Formlega hleypt á hitaveitu
Stór áfangi var hjá Hitaveitu Húnaþings vestra í gær þegar vatni var hleypt á stofnlögn í Miðfirði, frá dælustöð í landi Syðri Reykja að Brekkulæk. Það var oddviti sveitarfélagsins, Unnur Valborg Hilmarsdóttir og fyrrverandi oddviti, Brynjólfur Sveinbergsson, sem í sameiningu ræstu dæluna en þann 2. desember sl. voru 43 ár síðan Brynjólfur ræsti dælu sem hleypti vatni á fyrsta hús á Hvammstanga. Með því má segja að framkvæmdum hitaveitunnar í Miðfirði og Hrútafirði á árinu 2015 sé formlega lokið þá þó svo frágangur og uppsetning tengigrinda innanhúss taki einhverjar vikur í viðbót.