1216. fundur

1216. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn miðvikudaginn 19. júní 2024 kl. 14:00 Ráðhúsi.

Fundarmenn

Magnús Magnússon, formaður,
Elín Lilja Gunnarsdóttir, varaformaður,
Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður.

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Unnur Valborg Hilmarsdóttir

1.

Framlenging samnings við Sjávarborg um framleiðslu skólamáltíða - 2405057

 

Áður á dagskrá 1215. fundar. Lagt fram minnisblað frá sveitarstjóra þar sem farið er yfir forsendur samningsins. Byggðarráð samþykkir framlengingu samnings við Sjávarborg um framleiðslu skólamáltíða til næstu þriggja ára í samræmi við heimild til framlengingar í gildandi samningi.

 

   

2.

Ályktun vegna skertrar þjónustu á hjúkrunardeild HVE á Hvammstanga - 2405061

 

Lagt fram svar frá framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands vegna fækkunar hjúkrunarrýma á Hvammstanga. Fram kemur að skerðingin sé tímabundin og til komin vegna mönnunarvanda. Byggðarráð þakkar svarið.

 

   

3.

Umsókn um lóð undir gróðrastöð á Laugarbakka - 2406003

 

Skógarplöntur ehf., sækja um lóðina Reykjahöfða á Laugarbakka. Byggðarráð samþykktir úthlutun lóðarinnar Reykjahöfða til Skógarplantna ehf.

 

   

4.

Erindi frá SSNV um farsæld barna - svæðisskipan - 2406004

 

Lagt fram minnisblað frá framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) þar sem óskað er eftir umboði til að gera viðaukasamning við Sóknaráætlun landshlutans við mennta- og barnamálaráðuneytið um stofnun farsældarráðs á Norðurlandi vestra. Byggðarráð samþykkir að veita SSNV umboð til að gera framangreindan samning.

 

   

5.

Beiðni um afslátt af leigu á Félagsheimilinu Hvammstanga - 2406006

 

Lögð fram beiðni skipuleggjenda hátíðarinnar Elds í Húnaþingi um afslátt vegna viðburða í samfélagsþágu í Félagsheimilinu Hvammstanga. Byggðarráð samþykkir veitingu afsláttar til viðburða í samfélagsþágu.

 

   

Magnús Magnússon vék af fundi kl. 14:32 og Elín Lilja Gunnarsdóttir varaformaður tók við stjórn fundarins.

6.

Umsókn um byggingarlóð Búland 6 Hvammstanga - 2406009

 

Óskar Hallgrímsson, Ingibjörn Pálmar Gunnarsson, Guðmundur Brynjar Guðmundsson og Kristján Ársælsson fyrir hönd óstofnaðs félags sækja um lóðina Búland 6 á Hvammstanga. Byggðarráð samþykkir úthlutun lóðarinnar Búland 6 til umsækjenda.

Magnús Magnússon kom til fundar að nýju kl. 14:37 og tók við stjórn fundarins.

 

   

7.

Atvinnu- og nýsköpunarsjóður Húnaþings vestra, úthlutun 2024 - 2405014

 

Lagðar fram umsóknir í Atvinnu- og nýsköpunarsjóð Húnaþings vestra. Alls bárust fjórar umsóknir með heildar styrkbeiðnir upp á kr. 5.519.500. Til úthlutunar eru kr. 2 milljónir.
Byggðarráð samþykkir eftirfarandi úthlutun:
Framhugsun ehf. til verkefnisins Rabarbaron, framleiðslu á rabarbara innanhúss, kr. 1.000.000.
Selasetur Íslands til gerðar fýsileikakönnunar á ævintýra- og afþreyingarferðaþjónustu á Hvammstanga með áherslu á selinn, kr. 500.000.
Skógarplöntur ehf. vegna skógarplöntuframleiðslu á Laugarbakka, kr. 500.000.
Sveitarstjóra er falið að ganga frá samningum um úthlutunina við styrkhafa.

 

   

8.

Umsagnarbeiðni vegna tilraunaleyfis til skelræktar í Hrútafirði og Miðfirði - 2406017

 

Lögð fram beiðni MAST um umsögn um umsókn Northlight seafood ehf. um leyfi til tilraunaleyfis til skelræktar í Hrútafirði og Miðfirði. Sótt er um tímabundið leyfi til að kanna hvort svæðin henta til slíkrar ræktunar. Leyfið veitir ekki heimild til dreifingar afurða til neyslu. Tilraunaleyfi gildir að hámarki til þriggja ára í senn en heimilt er að endurnýja það samkvæmt umsókn leyfishafa í eitt ár í senn þannig að leyfið gildi að hámarki í sex ár.
Byggðarráð gerir ekki athugasemd við útgáfu tilraunaleyfisins að því gefnu að hugað verði að góðri umgengni leyfishafa um tilraunasvæðið, för smábáta um svæðið verði ekki heft, auk þess að ummerki um tilraunaræktunina verði fjarlægð að leyfistíma loknum.

 

   

9.

Beiðni um endurnýjun á knattspyrnumörkum á Kirkjuhvammsvelli - 2405056

 

Áður á dagskrá 1215. fundar. Byggðarráð samþykkir beiðni Ungmennfélagsins Kormáks um kaup á nýjum knattspyrnumörkum á Kirkjuhvammsvöll skv. tilboði frá Altis að fjárhæð kr. 499.700. Sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs er falið að undirbúa gerð viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2024 vegna kaupanna.

 

   

10.

Málefni bænda vegna kuldatíðar í byrjun júní - 2406020

 

Dagana 3.-8. júní síðastliðna gekk slæmt veður með mikilli úrkomu og kulda yfir Norðurland. Hret þetta kom óvenju seint að vori, þegar lambfé var flest komið út og þurfti á vissum stöðum að hýsa fé aftur, ásamt því að hýsa þurfti folaldsmerar. Jafnframt stóð veðrið óvenju lengi yfir, eða í rétt tæpa viku. Veðrið hafði neikvæð áhrif á búfénað sem og jarðrækt bænda, ásamt því að áður var vitað að mikil og langvinn kuldaköst síðastliðinn vetur urðu völd að miklu kali í túnum.
Í Húnaþingi vestra, þar sem landbúnaður og ekki hvað síst sauðfjárrækt er stór atvinnuvegur, er fyrirsjáanlegt að veður sem þetta getur haft töluverð áhrif. Jafnframt er ljóst að afleiðingar veðursins hafa ekki komið fram að fullu til dæmis hvað varðar heilsufar áa og fallþunga lamba og munu ekki koma fram að fullu fyrr en í haust.
Þegar aðstæður sem þessar koma upp er mikilvægt að öryggisnet sé til staðar sem tryggir að bændur hafi aðgang að nauðsynlegum björgum í kjölfar tjóns. Byggðarráð skorar á stjórnvöld að vinna að gerð viðbragðsáætlunar vegna áfalla í landbúnaði ásamt því að tryggja bændum fjármagn til að bæta tjón sem af þeim hlýst.

 

   

11.

Fundargerð 109. fundar stjórnar SSNV frá 4. júní 2024 - 2406005

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

12.

Fundargerð 948. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 31. maí 2024 - 2406019

 

Lögð fram til kynningar.

Bætt á dagskrá:

 

   

13.

Samningur við Pílufélagið Hvammstanga um leigu á Félagsheimilinu Hvammstanga 2024 - 2406025

 

Byggðarráð samþykkir endurnýjun leigusamnings við Pílufélagið Hvammstanga vegna leigu á neðri hæð í Félagsheimilinu Hvammstanga undir starf félagsins. Samningurinn tekur gildi við lok gildandi leigusamnings og er með sömu skilmála og þar koma fram. Leigutími er eitt ár.

 

   

14.

Samgönguáætlun - 2406023

 

Fregnir hafa borist af því að samgönguáætlun verði ekki afgreidd á því þingi sem nú er að ljúka. Málinu var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis þann 10. október 2023, fyrir rúmum 8 mánuðum. Byggðarráð furðar sig á því að ekki hafi verið hægt að komast að samkomulagi innan nefndarinnar á þeim tíma. Jafnframt lýsir ráðið yfir þungum áhyggjum af þeim töfum sem óhjákvæmilega verða vegna þessa á brýnum samgönguúrbótum um land allt.

 

   

Fundargerð upplesin og samþykkt Fundi slitið kl. 15:44.

Var efnið á síðunni hjálplegt?