996. fundur

996. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 1. apríl 2019 kl. 15:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Ingveldur Ása Konráðsdóttir, aðalmaður, Þorleifur Karl Eggertsson, varamaður og Magnús Magnússon, aðalmaður.

Starfsmenn

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri

Fundargerð ritaði: Guðný Hrund Karlsdóttir

1.      Sigríður Hjaltadóttir fulltrúi Húnaþings vestra í stjórn Náttúrustofu Norðurlands kemur á fundinn.
Sigríður segir frá starfi stjórnar Náttúrustofu Norðurlands vestra.  Ráðinn hefur verið starfsmaður, Einar Þorleifsson fuglafræðingur, sem verður staðsettur á Hvammstanga.    

2.      Lögð fram til kynningar drög að erindisbréfum félagsmálaráðs, fræðsluráðs, ungmennaráðs, byggðarráðs, landbúnaðarráðs og skipulags- og umhverfisráðs til samræmis við nýjar samþykktir um stjórn Húnaþings vestra.  Erindisbréfin verða send viðkomandi nefndum til kynningar áður en þau fara til endanlegrar afgreiðslu í sveitarstjórn.

3.      1706006 Lagt fram tölvubréf frá Ámundakinn efh. dags. 19. febrúar sl.. þar sem Ámundakinn ehf. óskar eftir að kaupa 6,90% eignarhlut eða 1.693.983 hluti Húnaþings vestra í Fasteignafélaginu Borg efh. á genginu 2,42, samtals að upphæð kr. 4.100.000 sem greiðist með 1.000.000 hlutum í Ámundakinn á genginu 2,1, samtals 2.100.000- og 2.000.000 kr. í peningum.  Jóhannes Torfason framkvæmdarstjóri Ámundakinnar ehf. kemur á fundinn undir þessum lið og kynnir málið.  
Byggðarráð samþykkir ofangreint tilboð og felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir.

4.      1802043 Borðeyri – verndarsvæði í byggð.  Sveitarstjórn samþykkti þann 19. maí 2018 tillögu um að hluti Borðeyrar verði verndarsvæði í byggð vegna menningarsögulegs gildis og ásýndar svo auðveldara verði að vernda sérkenni byggðakjarnans í komandi skipulagsvinnu.  Þann 30. maí 2018 óskaði Húnaþing vestra eftir staðfestingu Mennta- og menningarmálaráðherra sbr. 7. gr. laga um verndarsvæði í byggð nr. 575/2015. 

Nú 10 mánuðum síðar hefur ráðherra ekki enn skrifað undir staðfestingu þrátt fyrir að Minjastofnun hafi sent inn sína umsögn og mælt með staðfestingu.  Þessi töf hefur hamlað skipulagsvinnu á Borðeyri og uppbyggingu ferðaþjónustu í Hrútafirði.  Byggðarráð harmar þessi vinnubrögð og hvetur ráðherra til að klára málið hið fyrsta.

5.      1903033 Lagt fram aðalfundarboð Veiðifélags Arnarvatnsheiðar og Tvídægru sem haldinn verður í veiðihúsinu Laxahvammi þriðjudaginn 2. apríl nk. kl. 20:30. Byggðarráð skipar oddvita sem fulltrúa Húnaþings vestra á fundinum og Magnús Magnússon til vara.

6.      1903034 Lagt fram aðalfundarboð Veiðifélags Víðidalsár sem haldið verður í veiðihúsinu Tjarnarbrekku þriðjudaginn 2. apríl 2019 kl. 20:00.  Byggðarráð skipar sveitarstjóra sem fulltrúa Húnaþings vestra á fundinum og Ingveldi Ásu Konráðsdóttur til vara.

7.      1903039 Lagt fram aðalfundarboð Veiðifélags Miðfjarðarár sem haldinn verður í veiðihúsinu Laxahvammi mánudaginn 15. apríl nk. kl. 20:30. Byggðarráð skipar sveitarstjóra sem fulltrúa Húnaþings vestra á fundinum, og oddvita til vara.

8.      Fundargerðir lagðar fram til kynningar
a)  1903026 869. fundur stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 15. mars sl.
b)  1903040 411. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands frá 22. mars sl. ásamt drögum að ársreikningi 2018

Samþykkt að taka á dagskrá:

9.      Lögð fram til kynningar umsögn sveitarstjórnar Húnaþings vestra um frumvarp til laga um fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.), 647. mál.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra telur nauðsynlegt að Alþingi geri nauðsynlegar endurbætur á frumvarpi um breytingar á lögum um fiskeldi þannig að það samræmist stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að gætt skuli varúðar við uppbyggingu fiskeldis á Íslandi og stuðlað að sjálfbærni með vernd lífríkisins að leiðarljósi.

Í Húnaþingi vestra hafa tekjur íbúa af laxveiði og tengdri þjónustu aukist á liðnum árum og er um tekjur að ræða sem skipta verulegu máli fyrir eigendur margra jarða, ekki síst sauðfjárbændur sem mátt hafa þola miklar skerðingar á lífskjörum síðustu ár og horfa fram á mikla óvissu framundan um sína afkomu. Það er því mikið hagsmunamál fyrir samfélagið í Húnaþingi vestra að tekið sé mið af þýðingu villtra laxastofna fyrir afkomu íbúa í héraðinu þegar Alþingi tekur frumvarpið til efnislegrar umfjöllunar. Auk þess er mikilvægt að horft sé til þess að náttúran sé látin njóta vafans og þess að íslenskir laxastofnar og laxfiskar eigi sjálfstæðan rétt til að þróast áfram á sínum forsendum, en einnig svo að komandi kynslóðir geti notið þeirra. Þess má geta að frumvarpið samræmist vart markmiðsyfirlýsingu núgildandi fiskeldislaga sem felur í sér að vöxtur og viðgangur fiskeldis megi ekki gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. Sveitarstjórn Húnaþings vestra telur að uppbygging fiskeldis á Íslandi þurfi að vera fyrirsjáanleg og byggja á bæði sérfræðiþekkingu úr nærsamfélagi viðkomandi sveitarfélaga og ráðgjöf stofnana ríkisins, svo unnt sé að ná meiri sátt um atvinnugreinina. Sveitarstjórn áréttar mikilvægi þess að gætt sé fyllstu varfærni í aukningu fiskeldis í sjó þannig að ekki verði unninn óafturkræfur skaði á þeirri sérstöðu sem Ísland hefur í okkar heimshluta vegna hinna einstöku villtu laxastofna sem styrkja búsetu og veita atvinnu í gegnum verðmætar laxveiðiár.​ Sérstaklega er hvatt til þess að stjórnvöld hafi það að sérstöku átaksverkefni að stuðla að uppbyggingu umhverfisvænni leiða í fiskeldi, til dæmis með lokuðum sjókvíum, landeldi og eldi á ófrjóum laxi, svo sem hvað varðar stuðning við þróunarstarf, lagasetningu og gjaldtöku.

Úr stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis: „Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Samhliða vexti greinarinnar þarf að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið.”

10.    Lögð fram til kynningar auglýsing frá Íbúðalánasjóði vegna umsókna um stofnframlög 2019.  Umsóknarfrestur er til 5. apríl nk.  Sveitarstjóra falið að senda inn umsókn.

11.    Sveitarstjóri tilkynnir að Liljana Milenkoska hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðinn í starf verkefnastjóra vegna móttöku flóttamanna.

Fundargerð upplesin og samþykkt.                           Fundi slitið kl.: 15:46

Var efnið á síðunni hjálplegt?