Afgreiðslur:
1. Lagður fram tölvupóstur frá Orkusetri frá 16. apríl 2021. Orkusetur og Orkusjóður hafa unnið að uppbyggingu innviða fyrir rafvæddar samgöngur. Orkusetur er tilbúið að styðja við uppsetningu 22 kW hleðslustöðva svo framarlega að þær verði opnar almenningi. Byggðarráð tekur jákvætt í erindið og felur sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga frá Orkusetri.
2. Lagður fram tölvupóstur frá Magnúsi Jónssyni verkefnastjóra fjárfestinga hjá SSNV frá 6. apríl sl. þar sem ítrekuð er ósk um tilnefningu í verkefnahóp vegna atvinnuuppbyggingar á Hafursstöðum. Byggðarráð samþykkir að tilnefna Friðrik Má Sigurðsson í verkefnahópinn.
Bætt á dagskrá:
3. Trúnaðarmál. Fært í trúnaðarbók.
4. Hreinsunarátak 2021. Byggðarráð Húnaþings vestra skorar á forsvarsmenn fyrirtækja, stofnana og íbúa að taka virkan þátt í hreinsunarátaki sveitarfélagsins. Íbúar og fyrirtæki í Húnaþingi vestra eru nú sem fyrr hvött til að viðhalda góðri ímynd sveitarfélagsins með því að hreinsa til á lóðum sínum og fegra nærumhverfi.
Í samþykkt sveitarfélagsins um meðhöndlun úrgangs kemur m.a. fram að „Óheimilt er að skilja eftir eða geyma úrgang á víðavangi, götum, gangstéttum eða opnum svæðum í sveitarfélaginu. Sama á við um númerslausa bíla, vélar og önnur tæki. Úrgang má einungis meðhöndla í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kröfur sveitarfélagsins.“
Starfsmönnum Umhverfissviðs er falið að fylgja málinu eftir og vera aðilum til aðstoðar við átakið.
5. Byggingarfulltrúi Húnaþings vestra. Ólafur Jakobsson hefur látið af störfum sem byggingarfulltrúi Húnaþings vestra. Byggðarráð óskar Ólafi velfarnaðar og þakkar vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins.
Á 1085. fundi byggðarráðs var sveitarstjóra falið að leita leiða til úrlausnar á verkefnum byggingarfulltrúa. Sveitarstjóri kynnti tímabundna lausn á störfum byggingarfulltrúa sem fela í sér samkomulag við Blöndósbæ um verkefni byggingarfulltrúa og að ráðinn verði aðstoðarmaður byggingarfulltrúa í tímabundið hlutastarf. Fyrir fundinum lágu einnig drög að samkomulagi við Blönduósbæ um verkefni byggingarfulltrúa. Byggðarráð samþykkir fyrirkomulagið og fyrirliggjandi drög að samkomulagi við Blönduósbæ og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins.
Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 14:32