Sveitarstjórn

381. fundur 08. maí 2024 kl. 15:00 - 17:00 í Ráðhúsinu
Nefndarmenn
  • Þorleifur Karl Eggertsson oddviti
  • Magnús Magnússon varaoddviti
  • Sigríður Ólafsdóttir aðalmaður
  • Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður
  • Þorgrímur Guðni Björnsson aðalmaður
  • Borghildur Haraldsdóttir varamaður
    Aðalmaður: Ingimar Sigurðsson
  • Ingveldur Ása Konráðsdóttir varamaður
    Aðalmaður: Elín Lilja Gunnarsdóttir
Starfsmenn
  • Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri
  • Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.
Dagskrá

1.Byggðarráð - 1211

Málsnúmer 2404013FVakta málsnúmer

Fundur haldinn 22. apríl. Fundargerð í 10 liðum. Formaður kynnti.

Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • 1.1 2403051 Rekstrarstjóri kemur til fundar
    Byggðarráð - 1211 Björn Bjarnason, rekstrarstjóri og Ásmundur Ingvarsson frá Ferli verkfræðistofu, fóru yfir valkosti við fyrirhugaðar framkvæmdir við þak Félagsheimilisins Hvammstanga. Byggðarráð samþykkir tillögu Ferlis um að notaðar verði uppstólaðar yleiningar. Rekstrarstjóra er falið að hafa samráð við byggingafulltrúa varðandi framkvæmdina, sækja um framkvæmdaleyfi og gera verðfyrirspurn í efni og vinnu í samræmi við innkaupareglur sveitarfélagsins.

    Sveitarstjóra er falið að undirbúa gerð viðauka við fjárhagsáætlun vegna framkvæmdarinnar.
  • 1.2 2404092 Trúnaðarmál
    Byggðarráð - 1211 Starfsmannamál - fært í trúnaðarbók.
  • 1.3 2404102 Tilkynning frá Óbyggðanefnd um málsmeðferð vegna eyja og skerja
    Byggðarráð - 1211 Lögð fram tilkynning frá Óbyggðanefnd vegna krafna í eyjar og sker. Kröfulýsingarfrestur er framlengdur til 2. september 2024 til að gefa fjármála- og efnahagsráðherra færi á að ljúka endurskoðun sem ráðherra hefur boðað á kröfugerð ríkisins, sem og kortagerð vegna hennar, og tryggja að landeigendur hafi nægan tíma að því loknu til að bregðast við endurskoðuðum kröfum ríkisins og eftir atvikum lýsa gagnkröfum. Lagt fram til kynningar.
  • 1.4 2404094 Samningur um gagnkvæma aðstoð milli Brunavarna Húnaþings vestra og Brunavarna A-Hún
    Byggðarráð - 1211 Lagður fram samningur milli Brunavarna Húnaþings vestra og Brunavarna A-Hún um gagnkvæma aðstoð við slökkvi- og björgunarstörf ásamt viðbragði við mengunaróhöppum í samræmi við 3. mgr. 20. gr. laga nr. 75/2000. Samningsaðilar eru sammála um að gagnkvæm aðstoð á milli aðila sé veitt án endurgjalds sem endurskoðað skal innan fimm ára með tilliti til umfangs og kostnaðar. Byggðarráð samþykkir samninginn og felur sveitarstjóra undirritun hans. Bókun fundar Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • 1.5 2404107 Aðalfundur Veiðifélags Víðidalsár þann 25. apríl 2024
    Byggðarráð - 1211 Lagt fram boð á aðalfund Veiðifélags Víðidalsár þann 25. apríl 2024 kl. 20. Sigríður Ólafsdóttir verður fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum og fer með atkvæðisrétt.
  • 1.6 2404105 Niðurstöður könnunar á starfsemi slökkviliða
    Byggðarráð - 1211 Lagt fram til kynningar.
  • 1.7 2404112 Aðalfundur Landskerfis bókasafna 7. maí 2024
    Byggðarráð - 1211 Lagt fram til kynningar boð á aðalfund Landskerfis bókasafna sem fram fer þann 7. maí 2024.
  • 1.8 2404095 Fundargerð 105. fundar stjórnar SSNV sem fram fór þann 2. apríl 2024
    Byggðarráð - 1211 Lögð fram til kynningar.
  • 1.9 2404113 Ársreikningur Hafnasambandsins fyrir árið 2023
    Byggðarráð - 1211 Lagður fram til kynningar.
  • 1.10 2403059 Fulltrúar Náttúrustofu Norðurlands vestra koma til fundar
    Byggðarráð - 1211 Starri Heiðmarsson framkvæmdastjóri Náttúrustofu Norðurlands vestra og Ragna Guðrún Snorradóttir líffræðingur á stofunni komu til fundar við byggðarráð og fóru yfir starfsemi stofunnar. Byggðarráð þakkar Starra og Rögnu Guðrúnu greinargóða kynningu.

2.Byggðarráð - 1212

Málsnúmer 2404017FVakta málsnúmer

Fundur haldinn 29. apríl. Fundargerð í 4 liðum. Formaður kynnti.


Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • 2.1 2401093 Endurnýjun hitaveitulagna Höfðabraut 2024
    Byggðarráð - 1212 Lagt fram minnisblað frá rekstarstjóra vegna endurnýjunar hitaveitulagna á Hvammstanga sumarið 2024. Tveir verktakar tóku þátt í verðfyrirspurn. Niðurstaðan var sú að Gunnlaugur Agnar Sigurðsson bauð lægst, kr. 27.618.794.- sem var nokkru yfir kostnaðaráætlun. Gengið var til samninga við Gunnlaug Agnar og liggur fyrir uppfærð verk- og kostnaðaráætlun þar sem hluti verks hefur verið færður á þjónustumiðstöð. Heildarkostnaður eftir uppfærslu er kr. 20.985.400 sem er engu að síður hærra en fjárhagsáætlun heimilar, eða sem nemur kr. 2.500.000. Framkvæmdin eykur afhendingaröryggi Hitaveitunnar á Hvammstanga og því metin mjög brýn. Byggðarráð samþykkir uppfærða verk- og kostnaðaráætlun og felur sveitarstjóra og sviðsstjóra að undirbúa gerð viðauka vegna verksins í samræmi við kostnaðarauka. Bókun fundar Borghildur Haraldsdóttir vék af fundi kl. 15:09.
    Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum.
    Borghildur Haraldsdóttir kom aftur til fundar kl. 15:13.
  • 2.2 2404118 Beiðni innviðaráðuneytis um umsögn um ósk Landsnets um skipan raflínunefndar vegna Holtavörðurheiðarlína 1 og 3
    Byggðarráð - 1212 Lögð fram beiðni innviðaráðuneytis um umsögn um beiðni Landsnets um skipan raflínunefndar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við lagningu Holtavörðuheiðarlínu 1 og Holtavörðuheiðarlínu 3. Er beiðni Landsnets með vísan í 1. mgr. 9.gr.a. í skipulagslögum nr. 123/2010 en heimild til skipunar slíkra nefnda var fest í lög með lagabreytingu nr. 35/2023. Byggðarráð Húnaþings vestra lagðist gegn þeim breytingum. Taldi ráðið þá, og gerir enn, að þær vegi að skipulagsvaldi sveitarfélaga.
    Byggðarráð Húnaþings vestra telur að á þessu stigi sé ekki þörf á skipan slíkrar nefndar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um legu línanna og þar af leiðandi ekki farið fram samtal um framkvæmdina og enn síður kominn fram ágreiningur um hana. Auk þess liggur ekki fyrir reglugerð um störf raflínunefnda á grundvelli lagabreytinga nr. 35/2023 og skipan nefndarinnar því ekki tímabær.
    Húnaþing vestra hefur á öllum stigum sýnt mikinn vilja til samstarfs enda um að ræða afar mikilvæga framkvæmd fyrir svæðið og landsmenn alla. Sveitarfélagið mun líkt og á fyrri stigum halda þeirri samvinnu áfram.
    Í rökstuðningi með beiðni Landsnets eru helstu rök fyrir skipan raflínunefndar að af því skapist mikið hagræði. Vissulega er um flókið skipulagsmál að ræða en byggðarráð vill benda á að skipulagsmál eiga ekki, og mega ekki, í eðli sínu vera einföld. Tilgangur þeirra er að tryggja að vel sé að verki staðið við hvers kyns framkvæmdir og að sem flest sjónarmið séu tekin með í reikninginn.
    Í rökstuðningi Landsnets kemur einnig fram að hlutaðeigandi sveitarfélögum hafi verið tilkynnt um beiðnina og að engin sérstök mótmæli hafi borist. Byggðarráð vill að fram komi að í því bréfi var á engan hátt gefið til kynna að umsagna væri óskað heldur var ítrekað tekið fram að bréfið væri sent til upplýsingar.
  • 2.3 2404117 Umsagnarbeiðni um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi, 899. mál, umsagnarfrestur til 3. maí 2024
    Byggðarráð - 1212 Byggðarráð fagnar framkominni þingsályktunartillögu enda löngu tímabært að skýra regluverk í kringum vinnslu vindorku. Ráðið fagnar sérstaklega grein 1.5 þar sem fram kemur að tryggt verði að lagaumgjörð verði með þeim hætti að endanleg ákvörðun um það hvort uppbygging einstakra virkjunarkosta í vindorku verði settir inn á skipulag sé í höndum viðkomandi sveitarfélags, enda gengi annað gegn skipulagsrétti sveitarfélaga. Í grein 1.6 er fjallað um að stefnt skuli að því að sú verðmætasköpun sem hagnýting vindorku hefur í för með sér skili sér til samfélagsins og tryggi beina og sýnilega hlutdeild í afkomu starfseminnar. Byggðarráð telur ástæðu til að sterkar verði að orði kveðið og að í stað þess að „stefnt verði að“ verði tryggt að nærsamfélagið njóti ábata af rekstri vindmylla. Að öðru leyti telur ráðið ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þingsályktunartillöguna en áskilur sér rétt til umsagnar á seinni stigum málsins.
  • 2.4 2404116 Umsagnarbeiðni um frumvarp til laga um verndar- og orkunýtingaráætlun (virkjunarkostir í vindorku), 900. mál, umsagnarfrestur til 3. maí 2024.
    Byggðarráð - 1212 Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.

3.Skipulags- og umhverfisráð - 367

Málsnúmer 2404020FVakta málsnúmer

Fundur haldinn 2. maí. Fundargerð í 5 liðum. Oddviti kynnti.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 367 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja nýja afmörkun á landi Markar beitarlands. Bókun fundar Dagskrárliðurinn borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 367 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja stofnun lóðar úr landi Markar og að lóðin fái staðfangið Gamla Mörk. Bókun fundar Dagskrárliðurinn borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 367 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja hnitsetningu á landi Markar. Bókun fundar Dagskrárliðurinn borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 367 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir. Bókun fundar Borghildur Haraldsdóttir vék af fundi kl. 15:14.
    Dagskrárliðurinn borinn undir atkvæði og samþykktur með 6 atkvæðum.
    Borghildur Haraldsdóttir kom aftur til fundar kl. 15:16.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 367 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að grenndarkynna deiliskipulagsbreytinguna skv.2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Grenndarkynna þarf fyrir eigendum að Þórðartröð 10, Jónströð 7 og Hallartröð 2.
    Bókun fundar Dagskrárliðurinn borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.

4.Fræðsluráð - 245

Málsnúmer 2403004FVakta málsnúmer

Fundur haldinn 18. apríl. Fundargerð í 9 liðum. Oddviti kynnti.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkti með 7 atkvæðum.
  • 4.1 2403044 Leiðbeinandi verklag vegna undirmönnunar í leikskólanum Ásgarði
    Fræðsluráð - 245 Skólastjóri leikskóla fór yfir drög að verklagi vegna undirmönnunar. Fræðsluráð felur skólastjóra að senda drögin til foreldrafélagsins til athugasemda og gera breytingar í samræmi við umræður á fundinum.
  • 4.2 2403063 Eftirlitsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Norðurlands Vestra vegna leikskóla 12. mars 2024
    Fræðsluráð - 245 Lögð fram eftirlitsskýrsla til kynningar. Skólastjóri leikskóla fór yfir skýrsluna og viðbrögð við henni.
  • 4.3 2403047 Efni Hljóðvist í skólum
    Fræðsluráð - 245 Skólastjórnendur leik- og grunnskóla ræddu hljóðvist í skólum sveitarfélagsins. Þeir eru meðvitaðir um mikilvægi hljóðvistar og staðan í skólum er almennt góð en á nokkrum svæðum þarf að huga betur að hljóðvist. Fræðsluráð hvetur stjórnendur til að fylgjast áfram með hljóðvist í skólum sveitarfélagsins.
  • 4.4 2404076 Eineltisáætlun Grunnskóla Húnaþings vestra
    Fræðsluráð - 245 Aðstoðarskólastjóri fór yfir nýja eineltisáætlun skólans. Fræðsluráð lýsir yfir ánægju með áætlunina.
  • 4.5 2402034 Eftirlitsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Norðurlands Vestra vegna grunnskóla 31. janúar 2024
    Fræðsluráð - 245 Samkvæmt skólastjórnendum gengur vel að fylgja eftir atriðum í eftirlitsskýrslu þó ekki sé öllu lokið.
  • 4.6 2403038 Umsókn í Lýðheilsusjóð 2024
    Fræðsluráð - 245 Lagt fram svarbréf Lýðheilsusjóðs um styrk til sumarstarfs ungmenna í Húnaþingi vestra.
  • 4.7 2310067 Fundargerðir farsældarteymis
    Fræðsluráð - 245 Lagðar fram til kynningar.
  • 4.8 2402057 Skóladagatal leikskóla 2024-2025
    Fræðsluráð - 245 Fræðsluráð samþykkir skóladagatal leikskólans með fyrirvara um endanlega dagsetningu útskriftar elstu barna.
  • 4.9 2402050 Skóladagatal grunnskóla og tónlistarskóla 2024-2025
    Fræðsluráð - 245 Lagðar fram tillögur skólastjórnenda um skerðingar á þjónustu frístundar skólaárið 2024-2025. Bréfinu vísað til frekari umræðu byggðarráðs. Bókun fundar Borghildur Haraldsdóttir, Ingveldur Ása Konráðsdóttir og Magnús Vignir Eðvaldsson véku af fundi kl. 15:19.

    Lögð fram eftirfarandi tillaga:
    „Sveitarstjórn samþykkir að ekki verði boðið upp á frístund í jóla- og páskaleyfum enda hefur nýting á þessum tíma verið mjög lítil og oft undir lágmarksskráningu. Einnig er samþykkt að frístund verði lokuð á starfsdegi í janúar vegna endurmenntunar starfsmanna. Á öðrum starfs- og/eða viðtalsdögum verði frístund opin.“
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 4 atkvæðum.

    Borghildur Haraldsdóttir, Ingveldur Ása Konráðsdóttir og Magnús Vignir Eðvaldsson komu aftur til fundar kl. 15:22.

5.Öldungaráð - 9

Málsnúmer 2403005FVakta málsnúmer

Fundur haldinn 18. apríl. Fundargerð í 3 liðum. Oddviti kynnti.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • 5.1 2310068 Gott að eldast
    Öldungaráð - 9 Henrike Wappler og Sesselja Kristín fóru yfir stöðu verkefnisins Gott að eldast. Undirbúningur fyrir samþætta heimaþjónustu sveitarfélagsins, heimahjúkrunar og dagdvöl gengur vel og stefnt að því að hún taki formlega til starfa næsta haust. Öldungaráð fagnar því að hægt verði að sækja þjónustu á einum stað. Einnig voru ræddar hugmyndir um nafn á þjónustuna. Öldungaráð leggur til að kallað verði eftir hugmyndum meðal íbúa. Henrike og Kristín fóru einnig yfir núverandi starfsemi og fjölda þjónustuþega.
    Þá var rætt um möguleika og framtíðarsýn á akstursþjónustu. Öldungaráð beinir því til sveitarstjórnar að hafa þjálfara til aðstoðar íbúum í íþróttamiðstöð, sérstaklega fyrir þrektækjasal. Öldungaráð vill annars hrósa opnunartíma og þjónustu í Íþróttamiðstöð.

  • 5.2 2404100 Framtíðarhúsnæði fyrir félagsstarf eldri borgara
    Öldungaráð - 9 Öldungaráð Húnaþings vestra leggur ríka áherslu á nauðsyn þess að Félag eldri borgara í Húnaþingi vestra hafi tryggt húsnæði fyrir umfangsmikið félagsstarf sitt. Öldungaráðið beinir þeim eindregnu tilmælum til sveitarstjórnar Húnaþings vestra að félaginu verði tryggð afnot af hentugu húsnæði fyrir starfsemina sem allra fyrst. Ráðið telur að sveitarstjórn eigi að skipa sér í hóp þeirra sveitarfélaga sem hvað best gera í þessum efnum hvað varðar húsnæði, búnað og kjör.
  • 5.3 2404101 Hálkuvarnir við Nestún og víðar
    Öldungaráð - 9 Öldungaráð hvetur sveitarstjórn til að huga betur að hálkuvörnum við Nestún. Sérstaklega á götunni að bílastæðum vestan við götuna. Einnig bendir öldungaráð á að brunnlok í gangstétt við Nestún er niðurgrafið og getur valdið slysum.
Þorgrímur Guðni Björnsson vék af fundi kl. 15:25.

6.Beiðni um lausn úr sveitarstjórn

Málsnúmer 2404129Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Þorgrími Guðna Björnssyni sveitarstjórnarmanni þar sem hann óskar eftir lausn úr sveitarstjórn, ráðum og nefndum Húnaþings vestra frá 31. maí 2024 til loka kjörtímabils með vísan til 1. mgr. 30.gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 23.gr. samþykktar um stjórn Húnaþings vestra nr. 15/2024 vegna flutninga úr sveitarfélaginu. Varamaður hans í sveitarstjórn Hallfríður Sigurbjörg Óladóttir tekur hans sæti í sveitarstjórn.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn samþykkir beiðni Þorgríms Guðna um lausn úr sveitarstjórn. Eru honum færðar bestu þakkir fyrir störf sín í þágu sveitarfélagsins og óskað velfarnaðar í verkefnum sínum í framtíðinni.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum.
Þorgrímur Guðni Björnsson kom aftur til fundar kl. 15:27.

7.Beiðni um leyfi frá störfum í sveitarstjórn

Málsnúmer 2404130Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Hallfríði Sigurbjörgu Óladóttur þar sem hún óskar leyfis frá störfum sveitarstjórnar til 31. desember 2024 vegna óhóflegs álags í samræmi við 2. mgr. 30.gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 23.gr. samþykktar um stjórn Húnaþings vestra nr. 15/2024.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn samþykkir beiðni Hallfríðar Sigurbjargar um leyfi frá störfum til 31. desember 2024. Viktor Ingi Jónsson varamaður hennar tekur sæti hennar í sveitarstjórn á meðan á leyfi stendur."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

8.Kosningar

Málsnúmer 2403032Vakta málsnúmer

Fjallskiladeild Vatnsnesinga.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Endurtilnefning í fjallskiladeild Vatnsnesinga:
Aðalmenn:
Halldór Líndal Jósafatsson formaður
Ágúst Þorbjörnsson
Indriði Karlsson
Varamenn:
Þormóður Heimisson
Kolbrún Stella Indriðadóttir
Kolfinna Rún Gunnarsdóttir.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Endurtilnefning í stjórn Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn tilnefnir Guðrúnu Gróu Þorsteinsdóttur sem aðalmann í stjórn Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Endurtilnefning varamanns í stjórn Áhugamannafélags um endurbyggingu Riishúss.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn tilnefnir Magnús Vigni Eðvaldsson sem varamann í stjórn Áhugamannafélags um endurbyggingu Riishúss.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

9.Starfsemi Ráðhúss

Málsnúmer 2405006Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað frá sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs þar sem farið er yfir tillögu að breytingu á starfi í afgreiðslu Ráðhússins, bæði hvað varðar starfshlutfall og verkefni. Kostnaðarauki er áætlaður um 500 þúsund á árinu 2024. Einnig er óskað eftir heimild til að minnka opnunartíma í sumar vegna undirmönnunar og varanlegri styttingu opnunartíma Ráðhúss frá og með hausti.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn samþykkir ósk sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs um breytingu á starfi frá 1. september nk., ásamt minni opnunartíma Ráðhúss. Sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs er falið að undirbúa gerð viðauka við fjárhagsáætlun vegna breytinga á starfinu.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

10.Ársreikningur Húnaþings vestra 2023 - síðari umræða

Málsnúmer 2404000Vakta málsnúmer

Ársreikningur Húnaþings vestra lagður fram til seinni umræðu ásamt endurskoðunarskýrslu KPMG. Ársreikningurinn samanstendur annars vegar af upplýsingum um A-hluta sveitarsjóðs og hins vegar um A- og B-hluta samantekinn. Til A-hluta telst sú starfsemi sveitarfélagsins sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð með skatttekjum, þ.e. aðalsjóður, eignasjóður og þjónustumiðstöð sveitarfélagsins. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins, þ.e. Fráveita, Vatnsveita, Hitaveita, Hafnarsjóður, Félagslegar íbúðir og Reykjaeignir ehf.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir framlagðan ársreikning sveitarsjóðs Húnaþings vestra og undirfyrirtækja fyrir árið 2023.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Helstu niðurstöður ársreiknings Húnaþings vestra árið 2023 eru:

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var jákvæð um kr. 77,6 milljónir, en í fjárhagsáætlun ársins með viðaukum var gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu A- og B-hluta að fjárhæð kr. 86 milljónir. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um kr. 63,9 milljónir en fjárhagsáætlun A-hluta ásamt viðaukum gerði ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu um kr. 89,1 milljónir. Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs og undirfyrirtækja er því umtalsvert betri en fjárhagsáætlun ársins gaf til kynna. Rétt er að geta þess að söluhagnaður rekstrarfjármuna árið 2023 var kr. 64,4 milljónir sem er óvanalegt í rekstri sveitarfélagsins.

Breyting á lífeyrisskuldbindingum A- og B-hluta var kr. 23,1 milljónir samanborið við kr. 21,5 milljón árið 2022.

Handbært fé frá rekstri A- og B-hluta var kr. 143,1 milljónir, en árið 2022 var það kr. 140,2 milljónir.

Þrátt fyrir kr. 250 milljóna áætlaða lántöku árið 2023 tók hvorki A- eða B-hluti lán það ár. Þess í stað var ákveðið að ganga frekar á stöðu handbærs fjár. Handbært fé lækkaði því um kr. 67,3 milljónir frá árinu 2022 en í árslok 2023 var það kr. 231,6 milljónir. Afborganir langtímalána A- og B-hluta hækkuðu nokkuð árið 2023 og voru kr. 127,1 milljónir á sama tíma og afborganirnar voru kr. 99,6 milljónir árið 2022.

Skuldahlutfall A- og B-hluta var 68,4% samanborið við 83,6% árið 2022. Í hefðbundnu árferði ber sveitarfélögum að sjá til þess að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Húnaþing vestra er því langt undir því marki.

Langtímaskuldir A- og B-hluta voru kr. 962,9 milljónir í árslok 2023, samanborið við kr. 1.002,2 milljónir árið 2022.

Veltufé A- og B-hluta frá rekstri var kr. 211,2 milljónir, eða 9,4% í hlutfalli við rekstrartekjur. Árið 2022 var veltufé frá rekstri kr. 94,1 milljónir, eða 5,1% í hlutfalli við rekstrartekjur.

Veltufjárhlutfall A-hluta var 2,69, samanborið við 2,70 árið 2022.

Laun, launatengd gjöld og breyting lífeyrisskuldbindingar A-hluta voru 51,0% í hlutfalli við rekstrartekjur, samanborið við 56,0% árið 2022.
Fjárfestingar á árinu 2023 voru kr. 194,9 milljónir, samanborið við kr. 170,8 milljónir árið 2022. Stærstu fjárfestingar ársins 2023 voru endurbætur lagna við íþróttamiðstöðina og lagning nýrrar vatnsveitu til Laugarbakka.

Ljóst er að rekstur sveitarfélaga í landinu er almennt þungur, vegna þróunar á stýrivöxtum og hárrar verðbólgu. Þróun lífeyrisskuldbindinga hefur einnig verið íþyngjandi fyrir sveitarfélögin ásamt áframhaldandi tapi á rekstri málefna fatlaðs fólks. Annar rekstur sveitarsjóðs er í jafnvægi og stendur undir skuldbindingum sveitarfélagsins. Skuldir fara jafnframt lækkandi. Þrátt fyrir þetta er engu að síður mikilvægt að sýna áframhaldandi ráðdeild í rekstri og þarf sveitarstjórn að halda sig innan ramma fjármálareglna sveitarfélaga, sem um tíma var vikið til hliðar vegna áhrifa heimsfaraldurs. Fjármálareglur taka annars vegar til jafnvægisreglu sem segir að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Hins vegar er um að ræða skuldareglu, þ.e. að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Fjármálareglurnar taka gildi að nýju árið 2026 og jafnvægisreglan vegna fjárhagsáætlunar ársins 2026 mun taka til rekstrarniðurstöðu áranna 2024, 2025 og áætlunar 2026. Skuldareglan mun taka mið af skuldum og skuldbindingum í lok árs 2026, en Húnaþingi vestra hefur tekist að vera langt undir því viðmiði hin síðari ár.

Lykiltölur ársreiknings sveitarsjóðs Húnaþings vestra, standast nú að nýju viðmið eftirlitsnefndar sveitarfélaga sem heimilt var að víkja frá vegna áhrifa heimsfaraldurs.

Niðurstaða ársreiknings er afar jákvæð og sýnir hraðari viðsnúning í rekstri í kjölfar heimsfaraldurs en vonast hafði verið til og það þrátt fyrir óhagstætt efnahagsumhverfi. Þetta má að mestu leyti þakka skynsamri fjármálastjórn undanfarinna ára, lágmarks lántökum og almennri ráðdeild í rekstri. Sveitarstjórn vill koma á framfæri þökkum til forstöðumanna stofnana sveitarfélagsins fyrir aðgæslu í rekstri sinna eininga sem skýrir að nokkru leyti jafnvægi í rekstri sveitarfélagsins. Væntir sveitarstjórn áframhaldandi góðs samstarfs við forstöðumenn, sem hafa sýnt nauðsyn forgangsröðunar verkefna einstakan skilning.

11.Skýrsla sveitarstjóra

Málsnúmer 2311018Vakta málsnúmer

Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri gerði grein fyrir helstu störfum sínum frá síðasta reglulega sveitarstjórnarfundi. Skýrslan var flutt munnlega og til kynningar.

Fundi slitið - kl. 17:00.

Var efnið á síðunni hjálplegt?