Sveitarstjórn

389. fundur 13. mars 2025 kl. 15:00 - 15:42 í Ráðhúsinu
Nefndarmenn
  • Þorleifur Karl Eggertsson oddviti
  • Magnús Magnússon varaoddviti
  • Birkir Snær Gunnlaugsson varamaður
    Aðalmaður: Sigríður Ólafsdóttir
  • Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður
  • Elín Lilja Gunnarsdóttir aðalmaður
  • Ingimar Sigurðsson aðalmaður
  • Viktor Ingi Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri
  • Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.
Dagskrá

1.Byggðarráð - 1238

Málsnúmer 2502003FVakta málsnúmer

Fundargerð 1238. fundar byggðarráðs frá 17. febrúar sl. lögð fram til afgreiðslu á 389. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Magnús Magnússon formaður byggðarráðs kynnti fundargerð.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1238 Byggðarráð þakkar Þorgils greinagóða yfirferð.
  • Byggðarráð - 1238 Byggðarráð samþykkir að úthluta lóðinni Lindarvegi 24 til Marcin Chabowski. Bókun fundar Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1238 Hlýtur Húnaþing vestra styrk upp á kr. 2.731.387 úr Fasteignasjóði til lækkunar kanta á gangstéttum á Hvammstanga. Til viðbótar við það fjármagn er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins að verja 10 milljónum í viðhald á gangstéttum. Byggðarráð fagnar styrkveitingunni.
  • Byggðarráð - 1238 Með gildistöku reglugerðar nr. 851/2024 var embætti Lögreglunnar á Norðurlandi vestra falið rannsóknarforræði kynferðisbrota- og manndrápsmála í umdæminu til samræmis við önnur lögregluembætti á landinu. Nauðsynlegt er að samhliða þeirri breytingu verði tryggðar auknar fjárheimildir embættisins til að unnt verði að fjölga í rannsóknardeildinni til að mæta fjölgun verkefna. Sveitarstjóra er falið að óska eftir fundi með dómsmálaráðherra vegna málsins.
  • Byggðarráð - 1238 Fulltrúar Húnaþings vestra á þinginu verða Þorleifur Karl Eggertsson oddviti, Magnús Magnússon formaður byggðarráðs og Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri.
  • Byggðarráð - 1238 Byggðarráð fagnar áformum hins opinbera um að bæta gæði kostnaðarmats, þ.e. mats á hugsanlegum áhrifum frumvarpa, tillagna að stjórnvaldsfyrirmælum eða annarra stefnumarkandi ákvarðana af hálfu ríkisins á fjárhag sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa um langt skeið gagnrýnt skort þar á og fjölmörg dæmi um að kostnaðarmat sé ekki framkvæmt eða ekki fullnægjandi þegar það er gert, óljóst sé hvenær leita eigi umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og hvernig leyst skuli úr ágreiningi.
  • Byggðarráð - 1238 Á Skipulagsgátt er til umsagnar umhverfismatsskýrsla vegna Holtavörðuheiðarlínu 3, frá fyrirhuguðu tengivirki á Holtavörðuheiði yfir í Blöndu. Vinna við undirbúning lagningar línunnar hefur staðið um nokkurt skeið. Skoðaðar hafa verið nokkrar hugsanlegar línuleiðir og metið hverjar þeirra þyki fýsilegar. Í umhverfismatsskýrslu þeirri sem hér er veitt umsögn um eru lagðir til tveir valkostir um legu línunnar. Annars vegar meðfram núverandi byggðalínu, valkostur D1 og hins vegar valkostur A3 sem liggur heiðaleiðina að Blöndu. Í þeirri vinnu sem farið hefur fram við undirbúning lagningar Holtavörðuheiðarlínu 3 hefur Húnaþing vestra átt fulltrúa í verkefnaráði um verkefnið. Hefur sú vinna verið skilmerkileg og upplýsandi en afar mikilvægt er að helstu hagsmunaðilar eigi þátt í verkefnum sem þessum frá upphafi. Íbúar hafa jafnframt fengið boð um þátttöku og m.a. fengið tækifæri til að setja fram tillögur að lagnaleiðum. Þátttaka á slíkum fundum í Húnaþingi vestra hefur verið góð og Landsnet hefur sýnt vilja til að taka tillit til þeirra athugasemda sem fram hafa komið í ferlinu.

    Mikilvægi verkefnisins fyrir íbúa landsins alls er ótvírætt. Byggðarráð hefur nálgast verkefnið með þeim hætti og lagt áherslu á að skoða með opnum hug alla þá valkosti sem verið hafa til umræðu. Ekki er aðeins um hagsmuni sveitarfélagsins að ræða heldur hafa landsmenn allir ríka hagsmuni af verkefninu.

    Verkefni af þessari stærðargráðu er flókið og víst að sitt sýnist hverjum um legu mannvirkja sem þessa. Þegar kostir línuleiða eru skoðaðir þarf að vega og meta kosti og galla og ljóst að engin ein leið er gallalaus. Sú er raunin þegar þær tvær leiðir sem hér eru til umfjöllunar eru skoðaðar. Byggðalínuleiðin (D1) liggur í byggð og fer í gegnum mikinn fjölda jarða sem gerir samningagerð flóknari og tímafrekari. Dæmi eru um að slík verkefni geti tafist til margra ára með tilheyrandi fórnarkostnaði sem af því hlýst. Á heiðaleiðinni (A3) eru landeigendur hins vegar örfáir sem einfaldar samningagerð til muna sem ætti að geta hraðað ferlinu til hagsbóta fyrir landsmenn alla. Hins vegar er í tilfelli heiðarleiðarinnar farið í gegnum ósnortið land sem felur í sér verðmæti sem erfitt er að meta til fjár. Byggðalínuleiðin verður sýnileg miklum fjölda fólks en færri munu hins vegar sjá heiðaleiðina þar sem umferð fram til heiða er takmörkuð. Auk þess ber að nefna að á byggðalínuleiðinni er farið yfir nokkuð af ræktuðu landi og umtalsvert af ræktunarlegu landi. Þetta er mikilvægt að hafa í huga í bráð og lengd þar sem hvort tveggja er sérlega dýrmætt land og verður enn dýrmætara þegar fram líða stundir.

    Þegar hagsmunir eru vegnir og metnir er það mat byggðarráðs að heiðalínuvalkosturinn sé fýsilegri. Kemur það einkum til af því að hann er einfaldari í undirbúningi með tilliti til samningagerðar og leyfismála. Svæðin sem þar eru undir eru að mestu leiti í eigu sveitarfélaganna á svæðinu. Hins vegar verður að taka tillit til sérstöðu svæðisins við framkvæmdina og huga vel að því að halda öllu raski á viðkvæmu svæði í lágmarki. Á öllum stigum verður að hafa heimamenn með í ráðum um bestu mögulegar leiðir á hverjum stað og tryggja verður að frágangur verði eins og best verður á kosið. Einnig vegur það þungt í þessari skoðun byggðarráðs að stæður þær sem notaðar verða við lagninguna hafa mun minni sjónræn áhrif úr fjarlægð en eldri gerð mastra. Í byggð yrðu þau mun meira áberandi við hlið núverandi byggðalínu þar sem helgunarsvæði línanna yrði orðið mjög breitt og yrði takmarkandi fyrir búrekstur fjölda jarða.

    Byggðarráð mælist jafnframt til þess að hugað verði að því að veglagning í tengslum við framkvæmdina fram til heiða, fari svo að sú leið verði valin, nýtist bændum og ferðaþjónustu og einnig er lagt til að samhliða
    verkefninu verði farið í mótvægisaðgerð sem felur í sér friðun Stórasands með því að girða hann af. Með því væri vegið á móti hugsanlegum neikvæðum umhverfisáhrifum öðrum sem línuleiðin felur í sér. Einnig leggur byggðarráð áherslu á að við framkvæmdina, fari svo að heiðaleiðin verði ofan á, verði tekið fullt tillit til náttúru svæðisins, afréttarafnota bænda á svæðinu, vinnu gangnamanna á haustin og ferða veiðimanna, bæði til veiða á fugli og fiski.

    Byggðarráð áskilur sér rétt til athugasemda á síðari stigum málisins og lýsir sig reiðubúið til samtals við Skipulagsstofnun og Landsnet um efni umsagnar þessarar.
  • Byggðarráð - 1238
  • Byggðarráð - 1238
  • Byggðarráð - 1238
  • Byggðarráð - 1238

2.Byggðarráð - 1239

Málsnúmer 2502006FVakta málsnúmer

Fundargerð 1239. fundar byggðarráðs frá 3. mars sl. lögð fram til afgreiðslu á 389. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Magnús Magnússon formaður bygggðarráðs kynnti fundargerð.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1239 Sigurður og Einar færðu sannfærandi rök fyrir hækkun umfram verðlag á skólaárinu 2025-2026. Meðal annars þau að launakostnaður hefur aukist um tæp 30% á milli áranna 2023 og 2024, m.a. vegna aukinnar mönnunar í skólabúðunum auk kjarasamningshækkana. Fæðiskostnaður hefur aukist um tæp 14% en mikið er lagt upp úr heilnæmu og góðu fæði fyrir nemendur. Einnig hefur UMFÍ tekið á sig ýmis búnaðarkaup sem nýtast starfseminni og eru til þess fallin að bæta aðstöðu og upplifun nemenda. Í ljósi framangreinds samþykkir byggðarráð hækkun umfram verðlag á komandi skólaári þannig að þátttökugjald pr. nemanda sé að hámarki kr. 38 þúsund. Bókun fundar Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1239 Í gjaldskrá Félagsheimilisins Hvammstanga er kveðið á um heimild til að veita afslátt vegna verkefna í samfélagsþágu. Til þeirra teljast m.a.:
    Samkomur fyrir leik- og grunnskólabörn á vegum skóla eða foreldrafélaga.
    Samkomur á vegum dreifnáms eða Tónlistarskóla Húnaþings vestra.
    Samkomur fyrir börn og ungmenni á vegum íþrótta- og æskulýðsfélaga.
    Samkomur á vegum félagasamtaka eða góðgerðarfélaga í sveitarfélaginu sem börn, ungmenni eða eldri borgarar njóta góðs af.
    Fyrirhugaðir tónleikar kórsins falla ekki undir framangreint og er því beiðni um afslátt hafnað.
  • Byggðarráð - 1239 Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að sækja um rekstrarleyfi fyrir Félagsheimilið Hvammstanga. Forsvarsmaður leyfisins verður sveitarstjóri en sveitarfélagið ábyrgt gegn brotum á leyfinu og öðru því sem upp kann að koma á viðburðum sem haldnir eru í skjóli leyfisins. Sveitarfélagið verður ekki undir neinum kringumstæðum milligönguaðili um kaup á áfengi sem veitt eða selt er á viðburðum. Notkun og geymsla áfengis í Félagsheimilinu er ávallt háð skilyrðum Stefnu um vellíðan án áfengis, tóbaks og vímuefna sem nú er í vinnslu hjá sveitarfélaginu, þar með talið aldurstakmörk á viðburði þar sem áfengi er veitt. Viðburðarhaldari sem heldur viðburð í skjóli rekstrarleyfisins skal undirrita yfirlýsingu um að hann ábyrgist að öllum lögum og reglum verði fylgt í hvívetna enda geta brot varðað ýmist sektum eða afturköllun leyfis. Komi til sekta ábyrgist viðburðahaldari greiðslu þeirra.
  • Byggðarráð - 1239 Reglurnar voru áður hluti af mannauðsstefnu en eru ekki hluti nýrrar útgáfu hennar sem samþykkt var í desember 2024. Byggðarráð samþykkir framlagðar verklagsreglur og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.
  • Byggðarráð - 1239 Siðareglurnar voru áður hluti af mannauðsstefnu Húnaþings vestra en eru ekki hluti nýrrar útgáfu hennar sem samþykkt var í desember 2024. Byggðarráð samþykkir framlagðar siðareglur og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.
  • Byggðarráð - 1239 Fundurinn verður haldinn 2. apríl 2025 á Akureyri.
  • Byggðarráð - 1239 Byggðarráð tekur vel í beiðnina og felur sveitarstjóra að vinna málið áfram.
  • Byggðarráð - 1239 Á árinu 2023 var lagt fram frumvarp til laga um breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sem ekki náði fram að ganga. Frumvarpið hefur nú verið lagt fram að nýju með nokkrum breytingum.

    Byggðarráð Húnaþings vestra vill byrja á því að fagna allri vinnu sem miðar að því að auka gegnsæi og fyrirsjáanleika í ráðstöfun fjármuna Jöfnunarsjóðs. Hins vegar getur ráðið ekki látið hjá líða að gera athugasemdir við þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu frá því að það var lagt fram árið 2023. Þegar frumvarpið var lagt fram það ár hafði það ekki í för með sér breytingu á framlögum Húnaþings vestra. Þegar þær breytingar sem gerðar hafa verið nú eru skoðaðar kemur í ljós að framlög til Húnaþings vestra munu lækka um ríflega 38 milljónir á ári. Byggðarráð fær illa séð hvernig sú lækkun kemur heim og saman við stöðu sveitarfélagsins ef litið er til atvinnutekna í sveitarfélaginu sem eru þær þriðju lægstu á landinu skv. mælaborði Byggðarstofnunar. Lágar atvinnutekjur þýða lágt útsvar enda eru útsvarstekjur pr. íbúa í Húnaþingi vestra með því lægsta sem gerist á landinu. Þó endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs hafi verið orðin brýn verður að hafa hugfast að hlutverk sjóðsins er að „jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum“. Byggðarráð leggur því til að atvinnutekjur í sveitarfélögum fái vægi í útreikningum sjóðsins þar sem þær hafa bein áhrif á tekjustofna þeirra.

    Byggðarráð tekur undir þá tillögu sem fram kemur í 13. grein frumvarpsins um að vannýting útsvars leiði til lækkunar framlaga úr Jöfnunarsjóði.
  • Byggðarráð - 1239
  • Byggðarráð - 1239 Heildarhlutur Húnaþings vestra í tapi á rekstri málaflokksins er kr. 12.127.185.
  • Byggðarráð - 1239 Hljóðar styrkurinn upp á kr. 500 þúsund. Grunnskóli Húnaþings vestra hlaut einnig tvo styrki úr Lýðheilsusjóði, annars vegar kr. 300 þúsund til kaupa á leiktæki fyrir fötluð börn og hins vegar kr. 300 þúsund til grænmetisræktunar á skólalóðinni. Byggðarráð fagnar styrkveitingunum.
  • Byggðarráð - 1239 Í bréfinu er vakin athygli á því að á Hvammstanga þar sem er starfsstöð Vinnumálastofnunar er aðeins eintenging en ekki hringtenging á ljósleiðarastreng. Lýsir stofnunin yfir áhyggjum vegna stöðunnar en örugg fjarskipti eru grunnforsenda starfsemi stofnunarinnar í sveitarfélaginu. Byggðarráð tekur undir áhyggjur Vinnumálastofnunar og felur sveitarstjóra að óska eftir fundi með Mílu og ráðherra málaflokksins vegna stöðunnar.
  • Byggðarráð - 1239

3.Fræðsluráð - 252

Málsnúmer 2502008FVakta málsnúmer

Fundargerð 252. fundar fræðsluráðs frá 27. febrúar sl. lögð fram til afgreiðslu á 389. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Elín Lilja Gunnarsdóttir formaður fræðsluráðs kynnti fundargerð.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

4.Landbúnaðarráð - 217

Málsnúmer 2503001FVakta málsnúmer

Fundargerð 217. fundar landbúnaðarráðs frá 5. mars sl. lögð fram til afgreiðslu á 389. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Þorleifur Karl Eggertsson oddviti kynnti fundargerð.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Landbúnaðarráð - 217 Til úthlutunar fjármagns til viðhalds og endurnýjunar heiðagirðinga er kr. 3.500.000.


    Landbúnaðarráð samþykkir eftirfarandi úthlutun til viðhalds og endurnýjunar heiðagirðinga árið 2025:
    Fjallskiladeild Hrútafirði kr. 1.100.000.
    Fjallskiladeild Miðfirðinga kr. 1.200.000.
    Fjallskiladeild Víðdælinga kr. 1.200.000.

    Landbúnaðarráð leggur til að taxti við vinnu við heiðagirðingar á árinu 2025 verði eftirfarandi:
    Verktakagreiðsla kr. 3.865 pr. klukkustund, taxti fyrir fjórhjól verði kr. 3.865 pr. klukkustund og taxti fyrir sexhjól verði kr. 4.075 pr. klukkustund. Ofan á þessa taxta leggst 24% virðisaukaskattur. Akstur verður greiddur samkvæmt taxta ríkisins.

    Landbúnaðarráð minnir á mikilvægi þess að fjallskilastjórnir haldi kostnaði vegna heiðagirðinga innan fjárhagsheimilda. Jafnframt er minnt á að samkvæmt reglum vegna styrkja til fjallskiladeilda skal öllum reikningum skilað fyrir 31. október nk.

    Bókun fundar Afgreiðsla landbúnaðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • 4.2 2503002 Styrkvegir 2025
    Landbúnaðarráð - 217 Kallað hefur verið eftir upplýsingum frá fjallskiladeildum vegna undirbúnings umsóknar Húnaþings vestra í styrkvegapott Vegagerðarinnar árið 2025, sjá 1. dagskrárlið 216. fundar landbúnaðarráðs þann 12. febrúar sl.

    Sveitarstjóra er falið að vinna að umsókn í samráði við fjallskilastjórnirnar.

  • 4.3 2503003 Minkaveiði 2025
    Landbúnaðarráð - 217 Samþykkt að fela sveitarstjóra að auglýsa eftir veiðimönnum í minkaveiði sumarið 2025 og vera í sambandi við formenn veiðifélaga sveitarfélagsins vegna framkvæmdar veiðanna.

5.Skipulags- og umhverfisráð - 373

Málsnúmer 2502010FVakta málsnúmer

Fundargerð 373. fundar skipulags- og umhverfisráðs frá 4. mars sl. lögð fram til afgreiðslu á 389. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Ingimar Sigurðsson formaður skipulags- og umhverfisráðs kynnti fundargerð.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 373 Vindmyllur með heildarhæð um 250 metra eru mjög áberandi í landslagi og sjást víða að. Því er líklegt að slík mannvirki muni hafa veruleg sjónræn áhrif og ásýnd í Hrútafirði.

    Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að fá skýrari mynd af mögulegum áhrifum með sjónrænum gögnum eða myndum sem sýna fyrirhugaða vindorkugarðinn t.d frá Borðeyri og Brautarholti. Þetta myndi gefa gleggri mynd hversu sýnilegar vindmyllurnar yrðu í Hrútafirði og hvernig þær munu hafa áhrif á landslagið frá mismunandi sjónarhornum til að tryggja upplýsta ákvarðanatöku.
    Bókun fundar Lögð fram eftirfarandi tillaga:
    „Sveitarstjórn tekur undir bókun skipulags- og umhverfisráðs. Ekki er hægt að veita umsögn um áformin fyrr en frekari gögn liggja fyrir“.
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 373 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að hafin verði vinna við heildarendurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins fyrir tímabilið 2026-2038 í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.

    Ráðið telur mikilvægt að vinna við endurskoðun aðalskipulags verði hafin með formlegum hætti, þar sem tekið verði mið af þróun sveitarfélagsins, framtíðarsýn og samfélagslegum áskorunum. Jafnframt verði lögð áhersla á samráð við íbúa, hagsmunaaðila og opinberar stofnanir í samræmi við lög og bestu skipulagsvenjur.

    Ráðið felur skipulagsfulltrúa að leggja fram tillögu að verkáætlun fyrir endurskoðunarferlið.
    Bókun fundar Afgreiðsla skipulags- og umhverfisráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 373 Tekið er til umfjöllunar erindi frá Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, dags. 13. febrúar 2025, þar sem óskað er eftir umsögn sveitarstjórnar um undanþágu frá skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sbr. 13. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


    Skipulags- og umhverfisráð gerir ekki athugasemd við veitingu undanþágunnar að því gefnu að tryggðar verði viðeigandi varnir gegn ágangi sjávar, s.s. með gerð brimvarnargarðs, til verndar mannvirki og þeim mannvirkjum sem þegar eru til staðar.


    Ráðið leggur til við Sveitarstjórn að samþykkja bókun ráðsins og afgreiða til ráðuneytisins umsögn í samræmi við ofangreint.
    Bókun fundar Afgreiðsla skipulags- og umhverfisráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 373 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að gera engar athugasemdir við skipulagstillöguna. Bókun fundar Afgreiðsla skipulags- og umhverfisráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

6.Félagsmálaráð - 260

Málsnúmer 2502007FVakta málsnúmer

Fundargerð 260. fundar félagsamálaráðs frá 26. febrúar sl. lögð fram til afgreiðslu á 389. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Þorleifur Karl Eggertsson oddviti kynnti fundargerð.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Félagsmálaráð - 260 Lögð fram drög að stefnu um vellíðan án tóbaks, áfengis og annarra vímuefna. Félagsmálaráð bendir á að skoða þarf lög og reglugerðir um aldurstakmark, hvort farið er eftir fæðingarári eða fæðingardegi en gerir ekki aðrar athugasemdir við drög að stefnu.
  • Félagsmálaráð - 260 Sviðsstjóri fjölskyldusviðs fór yfir helstu verkefni í febrúar 2025.

7.Verklagsreglur sveitarstjórnar við ráðningar starfsmanna

Málsnúmer 2502061Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn samþykkir Verklagsreglur Húnaþings vestra við ráðningar starfsmanna.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

8.Siðareglur starfsmanna Húnaþings vestra

Málsnúmer 2502062Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn samþykkir Siðareglur starfsmanna Húnaþings vestra.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

9.Skýrsla sveitarstjóra

Málsnúmer 2311018Vakta málsnúmer

Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri gerði grein fyrir helstu störfum sínum frá síðasta reglulega sveitarstjórnarfundi.

Skýrslan var flutt munnlega og til kynningar.

Fundi slitið - kl. 15:42.

Var efnið á síðunni hjálplegt?