Sveitarstjórn

386. fundur 12. desember 2024 kl. 15:00 - 17:00 í Ráðhúsinu
Nefndarmenn
  • Þorleifur Karl Eggertsson oddviti
  • Magnús Magnússon varaoddviti
  • Sigríður Ólafsdóttir aðalmaður
  • Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður
  • Elín Lilja Gunnarsdóttir aðalmaður
  • Ingimar Sigurðsson aðalmaður
  • Viktor Ingi Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Unnur Valborg Hilmarsdóttir Sveitarstjóri
Dagskrá
Oddviti setti fund og óskaði eftir að bæta á dagskrá sem 11. dagskrárlið kosningu í byggðarráð, 12. dagskrárliður verði könnunarviðræður og 13. dagskrárliður verði skýrsla sveitarstjóra. Samþykkt samhljóða.
Formaður byggðarráðs kynnti fundargerð.

1.Byggðarráð - 1232

Málsnúmer 2411004FVakta málsnúmer

Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Formaður byggðarráðs kynnti fundargerðina.

2.Byggðarráð - 1233

Málsnúmer 2411006FVakta málsnúmer

Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • 2.1 2410061 Mannauðsstefna
    Byggðarráð - 1233 Áður á dagskrá 1231. fundar byggðarráðs þann 11. nóvember sl. þar sem samþykkt var að kalla eftir umsögnum starfsmanna um stefnuna. Var það gert með fresti til 1. desember sl. Ein umsögn barst sem innihélt ekki efnislegar athugasemdir. Mannauðsstefnan er því lögð fram í óbreyttri mynd. Byggðarráð samþykkir framlagða stefnu og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.
  • Byggðarráð - 1233 Lagður fram til kynningar samningur milli Húnaþings vestra og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um styrk vegna ráðningar tengiráðgjafa. Hljóðar styrkurinn upp á kr. 3,5 milljónir. Styrkurinn er veittur á grundvelli aðgerða stjórnvalda í að mæta félags- og heilsufarslegum afleiðingum Covid-19 heimsfaraldursins. Liður í þeim aðgerðum er að koma í veg fyrir og draga úr einmanaleika og félagslegri einangrun viðkvæmra hópa. Jafnframt byggir verkefnið á aðgerð B.1 um vitundarvakningu um heilbrigða öldrun og A.2 um heima-endurhæfingarteymi, í Gott að eldast, aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk 2023-2027.

    Auglýst hefur verið eftir starfsmanni til að sinna hlutverki tengiráðgjafa í 20-30% starfshlutfalli til eins árs.

    Byggðarráð fagnar styrkveitingunni.
  • Byggðarráð - 1233 Lagt fram minnisblað vegna ráðningarferlis sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs Húnaþings vestra. Í minnisblaðinu er farið yfir ráðningarferlið og mat á þeim umsóknum sem bárust.

    Byggðarráð hefur kynnt sér gögn málsins og samþykkir að ráða Þorgils Magnússon í starf sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs Húnaþings vestra. Sveitarstjóra er falið að ganga frá og undirrita ráðningarsamning við Þorgils.

    Björn Bjarnason lætur af störfum um áramót. Byggðarráð þakkar Birni vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins og óskar honum velfarnaðar í komandi verkefnum.
  • Byggðarráð - 1233 Til ráðstöfunar til leikfélaga á árinu 2025 eru kr. 300 þúsund. Þar sem fleiri en eitt leikfélag er starfandi í sveitarfélaginu verður það framlag auglýst til umsóknar í upphafi árs 2025. Því er ekki hægt að verða við styrkbeiðninni að svo komnu.
  • Byggðarráð - 1233 Byggðarráð samþykkir veitingu afsláttar vegna viðburða í samfélagsþágu.
  • Byggðarráð - 1233 Byggðarráð vísar til fyrri umsagnar um málið sem veitt var á 1212. fundi ráðsins þann 29. apríl 2024. Þar sagði:

    „Lögð fram beiðni innviðaráðuneytis um umsögn um beiðni Landsnets um skipan raflínunefndar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við lagningu Holtavörðuheiðarlínu 1 og Holtavörðuheiðarlínu 3. Er beiðni Landsnets með vísan í 1. mgr. 9.gr.a. í skipulagslögum nr. 123/2010 en heimild til skipunar slíkra nefnda var fest í lög með lagabreytingu nr. 35/2023. Byggðarráð Húnaþings vestra lagðist gegn þeim breytingum. Taldi ráðið þá, og gerir enn, að þær vegi að skipulagsvaldi sveitarfélaga.

    Byggðarráð Húnaþings vestra telur að á þessu stigi sé ekki þörf á skipan slíkrar nefndar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um legu línanna og þar af leiðandi ekki farið fram samtal um framkvæmdina og enn síður kominn fram ágreiningur um hana. Auk þess liggur ekki fyrir reglugerð um störf raflínunefnda á grundvelli lagabreytinga nr. 35/2023 og skipan nefndarinnar því ekki tímabær.

    Húnaþing vestra hefur á öllum stigum sýnt mikinn vilja til samstarfs enda um að ræða afar mikilvæga framkvæmd fyrir svæðið og landsmenn alla. Sveitarfélagið mun líkt og á fyrri stigum halda þeirri samvinnu áfram.
    Í rökstuðningi með beiðni Landsnets eru helstu rök fyrir skipan raflínunefndar að af því skapist mikið hagræði. Vissulega er um flókið skipulagsmál að ræða en byggðarráð vill benda á að skipulagsmál eiga ekki, og mega ekki, í eðli sínu vera einföld. Tilgangur þeirra er að tryggja að vel sé að verki staðið við hvers kyns framkvæmdir og að sem flest sjónarmið séu tekin með í reikninginn.

    Í rökstuðningi Landsnets kemur einnig fram að hlutaðeigandi sveitarfélögum hafi verið tilkynnt um beiðnina og að engin sérstök mótmæli hafi borist. Byggðarráð vill að fram komi að í því bréfi var á engan hátt gefið til kynna að umsagna væri óskað heldur var ítrekað tekið fram að bréfið væri sent til upplýsingar.“

    Byggðarráð ítrekar fyrri afstöðu sína um að ekki skuli skipuð raflínunefnd nema sannarlega séu deilur um lagningu línunnar enda felist í þeirri ráðstöfun alvarlegt inngrip inn í skipulagsferla og með henni vegið að skipulagsrétti sveitarfélaga. Í rökstuðningi Landsnets er vísað í fyrri framkvæmdir sem vissulega hafa tafist vegna deilna sem er miður. Byggðarráð fær ekki séð af framkomnum gögnum að um deilur um lagningu línunnar sé að ræða.
    Bókun fundar Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1233 Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs kynnti milliuppgjör eftir fyrstu níu mánuði ársins 2024, en framkvæmdaráð tók það fyrir á fundi sínum þann 9. desember sl. Rekstur er almennt samkvæmt áætlun.
  • Byggðarráð - 1233 Lagt fram tilboð og rökstuðningur eigenda húseignarinnar að Norðurbraut 30 vegna loka lóðarleigusamnings. Ferli málsins var rakið í bókunum á 1214. fundi byggðarráðs þann 22. maí 2024 og 1224. fundi ráðsins þann 16. september 2024.

    Byggðarráð vísar tilboðinu til afgreiðslu sveitarstjórnar.
  • Byggðarráð - 1233 Sótt var um styrki í Uppbyggingarsjóð til tveggja verkefna:

    Endurgerð listaverksins Þróunar eftir Marinó Björnsson við Félagsheimilið Hvammstanga. Sótt var um styrk upp á kr. 3,6 milljónir til verksins. Styrksumsókninni var hafnað.

    Húsin í bænum, gerð upplýsingaskilta um íbúðarhús í eldri hluta Hvammstanga byggð á texta og myndum úr bókinni Hús og hýbýli á Hvammstanga, húsaskrá 1898-1972 eftir Þórð Skúlason sem kom út hjá Bókaútgáfunni Skriðu árið 2021. Samþykkti úthlutunarnefnd að veita kr. 400 þúsund til verkefnisins.

    Byggðarráð fagnar styrkveitingunni og felur sveitarstjóra framkvæmd verkefnisins.
  • Byggðarráð - 1233
  • Byggðarráð - 1233
  • Byggðarráð - 1233
  • Byggðarráð - 1233
  • Byggðarráð - 1233
  • Byggðarráð - 1233
  • Byggðarráð - 1233
  • Byggðarráð - 1233
Formaður fræðsluráðs kynnti fundargerðina.

3.Fræðsluráð - 250

Málsnúmer 2411007FVakta málsnúmer

Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Fræðsluráð - 250 Kristinn Arnar Benjamínsson fór yfir helstu atriði í starfinu á yfirstandandi skólaári. Nú eru 18,8 stöðugildi við skólann. Gert er ráð fyrir að stöðugildin verði mest 21 eftir áramót og lækki svo aftur um haustið. Áætlaður barnafjöldi verður mest 66, núverandi barnafjöldi er 59. Í vor verða þrír menntaðir kennarar við skólann.
  • Fræðsluráð - 250 Lögð fram til kynningar.
  • Fræðsluráð - 250 Fræðsluráð leggur til við Byggðarráð að skipa starfshóp til að fara yfir þessar áskoranir og mögulegar lausnir í samvinnu við starfsmenn, foreldra og atvinnurekendur í Húnaþingi vestra. Bókun fundar Lögð fram eftirfarandi tillaga:
    „Sveitarstjórn samþykkir að skipaður verði starfshópur til að fara yfir helstu áskoranir og lausnir á útfærslu styttingar vinnuviku starfsmanna leikskólans m.t.t. dvalartíma leikskólabarna. Sveitarstjóra er falið að vinna drög að erindisbréfi hópsins og leggja fyrir byggðarráð sem jafnframt skipar í hópinn.“
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Fræðsluráð - 250 Lögð fram til kynningar. Fræðsluráð tekur undir vilja í þjónustukönnun til að skoða breytilegan opnunartíma að morgni.
  • Fræðsluráð - 250 Lögð fram til kynningar.
  • Fræðsluráð - 250 Sviðsstjóri fór yfir helstu verkefni fjölskyldusviðs frá síðasta fundi. 72 almenn mál voru á málaskrá fjölskyldusviðs og 64 einstaklingsmál.

    Helstu verkefni voru stefna og aðgerðaráætlun um vellíðan án tóbaks, áfengis og annarra vímuefna, reglur um stuðnings- og stoðþjónustu, gott að eldast, farsæld barna, félagsþjónusta, undirbúningur samfélagsmiðstöðvar, barnavernd, fræðslustjóri að láni, íþróttahérað Norðurlands vestra, tengiráðgjafi o.fl. Einnig voru helstu tölur um málaflokka fjölskyldusviðs kynntar.
  • Fræðsluráð - 250 Fræðsluráð heimsótti Dreifnámi FNV á Hvammstanga og fékk kynningu á starfseminni frá Valdísi Auði Arnardóttur.
Formaður landbúnaðarráðs kynnti fundargerðina.

4.Landbúnaðarráð - 215

Málsnúmer 2411008FVakta málsnúmer

Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • 4.1 2408023 Fjárhagsáætlun 2025
    Landbúnaðarráð - 215 Sveitarstjóri fór yfir fjárhagsramma ráðsins fyrir árið 2025.
  • 4.2 2411057 Skýrsla búfjáreftirlitsmanns árið 2024
    Landbúnaðarráð - 215 Júlíus Guðni Antonsson, búfjáreftirlitsmaður gerði grein fyrir störfum sínum á árinu.

    Skráð voru 22 atvik vegna búfjáreftirlits á árinu, helmingur vegna hrossa og helmingur vegna sauðfjár.

    Landbúnaðarráð þakkar Júlíusi Guðna fyrir greinagóða yfirferð.
  • 4.3 2408006 Skýrsla veiðivarðar vegna gæsa- og rjúpnaveiða haustið 2024
    Landbúnaðarráð - 215 Júlíus Guðni Antonsson veiðivörður gerði grein fyrir störfum sínum á nýliðnu veiðitímabili.

    Veiðieftirlitið gekk vel árið 2024. Farnar voru þrjár eftirlitsferðir á Víðidalstunguheiði og ein á Arnarvatnsheiði, allar vegna rjúpnaveiða. Ekki þurfti að hafa afskipti af veiðimönnum í þessum ferðum. Veginum fram á Víðidalstunguheiði var lokað eina helgi vegna bleytu. Almennt virðist vera ánægja með fyrirkomulag veiðanna, stjórn og vöktun sveitarfélagsins á svæðinu.

    Landbúnaðarráð þakkar Júlíusi Guðna greinagóða yfirferð.
  • 4.4 2409085 Vetrarveiði á ref veturinn 2024-2025
    Landbúnaðarráð - 215 Lagðar fram umsóknir um vetrarveiði á ref veturinn 2024-2025. Auglýst var eftir veiðimönnum á þau tvö svæði sem ekki höfðu borist umsóknir um. Eftirfarandi umsóknir bárust:

    Hannes Hilmarsson vegna veiða í vestanverðum Hrútafirði.
    Björn Viðar Unnsteinsson vegna veiða í Vesturhópi.

    Landbúnaðarráð felur sveitarstjóra að gera samninga við framangreinda umsækjendur.
    Bókun fundar Afgreiðsla landbúnaðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • 4.5 2406059 Uppgjör styrkvega 2024
    Landbúnaðarráð - 215 Lagt fram á 214. fundi ráðsins. Uppgjörið hefur verið sent til Vegagerðarinnar.
  • 4.6 2402064 Uppgjör heiðagirðinga 2024
    Landbúnaðarráð - 215 Lagt fram á 214. fundi ráðsins.
  • 4.7 2412008 Uppgjör rjúpna- og gæsaveiða 2024
    Landbúnaðarráð - 215 Lagt fram til kynningar uppgjör rjúpna- og gæsaveiða 2024.

5.Reglur Barnaverndarþjónustu Mið - Norðurlands um veitingu fjárstyrks - breytingar á reglum

Málsnúmer 2411024Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn samþykkir reglur Barnaverndarþjónustu Mið - Norðurlands um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

6.Umsagnarbeiðni vegna breytinga á aðalskipulagi Húnavatnahrepps

Málsnúmer 2412020Vakta málsnúmer

Breytingin er til komin vegna áforma Vegagerðarinnar að endurbyggja hluta Vatnsdalsvegar og hluta Svínvetningarbrautar en framkvæmdin er í undirbúningi. Breyting á aðalskipulagi Húnavatnshrepps felst í því að þrjú ný efnistökusvæði verða skilgreind í aðalskipulagi auk þess sem lýsing á einu efnistökusvæði breytist.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi Húnavatnshrepps 2010-2022.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

7.Lok lóðarleigusamnings vegna Norðurbrautar 30

Málsnúmer 2212015Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tilboð frá eigendum húseignarinnar að Norðurbraut 30 með fresti til 20. desember 2024.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjóra falið að óska eftir fresti til að svara tilboðinu til 20. janúar 2025.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

8.Ráðning sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs

Málsnúmer 2408001Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Að aflokinni yfirferð allra gagna málsins samþykkir Sveitarstjórn Húnaþings vestra ráðningu Þorgils Magnússonar í starf sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs Húnaþings vestra.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

9.Mannauðsstefna

Málsnúmer 2410061Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn samþykkir Mannauðsstefnu Húnaþings vestra.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

10.Beiðni um úrsögn úr sveitarstjórn

Málsnúmer 2412017Vakta málsnúmer

Hallfríður Sigurbjörg Óladóttir óskar eftir lausn frá störfum úr sveitarstjórn Húnaþings vestra.
Lögð fram beiðni Hallfríðar Sigurbjargar Óladóttur sem óskar eftir lausn frá störfum í sveitarstjórn út kjörtímabilið, vegna óhóflegs álags, í samræmi við 2. mgr. 30. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 23. gr. samþykktar um stjórn Húnaþings vestra nr. 15/2024.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn samþykkir beiðni Hallfríðar Sigurbjargar Óladóttur um lausn frá störfum frá og með 31. desember 2024 og út kjörtímabilið. Viktor Ingi Jónsson varamaður tekur sæti hennar í sveitarstjórn.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

11.Kosning í byggðarráð

Málsnúmer 2412035Vakta málsnúmer


Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Endurtilnefning í byggðarráð
Byggðarráð, aðalmenn:
Magnús Magnússon, formaður
Elín Lilja Gunnarsdóttir, varaformaður
Magnús Vignir Eðvaldsson

Byggðarráð, varamenn:
Þorleifur Karl Eggertsson
Sigríður Ólafsdóttir
Viktor Ingi Jónsson.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

12.Könnunarviðræður

Málsnúmer 2412023Vakta málsnúmer

Í samtölum fulltrúa í sveitarstjórnum Dalabyggðar og Húnaþings vestra hefur komið fram vilji til að skoða kosti og ókosti þess að hefja viðræður um sameiningu sveitarfélaganna.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn samþykkir að skipa tvo fulltrúa og tvo til vara í verkefnishóp til að skoða hvort fýsilegt sé fyrir Húnaþing vestra og Dalabyggð að hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna skv. 119. grein sveitarstjórnarlaga. Sveitarstjórar sveitarfélaganna skulu starfa með verkefnishópnum með málfrelsi og tillögurétt á fundum. Skal hópurinn skila niðurstöðum eigi síðar en 30. apríl 2025.

Markmið verkefnishópsins er að leiða könnunarviðræður og kanna hvort grundvöllur sé fyrir sameiningu sveitarfélaganna. Viðræðurnar munu m.a. fela í sér mat á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna, skipulagi og starfsemi og mati á væntum breytingum við mögulega sameiningu. Verkefnishópnum er falið að leita eftir sjónarmiðum íbúa í ferlinu.

Áréttað er að í óformlegum sameiningarviðræðum felst engin skuldbinding af hálfu sveitarfélaganna og geta þau hætt viðræðum hvenær sem er. Verkefnishópi er falið að leita sérfræðiráðgjafar við vinnuna, og sækja um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir kostnaði sem af henni hlýst.

Fyrir hönd Húnaþings eru eftirfarandi aðal- og varafulltrúar skipaðir í verkefnishópinn:
Magnús Magnússon, aðalmaður.
Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður.
Sigríður Ólafsdóttir, varamaður.
Þorleifur Karl Eggertsson, varamaður.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

13.Skýrsla sveitarstjóra

Málsnúmer 2311018Vakta málsnúmer

Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri gerði grein fyrir helstu störfum sínum frá síðasta reglulega sveitarstjórnarfundi. Skýrslan var flutt munnlega og til kynningar.

Fundi slitið - kl. 17:00.

Var efnið á síðunni hjálplegt?