Húnaþing vestra tekur þátt í rafrænu geðheilsuátaki

Helena frá Mental ráðgjöf, Kristinn leikskólastjóri leikskólans Ásgarðs, Unnur sveitarstjóri og Ey…

Helena frá Mental ráðgjöf, Kristinn leikskólastjóri leikskólans Ásgarðs, Unnur sveitarstjóri og Eydís skólastjóri Grunnskóla Húnaþings vestra á undirbúningsfundi átaksins.

Húnaþing vestra hefur gert samkomulag við Mental ráðgjöf um þáttöku í Rafrænu geðheilsuátaki sem nær til starfsmanna sveitarfélagsins. Er sveitarfélagið fyrsti vinnustaðurinn á Íslandi til að taka rafræna átakið í notkun. 

Með þátttökunni vill sveitarfélagið sýna skýra skuldbindingu sína til að setja geðheilbrigði á vinnustað rækilega á dagskrá með því að auka vitund og veita fræðslu um geðheilbrigði fyrir alla starfsmenn sveitarfélagsins. Fræðslan fer fram á stofnunum sveitarfélagsins með rafrænum fyrirlestrum og ýmiskonar stoðefni í kjölfar þeirra og verður framkvæmdin aðlöguð að aðstæðum á hverri starfsstöð fyrir sig. Er verkefnið einn fjölmargra liða í aukinni áherslu sveitarfélagsins á bætta líðan starfsmanna og í anda verkefnisins um Heilsueflandi samfélag í hverju geðrækt er einn grunnþátta góðrar heilsu. 

„Við í Húnaþingi vestra lítum á andlega heilsu sem einn lykilþátta í því að tryggja vellíðan og framúrskarandi starfshæfni í vinnuumhverfi okkar. Það að innleiða Rafrænt geðheilsuátak Mental er stórt skref í rétta átt og við erum stolt af því að vera fyrsti vinnustaðurinn til að taka þátt í þessu mikilvæga framtaki. Við vonum að þetta verði öðrum sveitarfélögum og vinnustöðum hvatning til að setja geðheilbrigði í forgang,“ segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.

Hjá Húnaþingi vestra starfa um 115 manns á 9 starfsstöðvum. 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?