Fjallskilastjórn Víðdælinga

Fjallskilastjórn Víðdælinga fjallskilastjórnar haldinn miðvikudaginn 12. ágúst 2020 kl. 00:00 Að Dæli í Víðidal.

Fundarmenn

Almennur fundur í fjallskiladeild Víðdælinga, haldinn 12.8.2020 klukkan 20.00. 

Mættir voru 24 manns.

Fundargerð ritaði: Kristín Guðmundsdóttir

Dagskrá

  1. Málefni fjallskila á bæjunum Efri-Fitjum og Neðri-Fitjum
  2. Göngur haustið 2020
  3. Önnur mál

 

Ísólfur L. Þórisson, formaður fjallskiladeildar, setti fund. Stakk upp á sjálfum sér sem fundarstjóra og Sigríði Ólafsdóttur sem fundarritara. Samþykkt af fundi.

  1. Málefi fjallskila á bæjunum Efri- og Neðri-Fitjum.

Gunnar Þorgeirsson kom í pontu og skýrði frá því hvaða ástæður liggja að baki því að Efri-Fitjar vilja færa sig á milli fjallskiladeilda, úr Víðidal og yfir í Miðfjörð.

Efri-Fitjar hafa not af u.þ.b. ¼ af Stóra-Hvarfs landi  (u.þ.b. 560 hektarar) í skiptum fyrir að fjallskil séu greidd í Víðidal. Efri-Fitjar lenda á milli sauðfjárveikivarnarhólfa og mega þar af leiðandi hvorki reka sitt fé á afrétt á Víðidalstunguheiði né á Arnarvatnsheiði. Hugmynd bænda á Efri- og Neðri-Fitjum er að Efri-Fitjar færi sig yfir í Miðfjarðarhólf en Neðri-Fitjar verði áfram í fjallskiladeild Víðdælinga, en miðað við framtíðarplön stefnir í að afréttarleysi hamli framtíðarvexti Efri-Fitja.

Ísólfur kom í pontu á eftir Gunnari og ræddi sjónarmið fjallskilastjórnar. Fjallskil eru að verða þungur baggi á bændum og nauðsynlegt að leita framtíðarlausna.

Þórir Ísólfsson spurði hvernig hlutföll gripa á milli bæjanna yrðu ef af skiptum yrði, Gunnar svaraði því. Um 500 einingar á Efri-Fitjum og um 400 einingar á Neðri-Fitjum.

Júlíus Guðni Antonsson kom í pontu. Bar fram umræðugrundvöll um að metið verði hversu mikið fé afréttir bera og það sem út af stendur verði fært yfir á afrétt Miðfirðinga.

Friðrik Már Sigurðsson benti á að það væri alls óvíst eins og sakir standa hvernig afréttarmálum verði hagað í framtíðinni.

Ísólfur benti á fjórar leiðir varðandi framhaldið:
I. Gefinn verði afsláttur af fjallskilagjöldum, í samræmi við fundargerð Þorkelshólshrepps frá 1960.

II. Efri-Fitjar fari yfir í fjallskiladeild Miðfirðinga en Neðri-Fitjar verði í fjallskiladeild Víðdælinga.

III. Bæði bú fari yfir í fjallskiladeild Miðfirðinga, þá kæmi til girðing í Stóra-Hvarfi.

IV. Fitjabændur kaupi Stóra-Hvarf og fari yfir í fjallskiladeild Miðfirðinga. Mögulegt væri þá, á móti tekjutapi fjallskiladeildar Víðdælinga, að tekin yrðu ákveðið mörg hross í hagagöngu.

Ingvar Ragnarsson taldi að erfitt yrði fyrir deildina að tapa búum. Velti fyrir sér hvort báðir bæirnir gætu verið með aðild að báðum fjallskiladeildum þannig að heildarfjöldi eininga myndi skiptast jafnt á milli deilda.  

Þórir benti á að það yrði högg fyrir deildina að missa báða bæi.

Steinbjörn Tryggvason benti á að þessi umræða væri ekki ný af nálinni. Steinbjörn og Garðar Valur Gíslason bentu á að afréttur Víðdælinga væri orðinn of stór miðað við þann skepnufjölda sem er til staðar í dalnum.

Ingveldur Linda Gestsdóttir lýsti yfir skilningi á afstöðu Efri-Fitjabænda en benti á að það yrði högg fyrir deildina að missa þau yfir í aðra deild.

Þórir velti fyrir sér hvort það væri mögulegt að fá hækkun á fjallskilamati lands, þar sem þær jarðir sem eru ekki haldnar til búskapar hafa sama rétt og aðrar til upprekstrar.

Gunnar velti fyrir sér hvort það þurfi ekki að fara hugsa heildargöngur upp á nýtt.

Garðar velti því upp hvort það væri ekki hægt að girða eignarland Húnaþings vestra af og hætta að beita þjóðlendu.

Ísólfur benti á að það væri ekki fjallskiladeildar að taka ákvörðun um málið heldur væri það sveitarstjórnar, fundurinn myndi eingöngu gefa ráðgefandi álit.

Steinbjörn taldi að það væri ekki endilega þörf á því að bæði Efri- og Neðri-Fitjar færðu sig yfir heldur gætu bæirnir verið í sitthvorri deildinni.

Júlíus taldi að það væri nú þegar heimild fyrir því að taka hross í hagagöngu frá mönnum utan deildar, gegn samþykki fjallskiladeildar.

Almennar umræður um hvernig mögulegt er að halda niðri kostnaði til framtíðar.

Ísólfur taldi að niðurstaða umræðna á fundi væri að lýst væri yfir skilningi á erindu Efri-Fitjabænda en deildin hefði illa efni á að missa tekjurnar sem koma af fjallskilum þeirra. Þarf því að leita einhverra leiða til að bæta deildinni upp tekjumissinn.

Pétur Þ. Baldursson benti á að það væri heimild í fjallskilasamþykkt til að leggja á fjallskil ef ágangur verður frá öðrum sveitarfélögum.

Almennar umræður um þennan lið.

 2. Göngur haustið 2020.

Ísólfur ræddi um mögulegar hömlur á smalamennskum vegna Covid. Von er á leiðbeiningum frá Landssamtökum sauðfjárbænda varðandi smalamennskur haustsins.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir greindi frá því helsta sem er í umræðunni varðandi göngur og smalamennskur.

Almennar umræður um þennan lið, þar á meðal hvernig hægt er að skipuleggja göngur þannig að sóttvörnum verði viðkomið.

 3. Önnur mál

Júlíus benti á að það þyrfti að líta á tökubásinn í Víðidalstungurétt. Ísólfur sagði að það væri á plani, ásamt því að fara hringinn á heiðinni í vegagerð.

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið klukkan 21.14.

Var efnið á síðunni hjálplegt?