Á 1068. fundi byggðarráðs Húnaþings vestra var lagt fram bréf frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu þar sem kannaður var vilji sveitarfélagsins á að unnin yrði úttekt á vegum ráðuneytisins á náttúruverðmætum í sveitarfélaginu. Í bréfinu kom fram að úttektin væri án skuldbindinga en gæti varpað ljósi á tækifæri sem eru fyrir hendi meðal annars með tilliti til hugsanlegrar verndunar.
Sveitarstjórn samþykkti erindi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem fól Umhverfisstofnun að hefjast handa við að greina friðlýsingarkosti í Húnaþingi vestra. Greiningarvinnan var unnin í samstarfi við sveitarfélagið.
Leiðarljós verkefnisins var að skoða stöðu náttúruverndar í sveitarfélaginu, að meta hvaða þýðingu friðlýsingar á grundvelli laga um náttúruvernd hafi fyrir náttúruperlur sveitarfélagsins og hvaða friðlýsingaflokkar henta. Jafnframt að meta hvaða hagsmunir eru fólgnir í friðlýsingum fyrir landeigendur, sveitarfélagið og íslenska ríkið.
Í skýrslunni er ekki verið að lýsa fyrirætlunum um friðlýsingar heldur er hún hugsuð sem grunnur að umræðu um friðlýsingar í sveitarfélaginu og liður í að skapa grundvöll til þátttöku almennings í ákvarðanatöku stjórnvalda.
Boðað er til kynningarfundar þar sem úttekt Umhverfisstofnunar verður kynnt og fulltrúar Umhverfisstofnunar kynna skýrsluna og svara fyrirspurnum. Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 23. mars nk. kl. 17 í Félagsheimilinu Hvammstanga.
Skýrsluna má nálgast HÉR.