Byggðarráð

1236. fundur 03. febrúar 2025 kl. 14:00 - 15:31 í Ráðhúsinu
Nefndarmenn
  • Magnús Magnússon formaður
  • Elín Lilja Gunnarsdóttir varaformaður
  • Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri
  • Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Skólabúðirnar á Reykjum - upphæð komugjalda

Málsnúmer 2501017Vakta málsnúmer

Beiðni Ungmennafélags Íslands um leyfi til að hækka komugjöld í Skólabúðirnar á Reykjum skólaárið 2025-2026.
Sveitarstjóra er falið að óska eftir nánari rökstuðningi og afla frekari gagna áður en afstaða er tekin til beiðnarinnar.

2.Styrkir til leikfélaga 2025

Málsnúmer 2501010Vakta málsnúmer

Ráðstöfun fjármuna á fjárhagsáætlun í styrki til leikfélaga.
Á fjárhagsáætlun ársins 2025 er gert ráð fyrir stuðningi við leikfélög vegna leiksýninga að fjárhæð kr. 300 þúsund. Sveitarstjóra er falið að auglýsa úthlutun þeirra fjármuna. Byggðarráð samþykkir að framvegis sæki leikfélög um styrk við gerð fjárhagsáætlunar líkt og önnur menningarfélög í sveitarfélaginu og ekki verði um sérstaka úthlutun aðra að ræða.

3.Beiðni um lækkun á húsaleigu vegna viðburðar í samfélagsþágu

Málsnúmer 2501018Vakta málsnúmer

Guðmundur Haukur Sigurðsson sækir um lækkun á húsaleigu Félagsheimilisins Hvammstanga vegna Kótilettukvölds. Sótt er um fyrir hönd fjögurra félagasamtaka í sveitarfélaginu.
Byggðarráð samþykkir veitingu afsláttar vegna viðburða í samfélagsþágu. Byggðarráð samþykkir jafnframt að það sem eftir stendur leigunnar verði fært sem styrkur frá sveitarfélaginu til verkefnisins í ljósi menningar- og sögulegrar þýðingar þess.

4.Úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2024-2025

Málsnúmer 2501034Vakta málsnúmer

Lögð fram tilkynning frá matvælaráðuneyti um úthlutun byggðakvóta til Húnaþings vestra fiskveiðiárið 2024/2025.
Í tilkynningu matvælaráðuneytis er sveitarfélaginu gefinn frestur til 21. febrúar til að leggja fram tillögur að sérreglum vegna úthlutunar kvótans. Byggðarráð samþykkir eftirfarandi drög að sérreglum byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2024-2025 og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Ákvæði reglugerðar nr. 819/2024 gilda um úthlutun byggðakvóta Húnaþings vestra með eftirfarandi viðauka/breytingum:

I. 1.málsl. 1.mgr. 4.gr:
Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1.gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum og ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3.gr., eftir því sem við á þannig að:
a. 50% af byggðakvóta Húnaþings vestra verður skipt milli þeirra fiskiskipa sem gerð eru út frá Hvammstanga og fengið hafa úthlutun samkvæmt reglugerð nr. 851/2023 vegna aflabrests á rækju í innanverðum Húnaflóa og uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 852/2023, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2023/2024. Við skiptingu þessa 50% byggðakvóta Húnaþings vestra, til ofangreindra skipa, skal miða við meðaltal landaðs botnfiskafla í þorskígildum talið, í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í Hvammstangahöfn fiskveiðiárið 2023/2024.
b. 50% af byggðakvóta Húnaþings vestra verður skipt milli þeirra fiskiskipa sem gerð eru út frá Hvammstanga og uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 819/2024, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2024/2025. Skiptingunni verður háttað með þeim hætti að hvert fiskiskip sem uppfyllir framangreind ákvæði hlýtur að lágmarki 40 tonn og eftirstöðvum úthlutað miðað við meðaltal landaðs botnfiskafla, í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í Hvammstangahöfn fiskveiðiárið 2023/2024.
c. Skip eiga rétt til úthlutunar úr báðum pottum samkvæmt a- og b-lið, að uppfylltum skilyrðum.

Rökstuðningur er sá að af þeim bátum sem gera út frá Hvammstanga er aðeins hluti þeirra sem varð fyrir áhrifum aflabrests á rækju í innanverðum Húnaflóa. Fyrir þá báta sem ekki hljóta kvóta vegna rækjubrests er mjög erfitt að safna upp löndunarreynslu og því er lagt til að sá hluti byggðakvótans sem b.liður nær yfir verði að lágmarki veitt 40 tonnum á hvern bát og því sem eftir stendur úthlutað út frá löndunarreynslu.

II. 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa innan byggðarlagsins þeim afla sem telja á til byggðakvóta á tímabilinu frá 1. september 2024 til 31. ágúst 2025.
Rökstuðningur er sá að í byggðarlaginu er engin fiskvinnsla.

5.Heilsueflandi og barnvænt sveitarfélag

Málsnúmer 2403009Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að stefna Húnaþings vestra um vellíðan án tóbaks, áfengis og annarra vímuefna 2025-2029.
Starfshópur um barnvænt- og heilsueflandi sveitarfélag hefur fjallað um drög að stefnu Húnaþings vestra um vellíðan án tóbaks, áfengis og annarra vímuefna til ársins 2029. Í samræmi við tillögur sviðsstjóra fjölskyldusviðs sem fylgja drögum að stefnunni samþykkir byggðarráð að drögin verði send til efnislegrar umfjöllunar í fræðsluráði, félagsmálaráði og öldungaráði. Einnig að þau verði send húsnefndum félagsheimilanna Víðihlíðar og Ásbyrgis ásamt húsnefnd Hamarsbúðar. Jafnframt er samþykkt að drögin verði sett í opið samráð á heimasíðu sveitarfélagsins.

6.Uppsögn á starfi

Málsnúmer 2410055Vakta málsnúmer

Byggðarráð staðfestir samkomulag milli skólastjóra Leikskólans Ásgarðs og sviðsstjóra um frestun á starfslokum leikskólastjóra.

7.Aðalfundur Samorku - tillögur að framboðum í stjórn

Málsnúmer 2501026Vakta málsnúmer

Erindi frá Samorku þar sem óskað er eftir tilnefningum í stjórnarkjör félagsins sem fram fer á aðalfundi þess 9. mars 2025.
Fulltrúi Húnaþings vestra á fundinum verður Þorgils Magnússon sviðsstjóri umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs.

8.Styrkbeiðni - rafrænt námskeið um slysavarnir

Málsnúmer 2501048Vakta málsnúmer

Styrkbeiðni frá Miðstöð slysavarna barna lögð fram. Varðar gerð rafræns námskeiðs um slysavarnir ungra barna.
Ekki er unnt að verða við styrkbeiðninni.

9.Tillögur að flokkun tíu vindorkuverkefna - óskað eftir umsögnum

Málsnúmer 2501068Vakta málsnúmer

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 7/2021, "Tillögur að flokkun tíu vindorkuverkefna".
Byggðarráð ítrekar umsögn á um drög að tillögunni sem bókuð var 1235. fundi ráðsins sem fram fór þann 6. janúar 2025 og staðfest á 387. fundi sveitarstjórnar sem haldinn var þann 9. janúar 2025:

„Í drögunum kemur fram að verkefnisstjórnin telur brýnt að stjórnvöld ljúki stefnumótunarvinnu um virkjun vindorku í landinu. Byggðarráð tekur heilshugar undir það. Í því sambandi nefnir verkefnisstjórnin fjögur verkefni sem að mati byggðarráðs eru afar mikilvæg: (1) skoðun á stefnumótandi tillögum settum fram í skýrslunni Vindorka, valkostir og greining, (2) skipting kostnaðar og ábata m.a. milli ríkis og sveitarfélaga, (3) stefnumótun um staðarval vindorkuvera og fleiri stefnumótandi atriði og (4) breytingar á málsmeðferð vindorku í lögum um rammaáætlun. Byggðarráð leggur áherslu á að öll þessi verkefni er nauðsynlegt að vinna í náinni samvinnu við sveitarfélögin sem fara með skipulagsvald. Ógerningur er að taka afstöðu til einstakra virkjanakosta nema laga- og regluramminn sé skýr af hálfu hins opinbera og sveitarfélög geti aðlagað sínar skipulagsáætlanir að þeim ramma.

Af þeim 10 virkjunarkostum sem tilgreindir eru í skjalinu er einn innan Húnaþings vestra, Hrútavirkjun. Þegar til hans er litið eru upplýsingar í skýrslunni um margt ófullkomnar. Til dæmis er ekki lagt mat á samfélagsleg áhrif, ástæða þess er auk þess ekki skýrð í skýrslunni. Afar erfitt er að leggja mat á fýsileika virkjunarkostsins án þess að samfélagsleg áhrif séu tekin með í reikninginn. Einnig vantar upplýsingar fyrir Hrútavirkjun í samantekt á þeim viðföngum sem faghópur 3 telur hafi mest jákvæð og mest neikvæð áhrif við viðkomandi virkjunarkost. Einnig kemur fram að faghópar hafi ekki skoðað þætti eins og t.d. aðkomu að framkvæmdasvæðum né heldur hver beri þann kostnað, mengunaráhrif hafa heldur ekki verið skoðuð en hvoru tveggja eru mikilvægir þættir í mati á fýsileika virkjanakosta. Faghópar 1 og 2 hafa lagt mat á áhrif á fuglalíf og er sérstaklega fjallað um farleiðir hafarna og þá staðreynd að virkjanakosturinn Hrútavirkjun sé í farleið þeirra skv. mælingum. Byggðarráð telur brýnt að sá þáttur sé skoðaður betur áður en ákvörðun er tekin um framhald verkefnisins. Byggðarráð tekur einnig undir það sem fram kemur um að verkefnið hafi lítið verið kynnt í nærumhverfinu og á það við um fleiri virkjanakosti sem nefndir eru í skjalinu. Það verður að teljast sérstakt að einkafyrirtæki geti óskað eftir mati á virkjunarkosti innan sveitarfélags án nokkurs samtals við sveitarfélagið sem fer með skipulagsvaldið eða íbúa í nærumhverfinu.

Að framansögðu telur byggðarráð Húnaþings vestra skynsamlegt að virkjunarnakosturinn sé flokkaður í biðflokk eins og lagt er til í skýrslunni. Meginástæða þess er að laga- og reglurammi liggur ekki fyrir auk þess sem ekki liggi fyrir nægilegar upplýsingar til að leggja mat á þann virkjunarkost í sveitarfélaginu sem um ræðir. Byggðarráð gerir einnig athugasemd við það að einstaka aðilar geti "klukkað" ákveðin svæði án nokkurs samtals við sveitarfélögin eða nærumhverfi. Slíkt er ekki til þess fallið að auka traust og vilja heimamanna til að taka þátt í verkefnum sem þessum. Í vinnu við gerð regluverks um vindorku þarf að gera lagfæringar á því ferli svo sveitarfélög og íbúar þess verði þátttakendur frá upphafi í vindorkuverkefnum. Ráðið áskilur sér rétt til athugasemda á síðari stigum málsins.“

10.Endurskoðun leiðakerfis landsbyggðarvagna

Málsnúmer 2412060Vakta málsnúmer

Umsögn Húnaþings vestra um drög á breytingum á almenningssamgöngukerfinu á landsbyggðinni lögð fram til kynningar.
Húnaþing vestra fagnar þeim breytingum sem áformaðar eru á leið 57 þess efnis að akstri inn á Akranes verði hætt. Hins vegar er fækkun ferða leiðar 57 úr tveimur á dag í eina óásættanleg og til þess fallin að enn færri geta nýtt sér almenningssamgöngur í landshlutanum. Einnig eru það vonbrigði að ekki er gert ráð fyrir akstri frá gatnamótum Hvammstangavegar og þjóðvegar út á Hvammstanga. Að síðustu eru það vonbrigði að ekki er gert ráð fyrir innansvæðisleið á Norðurlandi vestra (Hvammstangi-Blönduós-Sauðárkrókur) einkum þegar eitt markmiða endurskoðunarinnar var að tengja saman atvinnusóknarsvæði innan landshluta. Skorað er á Vegagerðina að gera bragarbót á framangreindum atriðum.
Umsögnin hefur verið send til Vegagerðarinnar.

11.Lokun flugbrauta á Reykjavíkurflugvelli - Yfirlýsing Miðstöðvar sjúkraflugs á Íslandi

Málsnúmer 2501028Vakta málsnúmer

Lögð fram yfirlýsing Miðstöðvar sjúkraflugs á Íslandi vegna lokunar flugbrauta á Reykjavíkurflugvelli.
Í yfirlýsingunni lýsir miðstöðin þungum áhyggjum vegna takmarkana sem tilkynnt hefur verið um á flugumferð um Reykjavíkurflugvöll. Óheft aðgengi sjúkraflugvéla að Reykjavíkurflugvelli er í mörgum tilfellum lífsnauðsynlegt fyrir veika og slasaða af stærstum hluta landsins. Byggðarráð tekur undir áhyggjur Miðstöðvar sjúkraflugs og skorar á þau yfirvöld sem hafa með málið að gera að leita allra leiða til lausnar til að tryggja öryggi íbúa á landsbyggðinni sem reiða sig á sjúkraflug í neyðartilfellum.

12.Fundargerðir stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra 2025

Málsnúmer 2501012Vakta málsnúmer

Fundargerðir 116. og 117. fundar stjórnar SSNV lagðar fram til kynningar.

13.Fundargerðir stjórnar Náttúrustofu Norðurlands vestra 2025

Málsnúmer 2501044Vakta málsnúmer

Fundargerð stjórnar Náttúrustofu Norðurlands vestra frá 17. janúar 2025 lögð fram til kynningar.

14.Brák íbúðafélag - Fundargerð ársfundar 2023

Málsnúmer 2501019Vakta málsnúmer

Fundargerð ársfundar Brákar íbúðafélags fyrir árið 2023 sem haldinn var þann 15. janúar 2025 lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 15:31.

Var efnið á síðunni hjálplegt?