Borgarstefna - mál til umsagnar - Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis

Málsnúmer 2503045

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1241. fundur - 31.03.2025

Lagt fram erindi frá Alþingi sem sendir til umsagnar mál um borgarstefnu, 158. mál.
Byggðarráð Húnaþings vestra styður mótun heildrænnar borgarstefnu fyrir Ísland. Ráðið telur mikilvægt að í slíkri stefnu sé skýrt kveðið á um hlutverk og skyldur höfuðborgar og svæðisborgar gagnvart landsbyggðunum. Í framkomnum drögum vantar að mati ráðsins nokkuð þar upp á og meðal annars nauðsynlegt að rík áhersla sé lögð á hlutverk Reykjavíkurflugvallar og Landspítalans í þjónustu við landsbyggðirnar. Einnig leggur ráðið áherslu á að til viðbótar við samgöngur á lofti er brýnt að samgöngur á landi séu viðunandi svo íbúar landsbyggðanna hafi sem best aðgengi að þjónustu í höfuðborginni. Í því sambandi vill ráðið leggja áherslu á að ráðist verði í byggingu Sundabrautar sem allra fyrst enda sýni greiningar að íbúar Húnaþings vestra sæki sér þjónustu sem ekki er veitt í nærumhverfi að mestu á höfuðborgarsvæðið. Sú framkvæmd myndi auðvelda aðgengi íbúa á vestur- og norðurhluta landsins að þjónustu í Reykjavík til mikilla muna.

Byggðarráð tekur undir sjónarmið þau sem fram koma í umsögn Skagafjarðar og fleiri sveitarfélaga um að þess verði gætt að borgarstefna leiði ekki til þess að dregið verði úr nauðsynlegri uppbyggingu grunn innviða annarsstaðar á landinu m.a. hvað varðar heilbrigðisþjónustu, mennta- og menningarmál, löggæslu og opinbera stjórnsýslu. Með öðrum orðum að stefnan leiði til uppbyggingar en ekki til frekari skerðinga á þjónustu á landsbyggðunum en orðið er.

Var efnið á síðunni hjálplegt?