- Umhverfisstjóri Ína Björk Ársælsdóttir mætir til fundar við byggðarráð og segir frá helstu verkefnum sínum s.s. stöðu skipulagsmála, sorphirðu, staðsetningu ærslabelgs, vinnuskóla og sláttuhóp.
- 1806074 Lagður fram til samþykktar ársreikningur Reykjatanga vegna ársins 2017.
- 1806075 Lögð fram tillaga að persónuverndarstefnu Húnaþings vestra sem gerð var vegna nýrra persónuverndarlaga sem taka gildi 15. júlí nk. Einnig lögð fram drög að vinnsluskrám þar sem skilgreindar eru þær persónuupplýsingar sem berast og tekin afstaða til hvort og hvernig þeim er safnað eða úr þeim unnið. Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu að persónuverndarstefnu Húnaþings vestra.
- 1806076 Lagðir fram til kynningar eftirfarandi samstarfssamningar:
- Samstarfssamningur Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra, Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna og Héraðsskjalasafns Vestur-Húnavatnssýslu vegna verkefnis um Grænlandsdvöl Rannveigar H. Líndal.
- Samstarfssamningur Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra og Byggðasafns Húnvetninga til eflingar þekkingar- og rannsóknarstarfs á Norðurlandi vestra á sviði sögu og menningar.
- 1709001 Lagt fram bréf frá Ágústi Oddssyni dagsett 23. júní sl. Með bréfinu vill hann minna á fyrri athugasemdir sínar um verulegan skort á bílastæðum á Hvammstangabraut. Byggðarráð þakkar erindið og felur sveitarstjóra að ræða við Vegagerðina og lögregluna um málið.
Samþykkt að taka á dagskrá
6. Fundur byggðarráðs með bankastjóra Landsbankans.
Byggðarráð ásamt sveitarstjóra átti góðan og málefnanlegan fund með bankastjóra Landsbankans Lilju B. Einarsdóttur og framkvæmdastjóra einstaklingssviðs Helga Teiti Helgasyni miðvikudaginn 27. júní sl.
Byggðarráð Húnaþings vestra hvatti stjórnendur Landsbankans hf. til að endurskoða ákvörðun sína um uppsagnir og styttingu opnunartíma í útibúinu á Hvammstanga.
Byggðarráð lagði áherslu á að nær væri að efla útibúið á Hvammstanga og horfa til þeirrar miklu uppbyggingar og eftirspurnar á staðbundinni fjármálaþjónustu sem nú er til staðar í Húnaþingi vestra. Í samfélaginu eru um 280 fyrirtæki og aðilar í rekstri. Íbúum er að fjölga, ferðaþjónustan stækkar, nýbyggingar rísa og markaðsverð húsnæðis hefur hækkað mikið. Í útibúinu á Hvammstanga hefur starfað hæft starfsfólk sem er samfélaginu mikilvægt og þörf fyrir sérhæfða bankaþjónustu hefur sjaldan verið eins mikil. Með uppsögnunum er hætt við að þau 2,5 stöðugildi sem eftir eru nái ekki að þjóna íbúum sveitarfélagsins sem skyldi. Byggðarráð fór fram á að stjórnendur Landsbankans sýni samfélagslega ábyrgð í verki og skoði alvarlega að færa verkefni til útibúsins á Hvammstanga og nýta það öfluga starfsfólk sem þar er. Ríkisbankinn Landsbankinn hf. skilaði miklum arði til eigenda sinna á síðasta ári og telur byggðarráð mikilvægt að hægt sé að sjá brotabrot af þeim arði í störf úti á landi.
7. Starfsmannamál Grunnskóla Húnaþings vestra.
Sveitarstjóri fer yfir breytingar á starfsmannahaldi í grunnskólanum veturinn 2018-2019. Tveir starfsmenn með langan starfsaldur hafa sagt upp störfum, Bjarney Valdimarsdóttir og Þóra Jónsdóttir. Eru þeim færðar þakkir fyrir vel unnin störf.
Fundargerð upplesin og samþykkt.
Fundi slitið klukkan 15:55.