Lok lóðarleigusamnings vegna Norðurbrautar 30

Málsnúmer 2212015

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1214. fundur - 22.05.2024

Lagt fram bréf Lagastoðar, dags. 8. maí 2024, ásamt fylgiskjölum þar sem fram kemur krafa húseigenda Norðurbrautar 30 um greiðslu vegna eignarinnar. Einnig lagt fram bréf Landslaga, dags. 14. maí 2024 þar sem kröfu húseigenda er hafnað og fyrra tilboð sveitarfélagsins er ítrekað. Frestur til að rýma eignina er framlengdur um mánuð til viðbótar við þá þrjá mánuði sem þegar höfðu verið gefnir.

Byggðarráð staðfestir þá afstöðu sem fram kemur í bréfi Landslaga dags. 14. maí 2024 um uppgjör og skil lóðarinnar í samræmi við niðurstöðu matsgerðar óháðra matsmanna líkt og kveðið er á um í lóðarleigusamningi. Auk þess býður sveitarfélagið að niðurrif og förgun eignarinnar verði á þess kostnað. Sveitarstjóra er falið að ljúka málinu í samræmi við það í samvinnu við lögmann sveitarfélagsins.

Ferli málsins er að lóðarleigusamningur lóðarinnar rann út 28. janúar 2024. Þar sem eignin samræmist ekki gildandi deiliskipulagi frá 2012 og áformuð er íbúðauppbygging á reitnum var þáverandi húseiganda tilkynnt að lóðarleigusamningur yrði ekki endurnýjaður og boðið fasteignamat sem greiðslu fyrir eignina í janúar 2023, þó ekki sé kveðið á um bætur til leigutaka í þeim lóðarleigusamningi sem nýverið rann út. Því höfnuðu nýir húseigendur og voru því kvaddir til dómkvaddir matsmenn sem báðir málsaðilar sammæltust um til að meta sannvirði hússins að teknu tilliti til ástands þess í samræmi við ákvæði eldri lóðarleigusamnings. Mat þeirra lá fyrir í febrúar 2024 og var húseigendum boðið verð í samræmi við matið auk þess að sveitarfélagið tæki á sig kostnað við niðurrif og förgun eignarinnar. Var gefinn þriggja mánaða frestur til að rýma eignina, til 15. maí 2024. Húseigendur kvöddu hins vegar til matsmenn til að meta endurstofnverð eignarinnar, jarðvegsskipti og sokkinn kostnað og gerðu kröfu um greiðslu í samræmi við það. Þeirri kröfu hafnar sveitarfélagið þar sem hún endurspeglar ekki sannvirði hússins og gengur því lengra en lóðaleigusamningur segir til um.

Byggðarráð - 1224. fundur - 16.09.2024

Áður á dagskrá 1214. fundar byggðarráðs sem haldinn var þann 22. maí sl. þar sem ferli málsins er rakið. Fulltrúar sveitarfélagsins funduðu með eigendum eignarinnar að Norðurbraut 30 og fulltrúum þeirra í júní sl. Í framhaldi var farið heildstætt yfir málið. Samþykkt er að leggja fram lokatilboð til uppgjörs í tilefni af lokum lóðarleigusamninga auk ítrekunar á boði um niðurrif og förgun eignarinnar. Gefinn verður lokafrestur til að rýma eignina. Lögmönnum sveitarfélagsins er falið að vinna málið áfram með sveitarstjóra.

Byggðarráð - 1233. fundur - 09.12.2024

Lagt fram tilboð og rökstuðningur eigenda húseignarinnar að Norðurbraut 30 vegna loka lóðarleigusamnings. Ferli málsins var rakið í bókunum á 1214. fundi byggðarráðs þann 22. maí 2024 og 1224. fundi ráðsins þann 16. september 2024.

Byggðarráð vísar tilboðinu til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn - 386. fundur - 12.12.2024

Fyrir liggur tilboð frá eigendum húseignarinnar að Norðurbraut 30 með fresti til 20. desember 2024.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjóra falið að óska eftir fresti til að svara tilboðinu til 20. janúar 2025.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Var efnið á síðunni hjálplegt?