Fyrr í vetur samþykkti sveitarstjórn Húnaþings vestra þátttöku í stuðningsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga um innleiðingu á Heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna. Þáttökusveitarfélög tilnefndu tvo fulltrúa, annars vegar kjörin fulltrúa og hins vegar starfsmann til að bera ábyrgð á innleiðingarvinnunni innan sveitarfélagsins. Sveitarstjórn Húnaþings vestra tilnefndi Sveinbjörgu Rut Pétursdóttur og Ragnheiði Jónu Ingimarsdóttur og sátu þær vinnustofu á vegum Sambandsins.
Heimsmarkmiðin fela í sér áherslu á sjálfbæra þróun til hagsbóta fyrir samfélag, umhverfi og efnahag. Með vinnu að heimsmarkmiðunum sköpum við betra samfélag og umhverfi og um leið betri starfsemi.
Liður í innleiðingarvinnunni er greining og kortlagning á verkefnum sveitarfélagsins sem tengst geta heimsmarkmiðunum. Hófst sú vinna nú í vikunni með vinnustofu þar sem stjórnendur sveitarfélagsins og fulltrúar sveitarstjórnar sátu. Vinnustofan var í umsjón Evu Magnúsdóttur hjá Podium og Önnu G. Björnsdóttur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Vinnustofan mæltist vel fyrir og voru þátttakendur ánægðir með afraksturinn. Áfram verður unnið með niðurstöðurnar og verða þær grunnur að stefnumörkun og verkefnum sem sveitarfélagið getur unnið að.
Gaman er að segja frá því að í vinnu við gerð nýrrar menntastefnu er litið til heimsmarkmiðana sem og er leikskólinn að tengja endurskoðun á skólanámsskrá við Heimsmarkmiðin.