Áformaðar gjaldskrárbreytingar

Hátíðarhöld Grunnskóla Húnaþings vestra á Öskudag 2024.
Hátíðarhöld Grunnskóla Húnaþings vestra á Öskudag 2024.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur ákveðið með hvaða hætti staðið verði að gjaldskrárbreytingum í tengslum við stöðugleikasamninga en bókað var um áform um breytingarnar á 380. fundi sveitarstjórnar sem fór fram þann 10. apríl sl. 

Í samræmi við tilmæli frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er horft til gjaldskráa sem helst varða barnafjölskyldur. Í flestun tilfellum er gert ráð fyrir að breytingarnar taki gildi 1. júní næstkomandi en einhverjar í haust. Ekki er um að ræða afturvirkar breytingar. Sá fyrirvari er settur á breytingarnar að gerðir verði sambærilegir samningar á opinberum vinnumarkaði og gerðir voru á almenna vinnumarkaðnum á dögunum. 

Í fyrrnefndum tilmælum Sambandsins kom fram áskorun um að sveitarfélög myndu draga til baka gjaldskrárhækkanir á fyrrgreindum gjaldskrám umfram 3,5%. Almennt voru gjaldskrárhækkanir milli áranna 2023 og 2024 hjá Húnaþingi vestra 5,5%. Sveitarstjórn ákvað að lækka valdar gjaldskrár meira en tilmæli Sambandsins sögðu til um eða sem nemur um 2,5% hækkun frá árinu 2023. Einnig var ákveðið að hækka frístundakort um 25%, úr 20 þúsund í 25 þúsund.

Þær gjaldskrár sem sveitarstjórn samþykkti að tækju breytingum með fyrirvara um kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði eru eftirfarandi: 

  • Gjaldskrá Leikskólans Ásgarðs verður lækkuð í heild sinni og hækkar um 2,5% frá árinu 2023.
  • Gjaldskrá Grunnskóla Húnaþings vestra, dreifnáms og fjarfundastofu breytist með þeim hætti að gjald vegna mötuneytis grunnskólanema verður afnumið frá hausti og frístund lækkar frá haustönn og hækkar um 2,5% frá árinu 2023. Verð vegna sumarfrístundar verður lækkað frá áður útgefinni gjaldskrá frá 1. júní með sama hætti. Aðrir liðir í gjaldskránni haldast óbreyttir.
  • Gjaldskrá Tónlistarskóla Húnaþings vestra hækkar um 2,5% frá árinu 2023 frá og með haustönn 2024 vegna þjónustu við börn að 18 ára aldri. Óbreytt gjaldskrá verður vegna hópkennslu sem var nýr liður í gjaldskrá fyrir árið 2024, nemenda í forskóla og hljóðfæraleigu en þessi þjónusta hækkaði ekki í upphaflegri gjaldskrá fyrir árið 2024.
  • Gjaldskrá bóka- og héraðsskjalasafns og félagsmiðstöðvar hækkar um 2,5% frá árinu 2023 og tekur breytingin gildi 1. júní 2024. Breytingin á við um útleigu á félagsmiðstöð, aðrir liðir gjaldskrárinnar eru óbreyttir.
  • Gjaldskrá Íþróttamiðstöðvar Húnaþings vestra breytist þann 1. júní vegna árskorta, en gjald vegna árskorta mun verða sama fjárhæð og hún var árið 2023, þ.e. hækkun árskorta er alfarið dregin til baka. Aðrir liðir gjaldskrárinnar verða óbreyttir.
  • Jafnframt er lagt til að fjárhæð frístundakorta árið 2024 verði hækkuð úr kr. 20.000 í kr. 25.000. 

Uppfærðar gjaldskrár verða birtar á vef sveitarfélagsins innan tíðar.

Var efnið á síðunni hjálplegt?