959. fundur

959. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 29. janúar 2018 kl. 14:00 Í fundarsal Ráðhúss.

Fundarmenn

Fundinn sátu:      
Unnur Valborg Hilmarsdóttir aðalmaður, Elín R. Líndal aðalmaður, Sigurbjörg Jóhannesdóttir varamaður.

Starfsmenn

Embættismenn: 
Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri.
Ingibjörg Jónsdóttir, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Ingibjörg Jónsdóttir

Afgreiðslur:

  1. Fundargerðir lagðar fram til kynningar.
    1. 1801033 Fundargerð stjórnarfundar SSNV dags. 9. jan. sl.
    2. 1801029 Fundargerð 400. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands.
  2. 1801030  Lagt fram til kynningar erindi Auðlindadeildar LbhÍ um möguleika í staðbundinni vinnslu metans og nýting orkunnar í héraði.  Byggðarráð lýsir yfir áhuga á verkefninu og að það verði kynnt.
  3. 1801035  Lagðar fram endurskoðaðar reglur um sérstakan húsnæðisstuðning í Húnaþingi vestra.  Reglurnar eru lítillega uppfærðar miðað við breytingu á lögum.  Byggðarráð samþykkir reglurnar.
  4. 1711020 Lögð fram styrkbeiðni frá blakdeild Kormáks (áður á dagskrá 953. fundar). Elín Líndal vék af fundi vegna vanhæfis.  Blakdeildin hefur fengið afslátt af tímaverði í samræmi við aðrar deildir.  Byggðarráð samþykkir að svo verði áfram.
  5. 1709010 Framtíðarskipan í skólamálum í Húnaþingi vestra

Tillögur starfshóps um framtíðarskipan skólamála í Húnaþingi vestra hafa farið til  umræðu og umsagnar nemendaráðs, skólaráðs, fræðsluráðs sem og í almenna kynningu á vef sveitarfélagsins þar sem íbúum var gefinn kostur á að gera athugasemdir sbr. ákvörðun sveitarstjórnar frá 14. desember sl. Skólaráð, nemendaráð og fræðsluráð hafa lýst ánægju sinni með tillögurnar og engar athugasemdir komu fram eftir almenna kynningu á vef sveitarfélagsins. 

Byggðarráð skipar eftirtalda aðila í byggingarnefnd viðbyggingar við Grunnskóla Húnaþings vestra:  Byggðarráð, sveitarstjóra, sviðsstjóra fjölskyldusviðs, umhverfisstjóra, rekstrarstjóra og skólastjóra grunnskólans.  Byggingarnefndin mun  starfa samkvæmt erindisbréfi. Skal nefndin ljúka störfum fyrir 31. maí 2018. Sveitarstjóra falið að boða til fyrsta fundar.

    6. 1801036 Lagt fram til kynningar bréf frá SSNV vegna kjördæmaviku Alþingis 12.- 16. febrúar nk. 

    7. 1707005 Lagt fram bréf frá Mennta-og menningarmálaráðuneyti vegna tímabundins flutnings mataraðstöðu nemenda Grunnskóla Húnaþings vestra í félagsheimilið á Hvammstanga.  Beinir ráðuneytið þeim tilmælum til sveitarfélagsins að leita allra leiða til að tryggja öryggi grunnskólabarna staðarins, eins og skylt er, og gera viðeigandi ráðstafanir þar af lútandi. 

Byggðarráð þakkar ráðuneytinu brýninguna og upplýsir jafnframt að yngri grunnskólabörn eru nú í sjálflýsandi vestum á leið sinni til og frá mataraðstöðu sem og að ráðinn hefur verið gangbrautarvörður sem sér um að börn fari ekki eftirlitslaust yfir Hvammstangabrautina, þjóðveg í þéttbýli, þegar farið er til og frá mataraðstöðu nemenda. 

  8. 1801032 Lagt fram erindi frá Markaðsstofu Norðurlands vegna uppbyggingar á Akureyrarflugvelli.  Lögð fram eftirfarandi bókun: „Með áframhaldandi vexti ferðaþjónustunnar er mikilvægt að umferð ferðamanna dreifist um landið.  Það er því mikilvægt að Akureyrarflugvöllur sé búinn þeim búnaði sem þarf til að geta mætt öllum þeim hindrunum sem upp geta komið, m.a. af veðurfarslegum ástæðum. Með þeirri vinnu sem unnin hefur verið í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands, ferðaþjónustuaðila og önnur sveitarfélög um Norðurland sem áfangastað millilandaflugs hefur verið lögð áhersla á að flugvöllurinn sé tilbúinn fyrir millilandaflug og rekstur hans sé tryggður.  Byggðarráð skorar því á stjórnvöld að tryggja fjármagn til kaupa á nauðsynlegum aðbúnaði fyrir Akureyrarflugvöll svo ekki þurfi í framtíðinni að vísa flugumferð frá Akureyri til Keflavíkur.“  Í framhaldinu bendir byggðarráð á mikilvægi þess að Alexandersflugvöllur verði byggður upp sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug.

   9. 1711035 Lagt fram erindi frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti um Blöndulínu.  Byggðarráð lýsir yfir vonbrigðum sínum vegna ákvörðunar um niðurlagningu Blöndulínu og vísar erindinu til umsagnar Landbúnaðarráðs.

   10. 1801042 Lagt fram erindi frá SSNV um örnefnaskráningu. Sveitarstjóra falið að svara erindinu.

   11. 1801038 Lögð fram drög að leigu- og umgengnisreglum geymslusvæðis að Grænulaut.  Byggðarráð samþykkir leigu- og umgengnisreglur um geymslusvæðið að Grænulaut.

 

Samþykkt að taka á dagskrá:

 

  12. 20 ára afmæli Húnaþings vestra.  Í ár eru 20 ár frá sameiningu 7 sveitarfélaga í Húnaþingi vestra. Samþykkt að halda afmælishátíð 17. júní og sveitarstjóra falið að auglýsa eftir aðila til að taka að sér 17. júní utanumhald og afmælishátíð.

  13. Skólahúsnæði á Borðeyri.  Sveitarstjóri sagði frá fyrirspurnum um nýtingu á skólahúsnæði á Borðeyri og lagði áherslu á mikilvægi þess að finna húsnæðinu framtíðarhlutverk.  Sveitarstjóra falið að skoða málið frekar.

  14. Uppgjör vegna breytinga á A deild Brúar lífeyrissjóðs.  Borist hefur uppgjör vegna breytinga á A deild Brúar lífeyrissjóðs.  Lögð fram eftirfarandi bókun: „Byggðarráð samþykkir að greiða framlagt uppgjör frá lífeyrissjóðnum Brú með fyrirvara um að undirliggjandi gögn og útreikningar sem á þeim byggja séu rétt. Jafnframt áskilur byggðarráð sér rétt til endurkröfu ef útreikningar og/eða aðrar forsendur standast ekki.“

Byggðarráð vísar uppgjörinu til endanlegrar afgreiðslu sveitarstjórnar.

 

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.                           Fundi slitið kl: 15:16

Var efnið á síðunni hjálplegt?