Afgreiðslur:
1. Erindi frá Þorsteini B. Helgasyni og Arnari E. Gunnarssyni varðandi ágreining um biðtíma skólabílstjóra vegna COVID aðstæðna í grunnskólanum. Byggðarráð fór yfir fyrirliggjandi gögn frá skólabílstjórum og álit nefndar sem fjallar um ágreiningsmál sem upp geta komið samkvæmt 14. gr. samningsins. Byggðarráð getur ekki breytt niðurstöðu úrskurðarnefndar en telur rétt að endurskoða 14. gr. hvað varðar skipan nefndarinnar áður en til nýs útboðs kemur.
2. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem bent er á nýja reglugerð sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur sett um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga nr. 280/2021. Meginmarkmið reglugerðarinnar er að veita auknum stuðningi til sveitarfélaga vegna úrbóta sem gerðar eru í aðgengismálum fatlaðs fólks. Sveitarstjóra og rekstrarstjóra er falið að kanna möguleika sveitarfélagsins á að sækja um í Fasteignasjóð til að bæta aðgengi að stofnunum sveitarfélagsins.
3. Erindi frá Dalabyggð með boð um fund til að ræða mögulegar viðræður um sameiningu við Húnaþing vestra. Byggðarráð þiggur boð á sameiginlegan fund sveitarstjórna Húnaþings vestra og Dalabyggðar til að ræða afstöðu þeirra til hvort hafnar verði formlegar eða óformlegar sameiningarviðræður. Byggðarráð felur sveitarstjóra að svara erindinu.
4. Áskorun frá Bændasamtökum Íslands um nýtingu innlendra matvæla í skólamáltíðir. Lögð fram til kynningar áskorun Bændasamtaka Íslands um að nýta innlend matvæli eins og kostur er, sérstaklega grænmeti, kjöt og fisk, í skólamáltíðir.
5. Grunnskóli Húnaþings vestra, innréttingar. Rekstrarstjóri leggur til breytingar á efnisvali í innréttingum sem og að fresta hluta þeirra. Lagt var fram nýtt tilboð frá Stíganda ehf. í samræmi við breytingar. Nýtt tilboð í innréttingar kr. 19.106.500. Einnig lagt fram tilboð í innihurðir og inniglugga, frá sama aðila kr. 16.839.520, eða alls kr. 35.946.020.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi tilboð.
Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:12