýtingu.
Engin nauðsyn er til stofnunar þjóðgarðs með þeim hætti sem frumvarpið felur í sér. Ekki liggja fyrir veigamikil rök á sviði náttúruverndar um stofnun þjóðgarðs. Þvert á móti. Frumvarpið byggir á því að eignarréttar- og stjórnunarlegar ástæður ráði afmörkun, þ.e. að þjóðlendur innan miðhálendislínu verði lagðar til þjóðgarðs. Með því móti verður ráðstöfunarréttur sveitarfélaga og markaðar tekjur þjóðlenda innan hvers sveitarfélags, felldar niður.
Aðdragandi frumvarps um Hálendisþjóðgarð.
Í apríl 2018 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Verkefni nefndarinnar var að fjalla um eftirtalda þætti og þeir kynntir í samráðsgátt stjórnvalda:
- Greining tækifæra með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf
- Tillögur að helstu áherslum í atvinnustefnu
- Skilgreining á mörkum þjóðgarðsins
- Setja fram áherslur um skiptingu landssvæða innan þjóðgarðsins í verndarflokka
- Fjalla um hugsanlegar aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar, svæðisskiptingu og rekstrarsvæði
- Tillögur að helstu áherslum í stjórnunar- og verndaráætlun
- Tillögur að lagafrumvarpi um þjóðgarðinn sem tekur til stjórnskipulags
- Áætlun um fjármögnun fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu
Eðlilegra hefði verið að stofna til samtals við einstök sveitarfélög um þörf á frekari vernd hálendisins og þá eftir atvikum kostum og göllum einstakra friðlýsingarmöguleika eða þjóðgarðsstofnun að hluta.
Sveitarfélögin gagnrýna að lagt hafi verið upp með málið þannig ekki ætti að greina sérstaklega kosti og galla þess að stofna þjóðgarð, heldur var fyrirfram ákveðið að vinna ætti tillögu um stofnun þjóðgarðs. Slík aðferðafræði var óheppileg, þegar um er að tefla mögulega framtíðarráðstöfun á 30-40% landsvæðis Íslands, sbr. hugmyndir um stærð þjóðgarðs.
Skortur á virku samráði. Efasemdir um lýðræðislegt umboð.
Ekki var stofnað til starfs nefndarinnar á grundvelli þingsályktunartillögu. Þingsályktunartillögur um þjóðgarð á miðhálendinu hafa verið bornar upp á undanförnum árum en ekki fengið afgreiðslu. Á árinu 2015 óskaði Alþingi eftir umsögnum um slíka tillögu, en tillagan var ekki afgreidd.
Ráðherranefndinni var ætlað að greina tækifæri sem fylgja þjóðgarðsstofnun en jafnframt að leggja til nákvæma útfærslu um stofnun þjóðgarðs. Nefndinni var ætlað að taka mörg og stór skref í samanburði við aðdraganda annarrar ákvarðanatöku um þjóðfélagsleg stórmál.
Jafnvel þótt vinna nefndarinnar hafi verið kynnt hefur ekki verið staldrað við og lýðræðislegar forsendur fyrir málinu kannaðar með formlegum hætti. Þetta á sérstaklega við í ljósi hugmynda um stærð landsvæðis sem þjóðgarður gæti náð til. Hún hefur komið sveitarfélögunum verulega á óvart.
Sveitarfélögin hafa gert efnislegar athugasemdir við undirbúningsvinnu ráðherranefndarinnar, en ekki séð að mikið tillit hafi verið tekið til sjónarmiða þeirra.
Aðrar friðunarheimildir ekki teknar til skoðunar.
Verkefnalýsing ráðherranefndarinnar leiðir til þess að ekki hefur verið fjallað sérstaklega um kosti og galla stofnunar þjóðgarðs í samanburði við aðra friðlýsingarkosti.
Hugmyndir um friðun miðhálendisins hvíla á því að þar er að finna víðáttumikil ósnortin landsvæði. Með náttúrverndarlögum nr. 60/2013 sem tóku gildi í lok ársins 2015, voru heimildir til friðlýsingar óbyggðra víðerna lögbundnar, sbr. 46. gr. Í eldri náttúrverndarlögum var gert ráð fyrir að stofnun friðlanda tengdist einkum sérstöku landslagi og þ.a.l. áttu þær heimildir ekki við um mörg víðfeðm og einsleit svæði miðhálendisins. Stofnun friðlands felur ekki í sér stofnun þjóðgarðs. Sú spurning vaknar af hverju ekki kemur til álita að nýta þennan nýja friðlýsingarmöguleika á afmörkuðum svæðum og með tilliti til skipulagsáætlana sveitarfélaga. Hugmyndir um stofnun miðhálendisþjóðgarðs komu fram áður en þessi sérstaki friðlýsingarmöguleiki var tekinn upp í náttúruverndarlög og í raun er hægt að fullyrða að umræða um hann hefur verið óveruleg.
Ýmsar aðrar heimildir eru til friðunar og verndar, sem ekki fela í sér eins varanlegar og ófyrirséðar takmarkanir á landnýtingu. Slíkar aðferðir geta hugnast sveitarfélögum betur m.a. í ljósi fjölbreytilegra sjónarmiða um uppbyggingu ferðaþjónustu og innviðauppbyggingar landsins.
Stjórnsýsla og umsjón miðhálendisins – Þjóðgarður skref í átt til miðstýringar.
Málefni hálendis hafa í raun verið á ábyrgð og umsjón sveitarfélaga vegna stöðu afréttarmálefna og nálægðar við svæðin síðustu árhundruð. Á síðustu áratugum hefur löggjöf stefnt að því markmiði að skera úr um og skýra eignarréttarlega og stjórnsýslulega ábyrgð á þessum svæðum. Jafnframt hefur verið gætt að hagsmunum náttúruverndar, með friðlýsingum, vernd og skipulagsskyldu. Ef þróun löggjafar síðustu áratugi er skoðuð er sýnt að sveitarfélögum hefur verið falið ríkt hlutverk í þeim efnum. Hugmyndir um stofnun miðhálendisþjóðgarðs ganga í þveröfuga átt og fela í sér aukna miðstýringu m.a. með flutningi valds til höfuðborgarsvæðis frá landsbyggð og til embættismanna frá lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum. Engin rök standa til að breyta núverandi fyrirkomulagi.
Skipulagsgerð sveitarfélaga stendur vörð um náttúru
Skipulagsgerð á miðhálendinu má rekja til stofnunar samvinnunefndar um skipulag miðhálendisins á grundvelli laga nr. 73/1993, sem breyttu skipulagslögum nr. 19/1964. Í samvinnunefndinni sáttu fulltrúar frá öllum héraðsnefndum sem land átt að hálendinu. Með samþykkt skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 var byggt á því að allt land á Íslandi félli undir lögsögu sveitarfélaga og gert ráð fyrir að samvinnunefnd um skipulag miðhálendis lyki störfum. Með gerð aðalskipulaga sveitarfélaga á næstu árum þar á eftir hefur allt hálendi Íslands verið skipulagt.
Gildandi skipulagsáætlanir hvíla á því markmiði að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, sbr. 1. gr. laga nr. 73/1997 og sambærileg ákvæði síðari löggjafar.
Aðalskipulag sveitarfélaga er eðli máls samkvæmt háð landsáætlunum og felur í sér umfangsmikla samþættingu áætlanagerðar, sem m.a. tryggja náttúruvernd. Eðlilegur framgangur frekari friðlýsinga á miðhálendinu ætti að hvíla á samtali við einstök sveitarfélög þar sem unnt er að nýta formfestu og málsmeðferð skipulagslöggjafar til nýrra skrefa.
Með tilkomu Þjóðgarðsstofnunar verður stjórnunar- og verndaráætlun meginstjórntæki þjóðgarðs, sbr. 23. gr. frumvarps að lögum um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða. Sveitarstjórnir verða bundnar af efni stjórnunar- og verndaráætlunar, sbr. 25. gr. frumvarpsins. Yrði frumvarpið að lögum er aðalskipulag sveitarfélaga ekki aðeins orðið afgangsstærð, heldur nýtist ítarleg málsmeðferð skipulagslöggjafar ekki til að móta nýtingu og landnotkun lands á svæðinu.
Með stofnun þjóðgarðs flyst skipulagsvald í raun yfir til stjórnarstofnana þjóðgarðs sem fjalla um þætti eins og landnýtingu, mannvirkjagerð, samgöngur og aðra innviði, í stjórnunar- og verndaráætlun. Það sem eftir stendur af skipulagsvaldi sveitarfélags virðist helst varða minniháttar útfærsluatriði.
Eignarréttarleg staða miðhálendis - ráðstöfunarheimildir yfir þjóðlendum og tekjur.
Hugmyndir um stofnun þjóðgarðs á öllum þjóðlendum á miðhálendinu koma verulega á óvart. Tillögur um mörk þjóðgarðs hvíla þannig á eignarréttarlegum forsendum, en ekki faglegum sjónarmiðum um náttúruvernd. Það virðist eiga leggja þjóðlendur í þjóðgarð af þeirri einu ástæðu að ríkið eigi þær.
Það lýsir ákveðnu ráðaleysi að leggja til að þjóðlendumörk afmarki þjóðgarð, án tillits til náttúrverndargildis einstakra svæða. Sú tillaga skýtur sérstaklega skökku við, enda hefur forsætisráðuneytið nýlega samþykkt eigendastefnu um þjóðlendur, þ.e. í febrúar 2019. Ráðstöfun allra þjóðlenda á miðhálendi til þjóðgarðs, virðist í ósamræmi við þá stefnu.
Þjóðlendumál hafa leitt til verulegra átaka og tortryggni milli landsbyggðar og stjórnvalda ríkisins. Skýring á eignarráðum yfir landi hefur þó verið til bóta, en sýnt er að virða átti hlutverk sveitarfélaga varðandi ákvarðanatöku um nýtingu þjóðlenda. Í skýringum við 3. gr. lagafrumvarps að þjóðlendulögum sagði m.a.:
Þegar þess er gætt að stærstur hluti þess lands sem fellur innan þjóðlendna hefur verið og verður væntanlega enn um sinn nýttur til upprekstrar og sveitarfélögin hafa hvert á sínu svæði farið með og sinnt um þessi landsvæði, enda hafa þau fallið innan stjórnsýslumarka þeirra í flestum tilvikum, er lagt til að forræði á ráðstöfun lands og landsgæða innan þjóðlendna verði skipt milli forsætisráðherra og sveitarfélaganna.
Ákvæði 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur gera ráð fyrir að sveitarfélög geri samninga um nýtingu þjóðlenda, ef undan eru skildar ráðstafanir vegna orkunýtingar og náma. Tekjur af samningum sveitarfélaga eiga jafnframt að renna til þjóðlendu í viðkomandi sveitarfélagi. Með því að leggja þjóðlendur inn í þjóðgarð eru þessar ráðstöfunarheimildir sveitarfélaga og tekjur af þjóðlendum felldar niður.
Tillaga um að leggja þjóðlendur inn í þjóðgarð án sérstaks mats á náttúrverndargildi felur í sér stærra skref til miðstýringar um málefni hálendisins, en þjóðlendumálin sem slík.
Núverandi landnýting - mögulegar breytingar á forsendum þjóðgarðs.
Í 10. gr. frumvarps er gert ráð fyrir að hefðbundin landnýting verði heimil, enda samræmist hún almennri löggjöf og uppfylli skilyrði um sjálfbærni. Jafnframt er kveðið á um að fjallað verði um slíka nýtingu í stjórnunar- og verndaráætlun. Stærstur hluti þess svæðis sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði þjóðgarður er afréttareign í þjóðlendu. Í því felast mikilvægir hagsmunir fyrir atvinnustarfsemi í sveitarfélögunum og getur kallað á ýmis konar breytingar varðandi umferð, girðingar og nýtingu sem nú tengjast valdheimildum sveitarfélagsins, en féllu undir stjórnunar- verndaráætlun. Með því verður þrengt að afréttareign.
Þá sýna dæmin að breytingar geta orðið starfsemi þjóðgarða og stöðu nýtingar og valdheimilda. Með lagabreytingu nr. 101/2016, á lögum nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð, var hlutverk sveitarfélaga á grundvelli þjóðlendulaga um samninga og tekjur af nýtingu þjóðlenda innan þjóðgarðsins fellt niður. Þannig var forsendum þjóðgarðsstofnunarinnar skv. upprunalegum lögum breytt einhliða af íslenska ríkinu.
Eðli máls samkvæmt geta orðið ófyrirséðar breytingar á lagalegri umgjörð um þjóðgarð og stjórnunar- og verndaráætlun í framtíðinni. Með því getur núverandi landnýtingu verið stofnað í uppnám og hafnað tillögum um nýja landnýtingu sem gefið er undir fótinn að yrði samþykkt vegna sveigjanleika í flokkun þjóðgarðssvæða.
Staða landsáætlana um innviðauppbyggingu og orkuframleiðslu
Í 11. gr. frumvarps er gert ráð fyrir að heimilt verði starfrækja núverandi virkjanir og háspennulínur í þjóðgarðinum. Heimilt verður að leyfa nýjar virkjanir hafi þær verið skilgreindar í orkunýtingarflokk í 3. áfanga rammaáætlunar og jafnframt mögulega virkjunarkosti sem flokkaðir hafa verið í biðflokk 3. áfanga, yrðu þeir síðar flokkaðir í nýtingarflokk, enda yrði við slíkt endurmat einnig litið til 3. gr. frumvarpsins.
Sveitarfélögin telja þessar tillögur jákvæðar svo langt sem þær ná. Engu að síður er ljóst að vinna við rammaáætlun verður verulega takmörkuð komi til samþykktar frumvarpsins, en 4. áfangi vinnu við rammaáætlun er hafinn. Ákvæði frumvarpsins lýsir því í raun að ótímabært er fjalla um stofnun miðhálendisþjóðgarðs af því umfangi sem frumvarpið gerir ráð fyrir, í ljósi stöðu rammaáætlunarferlis.
Sveitarfélögin telja að gæta þurfi að þróun annarra landsáætlana varðandi innviðauppbyggingu með tilliti til mögulegrar þjóðgarðsstofnunar í framtíðinni. Málefni vegalagningar um hálendið eru mikilvæg hagsmunamál sveitarfélaganna varðandi almennar samgöngur, uppbyggingu ferðaþjónustu og atvinnulífs. Með stjórnunar- og verndaráætlunum þjóðgarða geta heimildir til uppbyggingar vega verið takmarkaðar. Einnig þarf að gæta að stöðu flutningskerfa raforku en eðli máls samkvæmt kalla nýjar virkjanir og þarfir atvinnulífs á endurskoðun áætlana á því sviði.
Nánari umfjöllun um einstök frumvarpsákvæði.
Ekki verður fjallað ítarlega um einstök ákvæði frumvarps að stofnun Hálendisþjóðgarðs, heldur er vísað til meginafstöðu málsins. Við skoðun einstakra ákvæða frumvarpsins birtist þó með ýmsum hætti hvað vinna að undirbúningi mögulegs þjóðgarðs er stutt á veg komin.
Stofnun þjóðgarðs sem nær yfir 30-40% af landsvæði Íslands getur varla tekið skemmri tíma en áratug með hliðsjón af stöðu landsáætlana, stærð landsvæðisins og öðru umfangi verkefnisins, enda eigi að vanda til verka, reyna að skapa sátt og gæta varfærni um að skaða ekki framtíðarhagmuni þjóðar eða einstakra byggðarlaga.
Sveitarfélögin gagnrýna sérstaklega ákvæði 2. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að afmörkun þjóðgarðs miðist í upphafi við þjóðlendumörk innan miðhálendislínu auk þeirra landsvæða í nágrenninu sem þegar eru friðlýst. Órökrétt er að leggja til friðlýsingu án tillits til faglegra sjónarmiða um ástæður friðlýsingar. Til hliðsjónar er bent á að við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var afmörkun þjóðgarðsins háð samþykki viðkomandi sveitarfélaga, sbr. 1. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Þá höfðu málefni tengd afmörkun þess þjóðgarðs fengið mun ítarlegri umfjöllun en nú liggur fyrir.
Ákvæði frumvarpanna varðandi stjórnun eru gagnrýnd, sbr. t.d. 25. gr. frumvarps til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða. Umdæmisráð munu í raun hafa óverulegt vald um efni stjórnunar- og verndaráætlunar. Stjórn Hálendisþjóðgarðs mun vinna tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun í heild, en auk þess mun umhverfisráðherra hafa heimild til breytingar á áætluninni.
Áhyggjuefni er hvað gert er ráð fyrir miklu valdframsali til ráðherra vegna stofnunar og rekstrar þjóðgarðarins. Það á til að mynda við um heimildir til stækkunar þjóðgarðs og eignarnámsheimildir, án þess að forsendur slíkrar ákvarðanatöku séu skýrðar eða tengdar samþykki Alþingis, sbr. t.d. 9. gr. frumvarps um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða.
Bent er á að nýting hálendisins til ferðaþjónustu og dvalar hefur hvílt á frumkvæði ýmiskonar félagasamtaka, fyrirtækja og sveitarfélaga. Það getur leitt til stöðnunar og hnignunar ef gera á ráð fyrir uppbyggingu og umsjón þjóðgarðs á vegum stofnana. Varhugavert er að setja eigendur mannvirkja á svæðinu í óvissu um starfsemi þeirra og frekari uppbyggingu.
Sveitarfélögin gagnrýna jafnframt að umfjöllun um fjármögnun Hálendisþjóðgarðs er ófullkomin og ekki gerð tilraun til að meta kostnað af fyrstu rekstrarárum þjóðgarðs. Fjármögnun þjóðgarðs er háð óvissu sem nauðsynlegt er að eyða verði fjallað frekar um málið.
Lagt er til að frumvarp um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða verði lagfært þannig að öll sérumfjöllun um Hálendisþjóðgarð verði felld úr því frumvarpi.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
2. 201030 Lagt fram bréf frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra þar sem tilkynnt er að Húnaþingi vestra er veittur styrkur í verkefnið Fjölmenningarsamfélagið í Húnaþingi vestra. Byggðarráð felur sveitarstjóra að sækja úthlutunarhátíð 13. febrúar nk.
3. Björn Bjarnason rekstarstjóri kom til fundar. Björn gerði grein fyrir störfum sínum. Byggðarráð þakkar Birni fyrir greinargóða yfirferð.
4. Ína Björk Ársælsdóttir kom til fundar. Ína Björk gerði grein fyrir störfum sínum. Byggðarráð þakkar Ínu Björk fyrir greinargóða yfirferð.
Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl: 11:09